Darri

Örnefnið Darri kemur fyrir á þremur stöðum á landinu, í öllum tilfellum sem heiti á fjalli eða hnjúk. Nafnið kemur aðeins fyrir í nyrstu hlutum landsins, tvisvar á Hornströndum og einu sinni í Fjörðum á Flateyjarskaga. Þá kemur nafnið Derrir einnig fyrir norðanlands, á fjalli í Eyjafjarðarsveit, milli Þorvaldsdals og Skíðadals. Þar að auki er mannsnafnið Darri vel þekkt á síðari tímum eftir að hafa verið endurvakið úr fornu máli á 20. öld.

Sunnan við Aðalvík á Hornströndum er fjallendi og heita þar fjöll frá austri til vesturs Lækjarfjall, Tindfjall og Rytur. Í örnefnaskrá yfir Grænuhlíð eftir Jóhann Hjaltason er Darra lýst svo: „Uppi á [Lækjarfjalli], innan til við skörðin, er allhár hnjúkur eða stapi, sem kallast Darri.“ Í skrá yfir örnefni Skáladals eftir Ara Gíslason er sagt frá því að við botn Skáladals sé „há hyrna sérkennileg, sem heitir Darri. Þar býr bergbúi mikill, sem sagnir eru frá. Vestan við Darrann eru svo Rytaskörð, og vestan við Darrann er annar neðar í skörðunum örþunnur, sem heitir Lægri-Darri. Hyrnur þessar eru báðar auðþekktar af lögun sinni. Þeir eru báðir austan við Rytaskörðin.“
 
Í sóknalýsingum er önnur lýsing: „Af fjöllum er Rytur fyrstur á ytri enda sóknarinnar. Yzt uppi á honum eru hnjúkar tveir, hærri Rytshöttur að austan, en lægri Rytshöttur að vestanverðu. Þá eru Rytaskörð fyrir innan Ryt, þá Darri, hár hnjúkur fyrir innan Rytaskörð.“ (Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), bls. 164.)
 
Í fiskimiðasafni Lúðvíks Kristjánssonar sem varðveitt er í örnefnasafni Árnastofnunar er Darri nafn á miði í mynni Önundarfjarðar. Til að staðsetja það þarf að taka mið af fjallinu Gelti við norðanverðan Súgandafjörð í fjallið Darra.
 
Darri kemur lítillega við sögu vestfirskra þjóðsagna. Í Vestfirzkum sögnum sem Arngrímur Fr. Bjarnason og Helgi Guðmundsson tóku saman er þessi frásögn:
 
     Rytur heitir andnesið norðanvert við Ísafjarðardjúp, en vestanvert við Aðalvík. Uppi á Rytnum er einstök klettaborg, sem heitir Darri. Herma forn munnmæli, að þar hafi til forna búið tröll eða bergþurs. Bergbúi þessi sótti fast sjóinn, en ekki er þess getið að hann grandaði neinu, hvorki mönnum né skepnum. Í þann tíð var allt fiskað á vað, síðar nefnt handfæri.
     Aðalvík var fjölbyggð í þann tíma og var þar margt röskra manna, sem kepptu hvor við annan um sjósóknina, sem var aðalbjargræðið.
     Eitt sinn að haustlagi höfðu menn almennt róið í Aðalvík; hafði verið góðfiski undanfarið og menn því óðfúsir til sjósókna. Fiskistaða var í dýpra lagi og örust norður á Straumnesröst.
     Þegar komið var til miða lögðust flest skipin við stjóra og síðan var tekið til fiskidráttar. Strax var nægur fiskur fyrir og fengu flestir góðan afla á skammri stundu.
     Allt í einu sáu menn stórvaxinn mann á steinnökkva í bátaflotanum: Kallaði hann hárri röddu, svo vítt mátti heyra: „Dimmir á Darra, dragið upp vaði“.
     Formenn litu til lands við hróp þetta og sáu, að dimma kólguhnykla leiddi yfir Rytinn. Leizt þeim flestum svo, að rétt væri að hlýða aðvörun bergbúans, og létu draga upp vaði og halda til lands.
     Tveir formanna sátu þó eftir. Þótti þeim súrt í broti að fara frá svo góðum afla og ekki ástæða til skjótra umsvifa, þar sem veður var enn sæmilegt.
     Skipti það engum togum, að eftir örskamma stund var komið afspyrnuveður. Þó náðu bátar þeir, sem hlýddu aðvörum bergbúans, landi án mikilla hrakninga, enda voru þeir komnir talsvert til lands, þegar ofveðrið skall yfir. Hinir bátarnir, sem eftir sátu, fórust með allri áhöfn. (Vestfirzkar sagnir II (1945), bls. 177-179.)
 
Vestast á Darra eru leifar af hernaðarmannvirkjum úr seinna stríði, tómir grunnar, byssustæði og járnadrasl, leifar af ratsjárstöðinni Baldri sem Bretar reistu þarna í upphafi stríðsins. (Páll Ásgeir Ásgeirsson, Hornstrandir (2007), bls. 38.)
 
Rústir hernaðarmannvirkja á Darra við Aðalvík
 
Rústir hernaðarmannvirkja uppi á fjallinu Darra við Aðalvík á Hornströndum. Ljósm.: Ernir Ingason.
 
Annar Darri á Hornströndum er í fjalllendinu milli Hælavíkur og Rekavíkur bak Höfn. Nokkur munur er á því hvernig örnefninu er lýst. Í örnefnaskrá Hælavíkur sem Þórleifur Bjarnason er heimildamaður að er Darra lýst sem „miklu fjalli“. Í minningabók sinni, Hjá afa og ömmu (1960, bls. 53) lýsir Þórleifur fjallinu svo: „Sunnan [Atlaskarðs] rís hátt og tigið hamrafjall, Darrinn. Það var gott fjall. Klettar þess eru fríðir og sviphreinir. Darrinn minnti mig alltaf á spakan mann í þungum þönkum.“ Í örnefnaskrá Jóhanns Hjaltasonar yfir Hælavík er Darri sagður fjall en í skrá eftir Ara Gíslason er talað um tindinn Darra. Heimildamaður þeirra beggja var Sigmundur Guðnason úr Hælavík.
 
Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Rekavík bak Höfn horfir málið dálítið öðruvísi við. Þar er svo að skilja að fjallið suðvestur af bænum heiti Nónfjall og Darri sé aðeins ákveðinn hluti þess. Þar segir: „Sunnan við [Atlaskarð] rís upp endi Nónfjalls, og heitir þar Darri, en öxlin norðan við skarðið heitir Högg. Hér er skarð ofan í klettana, sem aldrei er farið, en heitir Darraskarð.“ Heimildamenn Ara voru Guðmundur Guðnason úr Hælavík og Stefán Pétursson frá Rekavík bak Höfn. Í örnefnaskrá Jóhanns Hjaltasonar yfir Rekavík er heimildamaðurinn Sumarliði Betúelsson frá Höfn í Hornvík. Hann hefur enn aðrar skilgreiningar á örnefnunum. „Þvert fyrir víkurbotninum [í Rekavík] eru svo hamrabrúnir miklar, er eigi bera sérstök nöfn, en vestan við þær er há klettaöxl, er kallast Darri. Norðan við hann er klettalaust skarð í fjallgarðinn, en þó allbratt uppgöngu og nefnist það Atlaskarð. Um það liggur leiðin vestur til Hornvíkur og Búða.“ Í örnefnaskránni kemur fram að fjallið suðaustan Rekavíkur heiti Hafnarfjall. Það er sama fjall og sumir hafa viljað nefna Nónfjall eða Darra. Munur er semsé á því hvað fjallið er kallað eftir því hvaðan er horft og einnig á því hvort nafnið Darri er haft yfir allt fjallið eða einungis ákveðinn hluta þess. Ólíklegt er að hægt sé að komast að því hvað muni upprunalegast hér út frá ofannefndum heimildum.
 
Þriðji Darrinn er upp af Hvalvatnsfirði í Fjörðum. Honum er lýst svo í örnefnaskrá Kussungsstaða: „Upp af Öldugili út af Brúnum heita Darramýrar, og þar upp af rís svo Darri, allhár hnúkur sem mikið ber á hér á þessari tungu.“ Darri er þarna hnjúkur á norðurenda fjalls sem nær allangt í suður en er að öðru leyti ekki nafngreint.
 
Í fornu máli merkti orðið darr ʻspjótʼ og skylt því er orðið darraður, svipaðrar merkingar. Af síðarnefnda orðinu er þekkt samsetningin darraðardans sem merkir ʻbardagiʼ eða ʻólætiʼ. Sagnorðið að darra hefur líka verið til að fornu og merkti að ʻsveiflast tilʼ eða ʻblaktaʼ. Lýsingarorðið darralegur hefur haft takmarkaða útbreiðslu og merkt eitthvað ʻvígalegtʼ eða ʻháreist og mikið með sigʼ.
Af sama toga eru orð með derr- í stofni: no. derringur, so. að derra og lo. derrinn. Það fyrst nefnda merkir einkum ʻmikillætiʼ en getur einnig merkt ʻstinnan vindʼ. Sögnin merkir ʻað vera mikill með sig, gera sig breiðanʼ og lýsingarorðið að sama skapi þá ʻmikilláturʼ.
 
Darri er einnig til sem mannsnafn. Það kemur fyrir í fornum ritum og var tekið í notkun aftur á 20. öld (sbr. Guðrún Kvaran, Sigurður Jónsson frá Arnarvatni, Nöfn Íslendinga, bls. 180-181). Viðurnefnið darri var líka til, Þórður darri kemur þannig fyrir í Sverrissögu (sbr. Flateyjarbók III (1945), bls. 273) og í norskum miðaldaskjölum kemur það nokkrum sinnum fyrir. Annars er bæði mannsnafnið og viðurnefnið sjaldgæf á Norðurlöndum.
 
Mannsnafnið kemur hugsanlega fyrir í örnefninu Darrastaðir sem getið er um í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (III, bls. 106). Þar er jörð með þessu nafni sögð hafa verið í byggð áður fyrr í Rosmhvalaneshreppi en ekki var vitað um staðsetningu. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu (2007), bls. 74, segir að Darrastaðir sé eldra heiti á bænum Kothúsi í Leiru á Suðurnesjum. Bæjarheitið Darrabúðir hefur verið til að fornu í Noregi (sbr. E.H. Lind, Norsk-Isländska personbinamn från medeltiden (1920-1921), dálkur 57).
 
E.H. Lind (Norsk-Isländska dopnamn og fingerade namn från medeltiden (1905­-1915), dálkur 198) gerir ráð fyrir að mannsnafnið (og viðurnefnið) Darri sé dregið af hvorugkynsorðinu darr sem merkir ʻspjótʼ á sama hátt og nöfnin Spjóti og Sverði eru dregin af orðunum sverð og spjót.
 
Auk áðurnefndra Darra kemur nafnið Derrir fyrir sem fjallsheiti norður í Þorvaldsdal í Eyjafirði. Derrir er 1253 m hár og er lýst sem „brúnaþungu fjalli“. „Derrir horfir út yfir skjólsælasta og gróðurríkasta hluta alls Þorvaldsdals, Fögruhlíðina, sem í þrengri merkingu er talin aðeins milli Derrisár og Olnbogalækja.“ Önnur örnefni kennd við fjallið á þessum slóðum eru DerrisdalurDerrisdalsskarð og Derriskinnar. (Jóhannes Óli Sæmundsson, Þorvaldsdalur (Í Ferðum, blaði Ferðafélags Akureyrar, 30. árg., júní 1971), bls. 22.) Í annarri heimild eftir Jóhannes Óla um örnefni í Árskógshreppi (varðveitt í handriti í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum) er Derri lýst sem „sérstæðum hnjúki“ og „einstöku og sérkennilegu fjalli“. „Gamalt er þetta nafn, og mun gefið út frá hugtakinu að derra sig, sem þýðir hér ʻað láta mikið á sér beraʼ.“ Í örnefnaskrá yfir Þorvaldsdal eftir Margeir Jónsson er Derri lýst sem einkennilegum klettahnjúk: „Hann er afar hár, fallega þrístrendur, líkt og píramídi og nær því ókleifur.“
 
Ekki er ólíklegt að hvorttveggja mannsnafnið og örnefnið dragi nafn sitt af sverðsheitinu darr. Bæði Darra við Aðalvík og Derri er lýst sem hnjúkum eða hyrnum og jafnvel líkt við píramída. Líkingin við spjótsodd er því nærtæk. Darra upp af Rekavík er hins vegar lýst ýmist sem hárri klettaöxl eða heilu fjalli. Hugsanlegt er að nafnið hafi í því tilfelli upphaflega aðeins átt við öxlina og hún þótt líkjast spjótsoddi. Síðar færðist nafnið yfir á allt fjallið í munni þeirra sem bjuggu vestan við það. Ýmsar aðrar merkingar darra-orðanna geta líka átt við fjallsheitið, t.d. eitthvað sem er ʻháreistʼ eða ʻmikið með sigʼ. Valgarður Egilsson bendir t.d. á það í kaflanum Strandbyggðir Mið-Norðurlands (Árbók FÍ 2000, bls. 158) að fjallið Lútur (eða Lútin) hafi nafn sem sé andstætt Darra og á þá við að Lútur sé lágreistur (eitthvað sem ʻlýturʼ) en Darri sé væntanlega að sama skapi háreistur (ʻdarralegurʼ).

Hallgrímur J. Ámundason
(júlí 2010)