Gleraugnatjörn

Gleraugu eru tiltölulega ung uppfinning í sögu mannskyns. Fyrstu raunverulegu gleraugun koma ekki fram fyrr en á 13. öld á Ítalíu og það líður fram á 18. öld áður en mönnum dettur í hug að skorða þau milli nefs og eyrna. Á Íslandi er fyrsti gleraugnaglámurinn sagður vera Pétur Einarsson á 16. öld.  Pétur þessi forframaðist erlendis en hafði síðan ýmis störf með höndum á Íslandi: umboðsmaður hirðstjóra, klausturhaldari, ráðsmaður í Skálholti, sýslumaður, prestur og prófastur. Hann gekk undir auknefninu Gleraugna-Pétur.

Eins og gefur að skilja er þess ekki að vænta að gleraugna sjá mikið stað í íslenskum örnefnum. Þó er til eitt örnefni sem kennt er við gleraugu og liggur í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Það hefur verið kallað Gleraugnatjörn eða Gleraugnavatn en fleiri munu þekkja það sem Krókatjörn. Vatn þetta er eitt af mörgum smávötnum austur af Hafravatni og Langavatni, ekki langt frá Miðdal.

Í ritgerð Hjartar Björnssonar frá Skálabrekku um örnefni á Mosfellsheiði kemur nafnið fyrst fyrir á prenti: „Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn.“ (Bls. 167.) Í neðanmálsgrein hefur Matthías Þórðarson þjóðminjavörður bætt við: „Það mun vera þýðing á örnefni, sem nokkrir danskir menn gáfu tjörninni fyrir 20-30 árum.“ Nafnið hefur því að ætlan hans verið frá því upp úr aldamótunum 1900.

Sigurbjörn Þorkelsson kaupmaður í Vísi var á leið úr Þingvallasveit yfir Mosfellsheiði til Reykjavíkur á hestvagni sumarið 1909. "Þegar við vorum að komast niður af heiðinni og nálguðumst Gleraugnavatn, þurfti konan að fara niður úr vagninum til þarfinda sinna. ... Var nú haldið áfram, og þegar komið var niður fyrir Geitháls, var veðrið miklu betra, og þegar við komum til Reykjavíkur, var rigningarlaust og aðeins nokkur vindstig." (Bls. 84-85.)

Í Alþýðublaðinu 13. október 1961 er sagt frá bófahasar í grennd við Gleraugnavatn (bls. 1 og 12): "Strokufangarnir ... voru teknir í gær í sumarbústað, er stendur við svokallað Gleraugnavatn skammt frá bænum Miðdal. Höfðu þeir ekið þangað á stolinni bifreið, er þeir tóku í Hafnarfirði. Tveir rannsóknarlögreglumenn fundu þá, og veittu þeir enga mótspyrnu við handtökuna. ... Er þeir komu að afleggjara, sem liggur upp að Gleraugnavatni, sáu þeir hina stolnu bifreið. Óku þeir þá eftir afleggjaranum og að sumarbústað, sem stendur þarna við vatnið. Skammt frá honum er svo annar bústaður, og fundu þeir piltana þar."

Þetta nafn, Gleraugnavatn eða Gleraugnatjörn, kemur tæplega fyrir á kortum. Aðalheitið er Krókatjörn, það er hið opinbera nafn en hin lifa meðfram sem aukanöfn. Staðkunnugir menn þekkja þó enn mætavel þessi nöfn. Ekki er mikill munur á hvort nafnið muni þekktara, Gleraugnatjörn eða Gleraugnavatn, þau koma álíka oft fyrir í heimildum.


Heimildir
Hjörtur Björnsson. Örnefni á Mosfellsheiði. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937-1939, Rv. 1939, bls. 167.
Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár O-S. Reykjavík 1951.
Sigurbjörn Þorkelsson. Himneskt er að lifa II. Ekki svíkur Bjössi. Sjálfsævisaga II. Reykjavík 1968.
Wikipedia (http://en.wikipedia.org/wiki/Glasses). Sótt 1.10.2012.


 


Hallgrímur J. Ámundason
(október 2012)