Kleif

Örnefni með orðliðnum -kleif- eru fjölmörg á Íslandi og finnast víða um land. Bæjarnafnið Kleif kemur nokkrum sinnum fyrir í eintölu (í Eyf., Skag., N-Múl., S-Múl.) og ekki síður í fleirtölunni Kleifar (Strand., Snæf., Dal., N-Ís.). Frá Kleifum í Kaldbaksvík (Strand.) er Magnea Magnúsdóttir rithöfundur (Magnea frá Kleifum). Önnur bæjanöfn með Kleif- eru t.d. Kleifa(r)kot (N-Ís.), Kleifargerði (Skag.), Kleifastekkur (S-Múl.), Kleifárvellir (Hnapp.) og Kleifastaðir (A-Barð.). Sumra þessara bæja er getið þegar í Landnámu.

Kleifarvatn er að líkindum þekktasta örnefnið með þessum orðlið. Vatnið liggur undir Sveifluhálsi á Reykjanesskaga. Vatnsskarð er rétt norðan við vatnið og í skarðinu er kleifin sem Kleifarvatn er kennt við. Skáldsaga eftir Arnald Indriðason ber sama nafn og gerist að hluta við vatnið.

Kleifahreppur var nafn á hreppi í Vestur-Skaftafellssýslu (nafnið hvarf 1892 þegar hreppnum var skipt í tvennt). Í örnefnaskrá Markar í hinum forna Kleifahreppi segir: "Rétt innan við Stjórn ... er ... lækur, sem heitir Strákalækur ... Vegurinn upp með honum og áfram upp í heiði liggur upp svonefnt Klif, og er hann nefndur Klifgata. Framan (utan) við lækinn er svæði, sem nefnt er Kleifar. Kleifahreppur dró nafn sitt af þeim."

Kleifaheiði heitir heiðin milli Patreksfjarðar og Barðastrandar. Á henni stendur Kleifabúi, steinkarl sem hlaðinn var af vegavinnumönnum árið 1947 (sjá mynd). 


Kleifabúi á Kleifaheiði.

Í Heimaey eru örnefnin Kleifar og Kleifnaberg. "Upp af Kleifnabergi er grasbrekka nefnd Kleifar. Er uppgangan að henni nefnd Neðri-Kleifar ... en ofan við brekkuna Efri-Kleifar." 

Á Suðureyri við Súgandafjörð "er Kleifin, hún er þar sem farið var niður af bökkunum og í fjöruna. Þetta var ansi erfið brekka ..." 

Í Sogni í Ölfusi er örnefnið haft um gil: "Heimri-Kleif: Lítið gil, sem kemur ofan af Þýfum ... Ytri-Kleif: Djúpt gil, kemur ofan af Vestri-Þýfum. Brattir klettar að austan en skriðubrekkur að vestan." 

Í Kaldárhöfða í Grímsnesi örnefnið haft um skarð milli tveggja hóla: "Norðan við bæinn er Höfðinn, hár og víðáttumikill hóll. Norðvestan við aðalhöfðann er hár og allstór hóll og er hann aðgreindur með nafninu Vesturhöfði; og aðalhöfðinn þá nefndur Austurhöfði. Skarðið milli höfðanna heitir Kleif; toppmyndaður hóll er í Kleifinni, er heitir Kleifbúi.

Í Hvalfirði heitir svæði milli Þyrils og Botns Kleifar. Það er þar sem vegurinn stóð tæpast og brattast var niður í fjöru. 

Jórukleif er þekkt úr þjóðsögunum. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (I, 173-5) segir frá Jórunni sem kölluð var Jóra, stúlku úr Flóanum. Í Bárðarsögu Snæfellsáss (frá 14. öld) er Jóra þessi hinsvegar talin til tröllkvenna en örnefnið Jórukleif kemur þar einnig fyrir (Íslensk fornrit XIII). Samkvæmt þjóðsögunni tók hún sér bólfestu í Henglinum og eru síðan þar nokkur örnefni kennd við hana: Jóruhlaup, Jóruhellir, Jórusöðull. Jórukleif er þó kunnast þeirra og er í þjóðsögunni sagt vera hamragil "og heitir enn í dag Jórukleif af því að Jórunn lá þar oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa". Í Sýslu- og sóknalýsingum Bókmenntafélagsins fyrir Árnessýslu (bls. 174) segir hinsvegar: "Jórukleif kallast klettótt, lág heiðarbrún með Þingvallavatni að vestan".

Í Holti í Kirkjubæjarhreppi virðist nafnið merkja þröngan dal, gil eða gljúfur: "Í Kleifum eru talsverðar skógarleifar ... Innst í Kleifum fellur Grjótá í gljúfri ofan í dalinn. ... Í Kleifum þrengist dalurinn mjög, eins og nafnið bendir til.

Í Síðumúla í Hvítársíðu heita Kleifar "skarð milli Vesturása (Gálgaáss) og Austurása." 

Í Mörtungu í Hörgslandshreppi virðist nafnið eiga við um dal: "Hér endar raunverulega Miðtungnaárgljúfrið, en tekur við allvíður dalur en stuttur. Hann heitir Kleifar, austan megin Miðtungnaár. ... Ofan við Kleifar heita Kleifnabrýr.

Fjölmörg önnur örnefni hafa orðliðinn -kleif-: Draugakleif, Hvestukleifar, Kleifabrysti, Kleifahellir, Kleifahjalli, Kleifahvolf, Kleifarhorn, Kleifarskál, Kleifarurð, Kleifarvík og svo mætti lengi telja.

Orðliðurinn -kleif- er þekktur í norskum örnefnum og vafalaust víðar á norrænu málsvæði. Merkingin er þar sögð vera "bratt og oftast steinut bakke som fører veg ellert stig over". (Norsk stadnamnleksikon, bls. 258.) Það er notað bæði í eintölu og fleirtölu og í samsettum örnefnum. Dæmi: Kleive, Krokkleiva, Rødkleiva, Svinakleiv.

Samkvæmt orðabókum merkir kleif eftirfarandi: 'klif' (sem aftur er 'hæð', 'einstigi', 'fjallaskarð' eða 'klettur'), 'geil í fjallshlíð', 'skarð', 'brött brekka' (grýtt), og í fleirtölu, kleifar: 'klettar' (afsleppir að ofan). Orðið kemur fyrir í norrænum málum með svipaða merkingu. Að baki liggur indóevrópska rótin *glei- sem hefur merkt eitthvað í áttina við 'líma' eða 'klístra saman'. Náskyldir ættingjar eru orð eins og klífa, klifra, klif, kleifur en fjarskyldari t.d. klína og kleppur. Nærtækt er einnig að benda á orð eins og enska cliff og danska klippe sem hvorttveggja merkir 'klettur'.

Dæmin hér að ofan sýna að orðabækur fara nærri um merkinguna. Kleif eða kleifar er haft um staði sem standa í miklum halla og erfitt er að klífa. Það geta ýmist verið brattar brekkur eða klettar, gil eða skörð. Í stöku tilfelli er nafnið haft um dalverpi.

Tilvitnanir eru í örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi nema annars sé getið.

 

Hallgrímur J. Ámundason
(febrúar 2009)