Pjaxi

Hvammur einn í Hvítá skammt neðan við Gullfoss er kallaður Pjaxi. Hann er kjarri vaxinn og þykir snotur en einstigi er niður í hann og leiðin sögð ekki vera fyrir lofthrædda. Handbækur ýmsar og ferðamannabæklingar (og Wikipedia) geta þess að nafnið sé hugsanlega dregið af latneska orðinu pax sem merkir 'friður'. Hvammurinn sé friðsæll og fagur. Spurning er þó hversu friðsæll staður getur verið sem stendur fast við beljandi jökulfljót, rétt neðan við myljandi og malandi stórfoss. Ekki er heldur ljóst hvernig stendur á -j- í nafninu enda ekkert slíkt í latínuorðinu.

Önnur skýring er nærtækari. Í orðabókum (Íslenskri orðabók, Íslenskri orðsifjabók) segir við orðið pjakka að það merki 'staulast', 'trítla' eða 'hjakka'. Líklegast verður því að telja að nafnið Pjaxi (eða Pjakksi) sé dregið af því hversu torsóttur staðurinn er. Til að komast þangað þurfa menn að pjakkast niður einstigið. Og aftur upp ef menn vilja friðar njóta.

Í Sýslu- og sóknalýsingum fyrir þetta svæði segir séra Jón Steingrímsson (1777–1851) prestur í Hruna að Pjaxi sé foss í Hvítá, „fáum föðmum“ neðan við Gullfoss (bls. 121). Ekki eru aðrar heimildir kunnar um þetta. Hvort tveggja getur hugsast, að hvammurinn dragi nafn af fossinum eða fossinn af hvamminum. Það mætti vel hugsa sér að ef nafnið hefur upphaflega verið nafn á fossi hafi það þarna merkt 'stutt skref' eða 'barnaskref', samanborið við stórstígan Gullfoss litlu ofar.

Hægt er að sjá staðsetningu örnefnisins í Örnefnasjá Landmælinga Íslands.

 

Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands 1961. Árnessýsla. Grímsnes og Biskupstungur eftir dr. Harald Matthíasson. Reykjavík 1961.
Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839–1943. Svavar Sigmundsson sá um útgáfuna. Sögufélag, Reykjavík 1979.
Landið þitt Ísland. 3. bindi. L–R. Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson, Páll Líndal. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík 1982.
Wikipedia: is.wikipedia.org/wiki/Pjaxi [sótt 7.1.2013]
Örnefnaskrá Brattholts í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


 

Hallgrímur J. Ámundason
(janúar 2013)