Snókur

Orðið snókur (kk.) kemur fyrir á nokkrum stöðum á landinu sem örnefni, bæði ósamsett og samsett. Snókur er a.m.k. til á eftirtöldum fimm stöðum:

1) Sérkennileg klettastrýta í landi Leirár, vestur af Skarðsheiði í Borg. Er líka nefnd Stellir.
2) Lítil sker (Stóri- og Litli-Snókur) í Straumfirði í Mýr.
3) Fjall upp af Lónafirði í Jökulfjörðum í N-Ís. (Mynd í Árbók Ferðafélagsins 1994:83).
4) Fjallstindur norðan við mynni Skarðsdals innarlega við Siglufjörð í Eyf. Við hann er kennd Snóksá.
5) Hóll í landi Miðbýlis á Skeiðum í Árn. og mun nafnið dregið af lögun hans, líkingu við höfuðföt fyrri alda.
6) Uppmjór hóll í Reykjakoti í Ölfusi í Árn. Þar er einnig Snókatorfa (Snjákutorfa).

Flt. Snókar er nafn á þremur tindum í fjallsbrún í landi Hurðarbaks norðan í Meðalfelli í Kjós. Einstakur strýtumyndaður hnúkur vestan við Hörðubreið á Skaftártunguafrétti í V-Skaft. er nefndur Vinstrarsnókur.

Orðið snókur merkir upphaflega 'tota, endi á e-u', t.d. á vinstur, hluta af maga jórturdýrs. En í landslagi merkir það ‘fjallstindur, klettastrýta; hali, rani, e-ð langt og mjótt sem gengur út frá e-u stærra, t.d. fjalli’. Í samsetningum er það t.d. í Snóksdalur í Miðdölum og Snókshólmi sem er nokkru fyrir neðan Árbæjarhólma í Elliðaám í Reykjavík. Bærinn Skógsnes í Gaulverjabæjarhreppi í Árn. var upphaflega nefndur Snóksnes. Snóka er á Þingvöllum, dýpsti hluti Almannagjár, stytt úr Snókagjá. Snókabrún er í landi Kiðabergs í Grímsnesi í Árn. Snókafell er í Afstapahrauni á Vatnsleysuströnd og er með rana eða háls út frá sér. Snókalönd eru norðan við Óbrinnishólabruna í landi Hvaleyrar í Hafnarfirði. og út úr honum skaga margar totur. Snókarimi er í landi Laxárbakka í Miklaholtshr. í Snæf. Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur telur Snóka-örnefnin dregin af jurtinni snókahvönn, og nefnir hann sérstaklega í því sambandi Snókahvamm í Glerárgili á Akureyri, þar sem mikið vex af geithvönn. (Munnleg heimild.)

Ásgeir Blöndal Magnússon segir í orðsifjabók sinni (bls. 92) að orðið snókur sem örnefni hafi fengið j-innskot allsnemma. Snjókafjall er í landi Kambs í Deildardal í Skag. Ætla má að það hafi upphaflega heitið Snókafjall eða Snóksfjall því neðan úr dalnum líkist það hundshaus með trýnið út að Kambsgili.

Helstu heimildir:
Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. 1989.
Örnefnaskrár í Örnefnastofnun Íslands.

 

Svavar Sigmundsson
(júní 2004)