Yxn- og Öxn- í örnefnum

Allnokkur örnefni á Íslandi eru kennd við nautgripi, t.d. Bolalækur, Nauteyri, Tarfshóll, Tuddagjá, Uxahryggir, Yxnatunga, Þjórsá, Öxney. Deildar meiningar eru að vísu um hvort fyrri liðurinn í Þjórsá vísi til nautgripa eða sé annarrar merkingar. Örnefni með Yxn- og Öxn- hafa nokkra sérstöðu í þessum hópi. Þau eru af einni rót, þeirri sömu og er í nöfnum með Uxa-, og þau eru bæði safnheiti, vísa til margra eintaka af sömu tegund.

Guttormur (1992-2005)Í fornu máli voru bæði til orðmyndirnar oxi og uxi, sú síðarnefnda að líkindum heldur eldri. Fleirtölumyndin af uxi var yxn og af oxi var leidd fleirtalan öxn (forníslenska øxn). Í nútímamáli er fleirtalan af uxi alltaf uxar en gamla fleirtalan sést ekki nema í nokkrum örnefnum, sbr. hér á eftir. Orðið oxi er sömuleiðis horfið úr venjulegu máli en er þó varðveitt á einum stað á landinu í örnefnum. Fjallið Oxi stendur við suðurenda Svartárdals í A-Hún. og þar í grennd eru fleiri örnefni af sama toga, t.d. Oxakúla, Oxaflatir og Oxavörður (Örnefnaskrá Hóls frá 1930 eftir Torfa Sveinsson). Örnefnið Oxi er ágætis dæmi um það að örnefni geta stundum geymt fornlegar myndir orða.

Þórhallur Vilmundarson hefur sett fram þá kenningu að nafnið Öxará (sem kemur fyrir a.m.k. þrisvar á Íslandi) hafi upphaflega verið *Oxaá og dregið nafn af nautpeningi en ekki af verkfærinu og vopninu öxi (Grímnir 3, bls. 139­–140).

Örnefni með Öxn- eru að því er virðist algengari en örnefni með Yxn- og nokkur dæmi eru um að örnefni með Yxn- breytist í Öxn- en hitt virðist ekki koma fyrir, að Öxn- verði Yxn-. Má af því marka að Öxn- er hlutlausari og eðlilegri mynd í nútímamáli. Bærinn Öxnatunga í Þorkelshólshreppi í V-Hún. er dæmi um þetta en hann hét áður Yxnatunga. Nokkur önnur örnefni í landi jarðarinnar hafa hinsvegar enn Yxn-, t.d. Yxnaá og Yxnatungusel.

Það sama gildir um örnefni með Yxn- og Öxn- að þau draga nafn af því að þar hefur nautpeningur hafst við. Örnefnin sem hafa fyrri lið með eintölumerkingu, eins og Bolafjall eða Tarfshóll, geta á hinn bóginn líka vísað til stakra gripa eða verið líkinganöfn. Sennilega dregur fjallsheitið Oxi nafn sitt af því að líkjast uxa á einhvern hátt rétt eins og fjöll sem heita Hestur eða Göltur líkjast að einhverju leyti viðkomandi dýri.

Örnefni með Yxn- eru m.a. þessi: Yxnagilsá er í Skriðdal eystra, Yxná í landi Maríubakka á Síðu, Yxnavöllur í landi Hvamms í Dýrafirði, Yxnagróf kemur fyrir í Laxdælu en er nú týnt, Yxnahjalli er í landi Bustarfells í Vopnafirði. Í örnefnaskrá Bustarfells eftir Methúsalem Methúsalemsson segir: „Fyrir ofan Sniðbalann er Yxnahjallinn. Það er talið að til forna hafi nautgripir frá Bustarfelli týnzt í skóginum, en fundizt seinna á þessum hjalla.“ Önnur örnefni með Yxn- eru t.d. Yxnadalur, Yxnhamar, Yxnishólar, Yxnakelda. Samsetningin Yxnishólar er sérkennileg og í Yxnhamar hefur líklega orðið stytting úr *Yxnahamar. Sama hefur átt sér stað í örnefninu Öxney sem heitir í elstu heimildum Öxnaey.

Örnefni með Öxn- eru m.a. þessi: Öxnalækur heitir jörð í Ölfusi („kallast af sumum Uxalækur“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, II, bls. 415), Öxnafell er bær í Eyjafirði; um hann segir í örnefnaskrá: „Öxnafellsfjall er fjallið nefnt upp af bænum; það er allhátt og mikið um sig og hefur sennilega fengið í fyrstu nafnið Öxnafell, en breytzt, eftir að bærinn byggðist.“ „Ofarlega í fjallinu, suður og upp af Öxnafelli, eru Öxnafellsklettar, allháir. Sú var trú manna að þar byggi huldufólk ...“. Í örnefnaskrá Möðruvalla er sagt frá Guðmundi ríka Eyjólfssyni sem þar bjó á 11. öld: „Talið er, að Guðmundur ríki hafi haft yxni sín, þar sem Öxnafell stendur, kálfa, þar sem nú er bærinn Kálfagerði, fjós, þar sem Fjósakot er, og stekk þar sem nú eru Stekkjarflatir.“; Öxnadalur gengur vestur úr Eyjafirði og Öxnadalsheiði er upp af honum, vafalaust þekktustu Öxna-örnefnin.

Öxney heitir eyja í Skógarstrandarhreppi gamla við mynni Hvammsfjarðar. Þar bjó Eiríkur rauði um hríð eftir að hann var gerður útlægur úr Dölum og þaðan bjó hann skip sitt áður en hann sigldi vestur um haf og fann Grænland. Í orðabók er samnafnið öxneyingur talið samheiti við orð eins og bakkabræður eða hornfirðingur og merkir þá 'afglapi' eða 'flón'. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (V, bls. 388–340) er þessi saga af Öxneyingum:

 
Öxneyingar komu eitt sinn í kaupstað og hittu þar danskan kaupmann. Þegar þeir sjá hann ræða þeir um að þeir skuli heilsa honum; þeir gjöra það. Hann tekur kveðju þeirra og segir: „Tak.“ „Hann segir tak,“ mæltu þeir; „hver skrattinn er það? Við skulum heilsa honum aftur og vita hvað hann segir þá.“ Þeir gjöra það, en hann segir sem fyrr: „Tak.“ „Takk segir hann enn,“ mæltu þeir, „heilsum honum oftar.“ Heilsa þeir honum svo lengi að honum tók að leiðast það og blótar þeim fyrir gikksháttinn. Að sönnu skildu þeir eigi hvað hann mælti, en vænt þótti þeim um það og sögðu hvor við annan: „Á svei, þar gátum við komið honum af takkinu.“

 

Hallgrímur J. Ámundason
(september 2010)