Skriftarþróun á Íslandi

Latínuletur barst til Íslands með kristninni. Stafrófsskrift var reyndar vel þekkt á þessum tíma á Norðurlöndum því að rúnir höfðu þá verið í notkun í margar aldir í Skandinavíu og voru notaðar áfram um aldir á Íslandi og í Skandinavíu. Latínuletrið þróaðist og breyttist í samræmi við skriftarþróun erlendis fram á 19. öld, fyrst í samræmi við þróunina í Noregi og á Englandi og síðar í Danmörku og á Þýskalandi. Skortur á góðri kennslubók hefur lengi staðið kennslu í handritalestri við Háskóla Íslands fyrir þrifum svo að ákveðið var að bæta úr þeirri þörf. Kennslubókin Sýnisbók íslenskrar skriftar, sem gefin var út hjá stofnuninni árið 2004, hefur að geyma sýnishorn úr u.þ.b. 100 handritum (ein blaðsíða úr hverju) ásamt staftáknréttri uppskrift á hluta textans á hverri mynd. Auk þess eru nauðsynlegar upplýsingar um hvert handrit, svo sem aldur og hver skrifaði, þ.e.a.s. ef skrifarinn er þekktur. Í inngangi er gerð grein fyrir helstu hugtökum varðandi skrift, stutt yfirlit yfir þróun skriftar í Evrópu (sérstaklega á miðöldum), yfirlit yfir þróun skriftar á Íslandi og breytingar á gerð einstakra stafa frá upphafi (elstu varðveitt handrit eru frá 12. öld) og fram um miðja 19. öld þegar Íslendingar almennt tóku upp þá skriftargerð sem notuð hefur verið síðan.

Verkefnisstjóri er Guðvarður Már Gunnlaugsson.