kafli5

Söguleg kristnitaka

Árið 1000 var svo komið að þjóðin skiptist í tvo flokka; ásatrúarmenn og hina sem aðhylltust kristna trú. Ólga var í mönnum og riðu báðir flokkar til Alþingis, líklega reiðubúnir til að berjast. Vitrir leiðtogar beggja fylkinga fengu lögsögumanninn Þorgeir Ljósvetningagoða til að skera úr í málinu. Er af því fræg frásögn í fornritum. Þorgeir kvað upp þann úrskurð að þjóðin skyldi taka kristna trú því nauðsynlegt væri að öll þjóðin hefði sömu trú til að tryggja frið.
    Þessi atburður skipar mikilvægan sess í íslenskri sögu og mikið hefur verið fjallað um kristnitökuna í öllum helstu yfirlitsritum um sögu Íslands.
    Adam frá Brimum færði fyrstur manna í letur frásögn af trúarbragðaskiptum Íslendinga í riti sínu Gesta Hammaburgensis ecclesiae pontificum (frá 1073 - 1076). Helsta íslensk heimild um kristnitökuna er Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar frá 1122-1133. Þar er fjallað um kristnitökuna sem mikilvægan þátt í sögu lands og þjóðar. Önnur heimild er Kristni saga frá 13. öld. Þá er vikið að kristnitökunni í nokkrum Íslendingasögum, svo sem Laxdælu og Njálu, auk nokkurra rita annarra.
    Flest bendir til að kristniboð á Íslandi hafi einungis staðið í skamman tíma fyrir árið 1000 og að fáir kristniboðar hafi verið að verki. Trúboðið hefur verið rekið af Noregskonungi með aðstoð engilsaxneskra og saxneskra klerka. Trúboðinu var fyrst og fremst beint til höfðingja landsins; goðanna, enda hafa markmið þess einkum verið pólitísks eðlis. Það hefur leitt til trúarbragðaskipta heilla hópa fremur en trúskipta einstakra manna því það voru höfðingjarnir sem tóku afstöðu fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Kristnitakan á Alþingi markaði tímamót í íslenskri sögu en þó ber að líta á hana sem afgerandi þátt í langtímaþróun. Trúboð hélt áfram og smám saman þróaðist kirkja og kristin menning í landinu og langur tími leið áður en kristni festi rætur með þjóðinni.

Ræða Þorgeirs Ljósvetningagoða


„En þá hóf hann tölu sína upp, er menn komu þar, og sagði, að honum þótti þá komið hag manna í ónýtt efni, ef menn skyldi eigi hafa allir lög ein á landi hér, og taldi fyrir mönnum á marga vega, að það skyldi eigi láta verða, og sagði, að það mundi af því ósætti verða, er vísa von var, að þær barsmíðir gerðust á milli manna,er landið eyddist af. Hann sagði frá því, að konungar úr Norvegi og úr Danmörku höfðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi. En það ráð gerðist svo, að af stundu sendust þeir gersemar á milli, enda hélt friður sá, meðan þeir lifðu. „En nú þykir mér það ráð,“ kvað hann, „að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorir tveggju hafi nakkvað síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.““ (Úr Íslendingabók).