kafli11

11. Listir og fjölmiðar

  • Stiklur í tónlistarsöguTónlistariðkun á fyrri öldum
Íslensk tónlistarsaga er sérstök á evrópskan mælikvarða. Tónlistarflutningur byggðist um aldir á söng þar sem aðeins örfá hljóðfæri voru á landinu ef frá eru talin íslensku hljóðfærin langspil og fiðla. Það er ekki fyrr en um 1930 sem grundvöllur er lagður að því blómlega tónlistarlífi sem nú dafnar í landinu m.a. með stofnun tónlistarskóla.

Heimildir
Einstaka heimildir eru til um tónlistariðkun manna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Allt fram á 19. öld eru heimildir fáar, aðallega ferðabækur, sjálfsævisögur, prentaðar söngbækur og nótnahandrit.
Norrænir menn voru víðförulir og gera má ráð fyrir að þeir hafi haft einhver kynni af tónlist í þeim löndum sem þeir sóttu heim. Með landnámsmönnum kom einnig fjöldi hernumins fólks, aðallega af keltneskum uppruna, og gera má ráð fyrir að þetta fólk hafi að einhverju leyti flutt með sér sína tónlistarmenningu. Íslendingar ferðuðust einnig víða á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og hafa þá komist í kynni við erlenda tónlistariðkun. Þá var tónlist hluti af menntun lærðra manna.
    Þótt heimildir séu fáorðar um hljóðfæraeign og hljóðfæraslátt á sönglistin sér langa hefð í landinu. Kaþólskur helgisöngur, kenndur við Gregor mikla (540-604), barst til landsins með kristni og var iðkaður í kirkjum og í klaustrum. Hann var aðaluppistaða messu og tíðagjörðar, enda talað um að syngja messu. Ýmis forn handrit benda til þess að í kaþólskum sið hafi verið hér margir klerklærðir menn sem kunnu góð skil á nótnaskrift. Stærsta handrit af þessu tagi er Þorlákstíðir. Þorlákur Þórhallsson, sem handritið er kennt við, var biskup í Skálholti. Hann lést árið 1193. Við hann er kennd Þorláksmessa (23. desember) en Þorlákur var lýstur helgur maður á alþingi 1198.
    Tónlist eftir siðaskiptin byggðist aðallega á sálmasöng auk flutnings á veraldlegum kvæðum eins og rímum. Fyrsta sálmabókin var prentuð 1589 og fyrsti Grallarinn kom út fimm árum síðar 1594. Þessar bækur héldust nánast óbreyttar fram á síðari hluta 18. aldar og byggðist sálmasöngurinn að langmestu leyti á þeim lögum sem í þeim var auk þess sem fjöldi sálmalaga hefur varðveist í handritum.  Hægt er að skoða gagnagrunn um íslenska tónlist á netinu þar sem finna má myndir af tónlistarhandritum, prentuðum sálmabókum og hlusta á mikinn fjölda hljóðrita.

Rímnalög
Alþýða manna skemmti sér við að kveða rímur, en þær voru helsta afþreying landsmanna um aldir. Upptök þeirra má rekja aftur til miðbiks 14. aldar. Þótt rímur séu kveðskapargrein er ekki óeðlilegt að flokka þær jafnframt undir tónlist því þær voru fluttar eða kveðnar með nokkurs konar tal-tóni eða kveðandi. Kvæðalag rímnanna kallaðist stemma, rímnalag eða bragur. Rímur eru frásagnarkvæði. Þær eru aðallega ortar út af fornaldarsögum og riddarasögum, erlendum bóklegum ævintýrum, og fáeinar út af Íslendingasögum.
    Rímnalögin mætti e.t.v. kalla baðstofutónlist Íslendinga en annarri kammertónlist var þá ekki til að dreifa. Um fegurðargildi þessarar íslensku rímnatónlistar eru ekki allir á eitt sáttir.Í átt til nútímans
Söngvakning á Íslandi
Um miðja 19. öld tekur tónlistarlíf að breytast og verður mun fjölbreyttara en áður var. Þá hefst mikil söngvakning á Íslandi fyrir tilstilli eins manns, Jónasar Helgasonar (1839-1903). Hann hafði notið tilsagnar í hljóðfæraleik og átt kost á stuttu tónlistarnámi í Kaupmannahöfn. Hjá honum vaknaði snemma mikill áhugi á margradda söng sem varð til þess að hann stofnaði fyrsta kór á Íslandi árið 1862. Rúmum áratug seinna stofnaði bróðir hans, Helgi Helgason, fyrsta hornaflokk á Íslandi: Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur. Jónas var mikilvirkur tónlistarkennari og stofnaði auk þess fleiri kóra. Kórsöngur varð stöðugt vinsælli í kjölfar þessa og er líklega einhver almennasta tónlistariðkunin enn þann dag í dag. Smám saman fóru fleiri að láta tónlistarmál til sín taka og skilyrði tóku að skapast fyrir lifandi tónlistarmenningu í landinu.

Ó, Guð vors lands!...
Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1927) var hámenntaður tónlistarmaður og hafði meðal annars stundað nám í Kaupmannahöfn og Leipzig. Hann var m.a. prýðilegur píanóleikari og hann samdi fleiri og stærri tónverk en nokkur Íslendingur hafði áður gert. Hann er e.t.v. þekktastur meðal almennings fyrir að hafa fært þjóð sinni nýjan þjóðsöng við sálm Matthíasar Jochumssonar; Ó, Guð vors lands!

Íslensk þjóðlög
Upp úr 1880 tekur Bjarni Þorsteinsson (1861-1938) sér á hendur það merka starf að skrásetja íslensk þjóðlög en fram að því hafði alþýðutónlist verið lítill gaumur gefinn. Verk Bjarna Íslensk þjóðlög kom út á árunum 1906-1909 og hefur að geyma fjölda laga sem annars hefðu glatast.

1930, tímamótaár í tónlistarsögu
Árið 1930 markar tímamót í íslenskri tónlistarsögu. Þá lýkur u.þ.b. hundrað ára hægri þróun í tónlistarmálum, sem mjög mótaðist af áhuga og framtaki einstakra manna, og nýr kafli hefst. Þetta gerðist með því að komið var á fót fyrstu stofnunum sem nauðsynlegar má telja til þess að tónlistarlíf nái að dafna. Þetta voru Tónlistarskólinn í Reykjavík og Ríkisútvarpið. Fyrsta sinfóníuhljómsveitin, Sinfóníuhljómsveit Íslands, var stofnuð tveimur áratugum síðar, 1950.Tónlistarlífið nú
Tónlistarlíf í íslensku nútímasamfélagi einkennist af fjölbreyttri flóru klassískrar tónlistar og hvers kyns dægurtónlistar. Sinfóníuhljómsveit hefur starfað frá 1950 og lítið óperuhús hefur verið starfandi í rúm 30 ár.Vaxandi áhugi hefur verið á tónlistarmenntun hin síðari ár og nýtur almenningur ávaxta þeirrar uppskeru sem til hefur verið sáð á undanförnum árum og áratugum. Er litið er í blöðin sést glöggt sá mikli fjöldi tónlistarviðburða sem jafnan er í boði og ætti hver að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
    Mikil gróska er í popptónlist á Íslandi. Söngur Bítlanna ómaði á öldum ljósvakans á sjöunda áratugnum og hreif ungu kynslóðina á Íslandi, sem annars staðar, og ekki leið á löngu þar til fyrsta íslenska bítlahljómsveitin var stofnuð. Þetta var hljómsveitin Hljómar frá Keflavík. Þeir gáfu út fyrstu íslensku „bítlaplötuna" 1965.
    Margar býsna góðar hljómsveitir hafa skotist upp á íslenskan poppstjörnuhimin og jafnvel náð að láta ljós sitt skína erlendis. Hljómsveitin Mezzoforte og Sykurmolarnir með Björk Guðmundsdóttur eru líklega þær hljómsveitir íslenskar sem lengst hafa náð í útlöndum ásamt Sigur Rós og Björk er fyrsti íslenski popptónlistarmaðurinn sem slær í gegn á alþjóðavettvangi. Hún á vafalaust stóran þátt í þeirri miklu grósku sem nú er í íslenskri popptónlist. Velgengni hennar er öðrum listamönnum hvatning. Víst er að víða eru barðar bumbur, þeytt horn og þandir strengir í von um frægð og frama í útlöndum.

Vinsælar hljómsveitir og söngvarar
    Meðal vinsælla hljómsveita um þessar mundir eru hljómsveitin Sigur Rós sem vakti athygli sumarið 1999, með breiðskífunni Ágætis byrjun. Hljómsveitin sá um tónlist í kvikmyndinni Englar alheimsins eftir samnefndri skáldsögu Einars Más Guðmundssonar og í leikstjórn eins helsta kvikmyndaleikstjóra Íslendinga, Friðriks Þórs Friðrikssonar. Þar nýtur frumleiki sá sem einkennir þessa sérstöku hljómsveit sín vel.   Fjöldi rokksveita og poppbanda skjóta upp kollinum og njóta vinsælda í lengri eða styttri tíma, meðal hljómsveita sem hafa verið vinsælar um nokkurt skeið má nefna Stuðmenn, Sálina hans Jóns míns og GusGus. Bubbi Morthens, Ragnhildur Gísladóttir og Páll Óskar Hjálmtýsson hafa lengi verið vinsælir tónlistarmenn en af nýrra tónlistarfólki njóta Dikta og Ólafur Arnalds töluverðrar hylli ásamt Emilíönu Torrini sem hefur verið að gera það gott erlendis bæði sem söngkona og lagahöfundur og hljómsveitinni Of monsters and men.