Sumarstarfsmenn 2016

 

Í Árnagarði

Andri Már Kristjánsson Barbora Davídková Andri Már Kristjánsson og Barbora Davídková eru að vinna í Wikisaga verkefninu sem felst í því að gera lýsandi heimildaskrá fyrir Eglu og Njálu á netinu. Þau eru á Rannísstyrk á vegum Svanhildar Óskarsdóttur rannsóknardósents og Jóns Karls Helgasonar, prófessors við Háskóla Íslands og munu vinna misjafnlega lengi við verkefnið. Barbora verður út júní, eftir það tekur Ermenegilda R. Müller við af henni. Andri Már verður út ágústmánuð við störf að þessu verki.

Andri Már nam bókmenntafræði við Háskóla Íslands og lauk meistaranámi nú í febrúar. Hann er að hefja nám í miðaldafræðum.

Barbora er með B.A. gráðu í sagnfræði og sögu trúarbragða, hún stundar nú nám í alþjóðlegu VMN (Viking and Medieval Norse Studies) námsleiðinni. Hún hefur lokið einu ári af tveimur og er á leiðinni til Osló í haust þar sem hún mun klára námið.


 

Zachary Melton Zachary Melton er oftast að finna í kjallara Árnastofnunar í Árnagarði. Hann er í VMNS námi og er sumarstarfsmaður í verkefninu "Insight & Imagination: Saga Pilgrimages Mapped & Measured" sem Emily Lethbridge stjórnar. Þar beinist athyglin að sagnapílagrímaferðum á 19. öld og dagbókum ferðamanna þar sem sagnaslóðaleiðangri er lýst. Markmið verkefnisins er að nota GIS og Icelandic Saga Map kerfið til að byrja að kortleggja þessar ferðabækur. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði HÍ.

 

 


 


 

Á laugavegi 13

Birgitta Guðmundsdóttir Olga Margrét Cilia Birgitta Guðmundsdóttir og Olga Margrét Cilia eru sumarstarfsmenn í verkefninu „Skiljanlegt lagamál. Rannsókn á íslensku lagamáli." hjá þeim Sigrúnu Steingrímsdóttur og Ara Páli Kristinssyni rannsóknarprófessor.

Verkefnið er forrannsókn sem gengur út á að rannsaka skilning fólks á íslensku lagamáli en það hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna þetta árið. Markmiðið er að leggja grunn að frekari rannsóknum og endurbótum á íslensku lagamáli.

Birgitta er grunnnemi við Háskóla Íslands í almennum málvísindum. Hún útskrifaðist frá fornmálabraut við Menntaskólann í Reykjavík vorið 2014.

Olga Margrét lauk BA gráðu í bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 2012 og útskriftast frá sama skóla með BA gráðu í lögfræði 25. júní nk.