Sveitserstíll

Húsið við Þingholtsstræti 29 er líklega katalóghús í sveitserstíl

„Einkenni norsku sveitserhúsanna voru framar öllu hár og vel gerður sökkull, mikið þakskegg, portið undir þakkvert og sérkennilegt og mikið skreyti. Flest voru þau stokkhús, vel þétt og vönduð að allri gerð. Til lengdar höfðu Íslendingar ekki efni á að reisa svo efnismikil timburhús, ekki einu sinni þeir auðugustu hvað þá almenningur í landinu. Hugur manna stóð þó engu að síður til þessarar húsgerðar, hana skyldu þeir fá hvað svo sem það kostaði. Sé viljinn fyrir hendi er vandinn leystur, og segja má að lausnin hafi komið úr óvæntri átt. Um og eftir 1880 hófst sauðasalan svonefnda til Englands. Í kjölfarið komu ný verslunarsambönd og nýjar vörur m.a. nýtt byggingarefni, bárujárnið. Í slíku regnplássi, sem Ísland er að meginhluta og baráttan við þrálátan húsleka langvinn, þótti mönnum sem þeir hefðu himin höndum tekið þar sem bárujárnið var. Það gerði húsin vatnsþétt, það minnkaði eldshættu utan frá og það var mun ódýrara en timbrið. Íslenskir húsasmiðameistarar héldu einkennum norsku sveitserhúsanna, háum sökkli, porti undir þakkverk, íburðarmiklu snikkaraverki umhverfis dyr, glugga og þakbrúnir en settu bárujárn í timburklæðningar stað. Hið bárulagaða járn fór einnig á þökin, þar sem súðklæðning og skífa höfðu verið á áður. Ekki er svo að skilja sem timburklæðningu hafi alfarið verið hafnað. Yfirleitt voru norsku húsin tíbyrð, en ytri klæðningin var þykk, velhefluð, plægð og strikuð og því mjög dýr. Réttara er því að segja að ytri klæðningunni hafi verið hafnað. Yfirleitt voru og eru bárujárnshúsin timburklædd undir járnhlífinni en sú klæðning var óvandaðri og mun kostnaðarminni. Segja má með nokkrum rétti að hér hafi norski sveitserstíllinn verið aðhæfður íslenskum aðstæðum með enskri hjálp. Fyrstu tvo áratugi 20. aldar varð þessi norsk-íslenska húsagerð allsráðandi ekki einungis í bæjum heldur víða úti á landsbyggðinni, einkum sunnanlands þar sem jarðskjálftarnir miklu árið 1896 dæmdu torfbæinn að mestu úr leik. Húsið við Þingholtsstræti 29 er eitt af fyrstu norsku sveitserhúsunum sem hingað voru flutt tilhöggin. Jón Magnússon ráðherra pantaði það frá Noregi og lét reisa 1899. Því miður er ekki vitað frá hvaða smiðju það er komið, enda málið ekki fullkannað. Segja má því að húsið við Þingholtsstræti 29, ásamt nokkrum öðrum, sem sum eru reyndar horfin, hafi valdið straumhvörfum í íslenskri byggingarsögu. Það hefur þó þá sérstöðu að vera það eina sem er algjörlega í upprunalegri gerð, auk þess sem húsið fellur vel að umhverfi sínu.“ (Hörður Ágústsson og Leifur Blumenstein. 1987. Álitsgerð, bls. 2)