Þetubrot Egils sögu — AM 162 A θ fol.

Þetubrot Egils sögu. Egils saga Skallagrímssonar er ein þekktasta Íslendingasagan og meistaraverk meðal íslenskra fornsagna. Talið er að hún sé samin um 1230 – að sumra áliti af sjálfum Snorra Sturlusyni. Þar segir af vígamanninum, skáldinu og höfðingjanum Agli Skallagrímssyni sem uppi var á 10. öld, en sagan teygir sig út yfir æviskeið hans. Þannig fjalla fyrstu 30 kaflarnir um ættmenni Egils, Kveldúlf afa hans, Skallagrím föður hans og Þórólf föðurbróður hans, og deilur þeirra við Harald konung hárfagra, en yfirgangur hans er sagður valda því að þeir frændur flytjast frá Noregi og fara til Íslands.

Egils saga er frábrugðin öðrum Íslendingasögum í því meðal annars, að hún gerist að miklu leyti utan Íslands, ekki aðeins á Norðurlöndum (bæði fyrir og eftir bústaðaskiptin), heldur einnig í Eystrasaltslöndunum og á Englandi. Annað sérkenni sögunnar er hin óvenjuflókna lýsing á persónugerð Egils. Hann er að mörgu leyti mesti ribbaldi og má með réttu kallast ofstopafyllsta persóna allra Íslendingasagna. Hann hegðar sér iðulega eins og versti fylliraftur, enda bannar faðir hans honum þegar í bernsku, þriggja ára gömlum, að sækja veislu vegna þess hve erfitt muni verða að hemja hann ölvaðan – þetta minni birtist svo aftur þegar Egill situr veislu síðar á ævinni og ælir beint framan í gestgjafa sinn. Fyrirboði um hinn hömlulausa og óstýriláta vígamann, sem við fylgjumst með í sögunni, birtist okkur þegar Egill verður manni að bana í fyrsta sinn, sex ára gamall.

Eftir báða þessa bernskuatburði yrkir Egill vísur – fyrstu dæmin um framúrskarandi skáldgáfu hans. Og það er einmitt skáldið Egill sem mótar hina einstaklega flóknu persónugerð. Þessi vígamaður hefur öll svið skáldlistarinnar á valdi sínu og auk um það bil 50 lausavísna hefur sagan að geyma þrjú löng kvæði, Höfuðlausn, sem Egill yrkir um Eirík blóðöx til að bjarga lífi sínu, Arinbjarnarkviðu, sem hann yrkir til Arinbjarnar vinar síns, og síðast en ekki síst hið fræga Sonatorrek, ákaflega persónulegt og óvenju nútímalegt kvæði um sorgina, reiðina og vanmáttinn sem þjakar hann eftir missi tveggja sona sinna.

Margar Íslendingasögur eru – eins og Egils saga – upprunalega settar saman á þrettándu öld, en það telst til undantekninga að varðveist hafi Íslendingasöguhandrit frá því fyrir 1300. Af Egils sögu er þó til skinnbrotið AM 162 A θ fol. sem venja er að tímasetja um miðja þrettándu öld. Það hefur því ekki aðeins sérstöðu vegna síns háa aldurs heldur einnig vegna þess hve tiltölulega stuttur tími er milli „upprunatexta“ sögunnar og afritsins í brotinu. Brotið er einungis fjögur blöð (að hluta skert) 23,5 x 13 cm að stærð. Skriftin er fremur fornleg og ber ef til vill norsk einkenni.

Saga brotsins á miðöldum er okkur ókunn, en spássíuklausa rituð af Árna Magnússyni sýnir að hann hefur fengið það árið 1704 frá Pétri Markússyni sem var þjónustumaður hjá Ragnheiði Jónsdóttur (1646–1715) í Gröf á Höfðaströnd en hún var ekkja Gísla Hólabiskups Þorlákssonar. Vitað er að Ragnheiður fékk handrit frá Jóni Þorlákssyni, mági sínum, sem var kunnur fyrir áhuga sinn á fornum handritum eins og faðir þeirra bræðra, Þorlákur Skúlason biskup. Þetta brot kann því að vera komið til Ragnheiðar frá Jóni. Stofnun Árna Magnússonar fékk blöðin til varðveislu 19. september 1996.

Alex Speed Kjeldsen