Þórarinn Eldjárn ,,Það kalla ég íslensku“

Sigurðar Nordals fyrirlestur
14. september, kl. 17.00, 2009
Norræna húsinu
 

 

Ágætu áheyrendur.

Svo sem hæfir á þessum degi og þessum stað er heitið á spjalli mínu, Það kalla ég íslensku, fengið frá Sigurði Nordal, úr eftirfarandi setningu sem eignuð er honum: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku“. Mér er ekki alveg ljóst hvort hann lét orðin frá sér fara á prenti eða þau féllu í samtali en þau eru alveg jafngóð fyrir því. Um yfirlýsingu sem þessa mætti margt segja, og hygg ég þó reyndar að flestir séu reiðubúnir að taka undir þessi orð, séu þeim ósköp einfaldlega sammála: Ef það mál sem þessir menn skrifuðu er ekki nógu gott til að kallast íslenska, hvað skal þá til varnar verða og hvernig eigum við hin að fara að því að tala og skrifa skammlaust á þessu merkilega máli sem okkur hefur verið trúað fyrir? Ég tala nú ekki um ef þeir mætu lagsbræður Jónas og Konráð hafa í sameiningu lagt blessun sína yfir eitthvert tiltekið orðalag með því að nota það. Þetta er satt og rétt semsé og að sjálfsögðu spaklega mælt hjá Nordal eins og við var að búast, þó blandið kunni að vera nokkurri gamansemi.

En á hinn bóginn verður svo ekki annað séð en þarna sé líka komið lifandi dæmi um þá trú sem við vitum að er ansi mörgum þyrnir í augum varðandi viðhorf til íslenskrar tungu. Það er trúin á að okkur beri sífellt að beygja okkur undir vald sem ekki hefur enn fundist neitt hentugt íslenskt orð yfir, að minnsta kosti ekkert sem nær merkingunni til fulls, þannig að við höfum neyðst til að kalla það átórítet: Sem er í sjálfu sér allt í lagi, átor eða auktor þýðir auðvitað ekkert annað en höfundur, upphafsmaður. Þetta vald birtist þannig að ef við erum í vafa um eitthvert orð eða orðalag, teljum teflt á tæpasta vað hvort það verðskuldi sæmdarheitið íslenska þá er ekkert hentugra en að geta vísað málinu þangað, til þessa valds sem sker úr, veitir gæðavottun og -stimpil eða ekki, annað hvort til manna eins og Jónasar og Konráðs eða í hallæri einhverra minni spámanna, en allra best er að geta vísað beint í Íslendingasögurnar eða aðra sígilda texta. Til þeirra dómstiga er alltaf hægt að áfrýja en þau eru gamli réttur, eldri réttur og elsti réttur sem auðvitað er hæstiréttur og því hárréttur. Eða svo enn sé spunnið áfram á lagamáli: Þarna má alltaf leita fordæma, og ef þau finnast er málið í höfn: Hið vafasama orðalag sem kann að hafa sætt ákæru eða hefur að minnsta kosti mátt búa við réttarstöðu grunaðs orðs hefur verið hreinsað og reyndist eiga sér lagastoð og þar með tilverurétt, annars ríkir vafinn og réttaróvissan áfram.

Öll þekkjum við dæmi um þetta: Klassísk er sagan af íslenskukennaranum ágæta sem veitti einum nemenda sinna tiltal og lækkaði hann í einkunn um að minnsta kosti einn heilan fyrir að hafa í ritgerð notað orðið handklæði sem kennarinn taldi argvítuga dönskuslettu. Heiðarlegra og skaðminna hefði verið að segja bara hreint út „håndklæde“ og hafa það í gæsalöppum, helst tvöföldum. En kennarinn féll síðan umsvifalaust og án minnstu mótbáru frá þessu áliti sínu og gaf meira en fullt fyrir þegar nemandinn gat bent á dæmi um orðið í sjálfri Njálu í kafla 116 á mjög dramatískum stað: „...Flosi tók laugar og lið hans. Flosi hugði að handklæðinu, og var það raufar einar og numið til annars endans...“ Nemandinn lagði þetta sönnunargagn að sjálfsögðu fram með nokkurri Þórðargleði en kennarinn var hinsvegar þrátt fyrir allt mun jákvæðari persónuleiki og fylltist sannri gleði yfir nýjum landvinningum tungunnar: Orðskrípi reyndist eiga sér göfugan uppruna og allir urðu sáttir. Nema kannski þeir sem af eintómum ótugtarskap vilja meina að dilkadráttur af þessu tagi sé í raun dæmi um einskonar rasisma innan tungumálsins: Að dæma orð óhæft, óalandi og óferjandi, ekki vegna þess að neitt sé að orðinu sjálfu. Það kann að vera allt í senn fallegt eðlilegt og nytsamlegt, rétt myndað og haga sér í hvívetna eftir öllum siðareglum málsins. Hins vegar er það ekki af réttum ættum, uppruninn ekki talinn nógu göfugur og því skyldi það víkja, þar til hægt var að sanna að eiginlega væri það af réttum kynstofni.

Ég nefni þetta dæmi en þó skal reyndar viðurkennt, að því miður, eða kannski sem betur fer, hlýtur barátta gegn orði eins og handklæði á vorum dögum að flokkast sem algjört lúxusvandamál nú þegar með sanni má segja um dönskukunnáttu Íslendinga almennt: Lítið var, lokið er. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur áminnstur íslenskukennari, ef hann var þá nokkurntíma til, verið mun betri í dönsku en íslensku. Danskan kann líka að þykja heldur meinleysisleg núorðið þegar enskan hefur tekið við hlutverki hennar og ágjöfin þaðan magnast sífellt, að mestu leyti fyrir okkar eigin tilstilli.

Á bókmenntahátíðinni sem nú er nýlega afstaðin var einstaklega forvitnilegt að kynnast verkum og viðhorfum hins ágæta keníska rithöfundar Ngugi wa Thiongh'o. Af dæmi hans ættum við að geta lært margt, Það sem gerir hann einkum athyglisverðan í okkar samhengi hér er það að hann er höfundur sem orðinn var þekktur og vel metinn skrifandi á enska tungu en tók þá ákvörðun meðan hann sat í öryggisfangelsi án dóms og laga í heimalandi sínu að skipta alfarið yfir í móðurmál sitt gíkújú og skrifa skáldverk sín eingöngu á því. Í þessu fólst mikil dirfska, enda hafði hann einmitt verið settur inn fyrst og fremst fyrir leikrit sem hann skrifaði á móðurmálinu. Það var talið miklu hættulegra en skrif hans á ensku þó gagnrýnin væru á stjórnvöld, samt er enska miklu útbreiddara mál en gíkúju. Hættan lá hinsvegar í því að gíkújú er móðurmál ákveðins hluta af alþýðunni í landinu og slagkraftur þess því miklu meiri meðal fólksins. Enskan er hins vegar tunga gömlu nýlenduherranna og í framhaldi af því tunga innlendrar mennta- og valdastéttar. Niðurstaða Ngugis wa Thiongh'o, sem áður hét James Ngugi, var líka sú að tungumálið sé alltaf eitt helsta og handhægasta vopn allra heimsvaldasinna til undirokunar og kúgunar. Þetta skulum við Íslendingar muna og taka vel til greina þegar við heyrum sífelldan sönginn um það hversu hentugt og hagnýtt það gæti verið fyrir okkur að hafa sem allra mest á ensku í bland við okkar eigin mál af því enginn skilji það.

Sú heimsvaldastefna sem við eigum þar við að etja birtist okkur mjög skýrt á menningarsviðinu, í kvikmyndum, sjónvarpi og til dæmis mjög klárlega í sífellt vaxandi mæli á sviði dægurtónlistar. En vissulega leggst sú líkn með þraut að lausnin á þessu er í okkar eigin höndum. Það er enginn sem fyrirskipar okkur að hafa þetta svona.
Sumir telja vafalaust að þetta séu fráleitar áhyggjur hvað skáldskap og bókmenntir varðar, það sé svo rótgróið í okkur hvað móðurmálið sé okkur mikilvægt á því sviði. Íslenskir höfundar gætu aldrei látið sér detta í hug að yfirgefa það. En þá ber að hugleiða hversu stutt er síðan íslenskir höfundar skrifuðu unnvörpum á dönsku, sáu þann kost vænstan, eins og Gauti Kristmannsson bendir réttilega á í ágætri grein um Ngugi wa Thiongh'o í nýjasta hefti TMM.

Handklæðismálið fékk farsælan endi en stundum tekst ekki jafn vel til með sáttargjörðina þó staðfesting eða gæðavottun finnist hjá æðra valdi: Ég skal til fróðleiks nefna dæmi þess. Löngum hefur orðalagið að fara erlendis pirrað marga alveg ósegjanlega, þar á meðal þann sem hér talar. Sjálfsagt hefur mér verið innrætt þetta viðhorf beint og óbeint. En niðurstaðan er allténd sú að mér finnst einhvern veginn ekki hægt að nota þetta orð, erlendis, nema um dvöl á staðnum, ekki för til hans. Ég fer ekki erlendis heldur er þar, væntanlega eftir að hafa farið utan áður eða notað einhverja aðra aðferð til að koma mér úr landi. Á sama hátt og ég get ekki farið þar heldur þangað. Þetta varð mér um tíma slíkt kappsmál að ég lagði það á mig að yrkja minnisvísu til að fæla fólk frá þessum ljóta sið. Hún hljómar einhvernveginn svo:

Menn sem nota málið skakkt
mikið straff skal á þá lagt.
Ef þeir fara erlendis
þeir aftur komi hérlendis.

Sem sagt, ég var óþreytandi í þessari baráttu og tók meira að segja skáldskapinn í mína þjónustu. En svo var það eitt sinn að ég var að blaða í merkri og margvottaðri bók þar sem ég taldi mig fullkomlega óhultan og rak mig þá allt í einu óþyrmilega á eftirfarandi setningu og reyndar í rogastans um leið:

„En er herra Steingrímur varð að fara erlendis vetrarlangt að taka biskupsvígslu í Danmörku kom hann Tómasi í Bessastaðaskóla.“

Góðir áheyrendur: Það er sorglegt en satt: Þessi orð er að finna í minningargrein um Tómas Sæmundsson eftir sjálfan Jónas Hallgrímsson. Þó hún hafi upphaflega birst í Fjölni 1843 eru að vísu engar beinar heimildir fyrir því að Konráð hafi samþykkt þetta og reyndar held ég að það geti varla verið. Þetta var áfall og ég man að þegar ég rak fyrst augun í þessi ókjör þá gat ég ekki afborið að sitja aleinn í sjokkinu svo ég hringdi strax í valinkunnan íslenskumann sem um þær mundir sá um íslenskuþátt í fjölmiðlum. Sá hafði einmitt lengi verið vopnabróðir og barist hatrammlega gegn því að menn færu erlendis. Viðbrögð hans voru mjög ólík þeim sem íslenskukennarinn áðurnefndi viðhafði gagnvart handklæðinu, hvort sem það stafaði nú af því að Jónas teldist minna átorítet en Njála. Þennan ágæta mann setti sem sé fyrst hljóðan en svo sagði hann við mig af miklum alvöruþunga: Í guðanna bænum, segðu ekki nokkrum manni frá þessu.

Og það hef ég heldur ekki gert, fyrr en ykkur nú. Og því miður er það svo að það kæmi ekki lengur að miklu haldi þó ég bæði ykkur um að dreifa þessu ekki, útbreiðslan er þegar svo mikil að hún verður líkast til ekki heft úr þessu, ekkert frekar en útbreiðsla lúpínu eða skógarkerfils. Sjaldan lýgur almannarómur, en hann er auðvitað ekki neitt átóritet svo við þurfum ekki að slást með í för. Þó er enn verra að nýtt átórítet hefur stigið fram í margföldu veldi á dögum tölvutækninnar. Þegar ég var að leita að dæminu frá Jónasi um þennan hörmulega atburð þegar Steingrímur biskup fór erlendis (en ég hafði auðvitað gert allt sem ég gat til að týna því) þá varð mér það á að slá orðinu upp og leita dæma í ritmálssafni Orðabókar Háskólans og uppgötvaði þá mér til skelfingar að þetta orðalag „að fara erlendis“ hefur tíðkast lengi og víða og um það eru ýmis dæmi frá hinum mætustu höfundum, heilmiklum átórítetum. Það er með öðrum orðum ekkert að því að tala svona. Samt get ég einhvern veginn ekki hugsað mér að nota það næst þegar ég fer erlendis. (Sem betur fer er ég ekkert á leiðinni þar).

Ég skal líka láta þess getið að ég hef enn ekki þorað að fletta upp ritmálsdæmum um það hvort mikið hefur verið um að menn komi hérlendis. Eitthvað segir mér að trúlega sé farsælast að sleppa því. Um slíkt grúsk mætti áreiðanlega viðhafa sömu orð og Jónas frá Hriflu mælti á sínum tíma við séra Gunnar Benediktsson á viðkvæmri stund. Séra Gunnar hafði verið dyggur framsóknarmaður en gekk fyrir leiðtoga sinn, lagði spilin á borðið og játaði fyrir honum að pólitískri samfylgd þeirra væri lokið. Hann væri sem sagt orðinn eindreginn sósíalisti eftir mikla og alvarlega íhugun og umhugsun um þjóðfélagsmál og meðfylgjandi sálarstríð. Jónas setti hljóðan en mælti svo þessa fleygu setningu: „Mikil assgodans vandræði að þú skyldir fara að grufla út í þetta“.

Það getur sem sé brugðið til beggja vona með átórítetin.

Og fyrst ég fór nú einu sinni að grufla út í þau þá er auðvitað vert að nefna það sem allir reyndar vita að sá sem fyrirlestrar fluttir á þessum degi eru kenndir við, Sigurður Nordal, er auðvitað sjálfur eitthvert skýrasta dæmi okkar um mann með átórítet. Kennivald, er líklega það íslenska orð sem nær merkingunni best þegar hann er annars vegar. Og segja má að valdsvið hans hafi náð og nái enn yfir alla helstu þætti íslenskrar menningar, bókmenntir, tungu og sögu. Bylgjur tímans hafa risið og hnigið einhvern veginn þannig að margir eru nú um stundir gjarnir á að tala um slíkt vald á neikvæðum nótum og víst er um það að það má ekki verða of yfirþyrmandi og ábyggilega er gott að hafa á hverjum tíma eitthvað til mótvægis, eitthvert annað vald á sama sviði sem alls ekki er á sama máli. Með því er ég samt ekki að segja að þetta sé eitthvað sem Samkeppnisstofnun ætti að fara að skipta sér af. Hinu má heldur ekki gleyma, hvað svo sem manni finnst um þetta vald þegar frá líður, að það sprettur ekki af engu, menn öðlast það ekki ókeypis og sjaldnast af því að menn hafi stefnt að því. Það bara gerist í krafti ákveðinna yfirburða og eins auðvitað með því að menn séu til staðar á réttum stað á réttum tíma. Að baki því liggur mikil elja, hugarorka og lærdómur. En síðan er það svo óhjákvæmilegur þáttur í þróuninni að öll slík átórítet lenda fyrr eða síðar í því um lengri eða skemmri tíma að lukkan snýst við. Þegar fyrsta bylgja sporgöngumanna og skósveina er riðin yfir kemur bakslagið og hælbítar og föðurmorðingjar þyrpast á vettvang. Ekki hljómar það gæfulega en staðreyndin er hinsvegar sú að þetta gerir ekkert til því flestir sem leið eiga hjá eru hvorugt, hvorki skósveinar né hælbítar heldur bara saklausir og heiðarlegir vegfarendur.

Þannig er því nefnilega varið með hin sönnu og eilífu átórítet, hina réttnefndu kennivaldsmenn á öllum sviðum hvort sem það er Sigurður Nordal eða einhver annar að afstaða okkar til þeirra ætti að vera ekkert ósvipuð og afstaða okkar til Vegagerðarinnar. Við áttum okkur oft ekki á því hve miklu hún ræður um það hvernig við upplifum landslag og bæi og sveitir og staðhætti. Án þess við vitum af því stýrist mynd okkar af landinu af vegagerðarmanninum. Hann ákvað vegarstæðið og hvort tiltekinn bær lendir ofan eða neðan vegar breytir öllu. Hvort sneitt er hjá þessari eða hinni keldunni ræður öllu um það hver fjallasýnin verður.

Það er dálítið lýsandi að þegar Hannes Pétursson yrkir eftir Sigurð Nordal líkir hann honum við vegstjörnu sem „...vakir þar með ljóma / og leit vorri beinir / á brautirnar heim...“

Kristján Karlsson yrkir líka eftir Nordal og þar kemur fram það viðhorf að menn eins og hann gegni hjá okkur sama hlutverki og gamlir kastalar og hallir annars staðar. Líkingin er ekki um veg en samt vegleg:

Þú mundir meira en vér allir
og mundir fyrir oss alla.
Eins og erlendra hallir,
sem einnig um síðir falla.

Í framhaldi af öllum þessum hugleiðingum um átorítet eða kennivald og fyrirmyndir og gæðavottun og staðfestingar er ein spurning eða ljót hugsun, já við skulum bara segja dónaleg, sem stundum hefur leitað á mig: Hvað ef við hefðum engar svona fyrirmyndir í málinu, enga sterka hefð sem við þyrftum sífellt að vera að hugsa um og bera okkur saman við (ævinlega okkur sjálfum í óhag) og vitna til og passa upp á. Gæti það ekki bara verið mjög hressandi til tilbreytingar? Hvað ef við gætum nú bara tekist á við raunveruleikann í lífi og skáldskap, talað og ort beint af augum og beint af fingrum fram á einhverju því máli sem að vísu væri íslenska, jafnvel fínasta íslenska, en þó ekki fyrst og fremst íslenska heldur fyrst og fremst mál. Íslenska sem engum þætti ástæða til að taka fram að væri endilega eitthvað góð sem íslenska, heldur bara góð sem mál. Ég held ég hafi sjálfur orðað svipaða hugsun einhverntíma áður í örsögu með svohljóðandi spurningu: Hvenær skyldi íslensk menning geta farið að slappa af? Þar held ég að ég hafi átt við: Hvenær skyldum við geta farið að umgangast menningu okkar fyrst og fremst sem almenna menningu en ekki einkum sem viðkvæman safngrip sem okkur var trúað fyrir og við erum sífellt á nálum með að glata eða að gera eitthvað við hana sem yrði til að eyðileggja hana. Værum við kannski betur sett ef hún hvíldi óumdeilanlega fyrst og fremst í núinu, hvorki í skugganum af glæstri fortíð né þrúguð af nagandi óttanum yfir því sem framtíðin kann að bera í skauti sér?

Væri það td. kannski bara betra að við ættum engar fornbókmenntir sem viðmiðun? Áðurnefndur Ngugi wa Thiongh'o lét þess getið hér í þessum sal fyrir nokkrum dögum að hann ætti enga ritmálshefð við að styðjast í móðurmáli sínu, gíkújú, en hinsvegar ríkulega sagnahefð munnlega, öll kvöld, einskonar kvöldvökur þeirra Keníamanna.

Sennilega er samt tilgangslaust að spyrja slíkra spurninga. Og einfaldasta svarið og trúlega það eina rétta er að setja upp undrunarsvip. Ef við ættum ekki þessa kjölfestu væri engin íslenska til. Ef ykkur kunna að þykja vangaveltur sem þessar sérkennilegar þá vil ég áður en lengra er haldið styrkja ykkur í þeirri skoðun og láta þess getið að ég viðraði eitt sinn viðlíka hugrenningar á samkomu þar sem Þorsteinn Gylfason var staddur. Hann veitt mér alvarlegt tiltal og sagðist ekki með nokkru móti geta skilið hvert vandamálið gæti verið sem ég væri að reyna að orða með þessum hætti.

Raunar var ekki um neitt vandamál að ræða, heldur einhverskonar hvaðef-pælingu, vafalaust fánýta. En ég held að ég hafi verið að reyna að segja eitthvað þessu líkt: Kann það að vera að of sterkur og of mærður menningararfur hætti á endanum að vera holl og hæfandi kjölfesta sem heldur skútunni á réttum kili en verði þess í stað að líki í lestinni? Sem gerir lífið um borð að sjálfsögðu óbærilegt smám saman og getur á endanum jafnvel orðið svo þungt að það sökkvi fleyinu? Eða að minnsta kosti komið í veg fyrir að það taki nokkurntíma flugið. Ég biðst forláts á því að þessi líking er auðvitað nykruð. Eins og ekkert sé hefur skipið breyst í flugvél. Milliliðurinn er áreiðanlega orðið fley sem hlýtur að vera rótskylt sögninni að fljúga og bátar eiga það líka til að svífa seglum þöndum.

Annars ætti auðvitað enginn að hafa áhyggjur af dálítilli nykrun, nú þegar hátt í ein og hálf öld er liðin síðan saumavélin hitti regnhlífina á skurðborðinu hjá Lautréamont greifa. Sá atburður þótti óvæntur þá en verður að teljast orðinn harla hversdagslegur í ljóðmáli nútímans.

En sem sagt: Þegar við Íslendingar erum að tala um málið þá erum við kannski fulloft að velta því fyrir okkur hvort það sem sagt er sé góð íslenska. Ekki bara hvort það er gott mál, skýrt og klárt og eðlilegt. Umfjöllunarefnið, innihaldið, það sem verið er að segja fer þá á endanum eða jafnvel frá upphafi að verða algjört aukaatriði.

Öll þekkjum við mýmörg dæmi þess að sagt er eða skrifað um hina og þessa höfunda að þeir „skrifi svo góða íslensku“. Og það merkilega er að þá er ekkert endilega verið að tala um það að viðkomandi texti sé almennt vel skrifaður, skýr, hnitmiðaður, vel uppbyggður, vel hugsaður og fram settur, skili skýrri og tærri hugsun vel á leiðarenda til allra sem á annað borð skilja málið. Eða stórkostlega skáldlegur. Auðvitað getur hann verið þetta allt, og það er að sjálfsögðu allra best þegar svo er. En hann getur líka verið beinlínis vondur og hvergi heil brú í hugsuninni og hvergi örlað á skáldskap, en samt afskaplega góð íslenska.Sem sé,vondur texti en góð íslenska. Og góð íslenska skal það vera, ekki bara gott mál, ekki einu sinni góður stíll. Þetta minnir mig á spurningu sem ég hef stundum lagt fyrir menn sem leggja stund á þýðingar eða pæla mikið í þeim: Hvort er betra snilldarþýðing á frekar lélegu verki eða léleg þýðing á snilldarverki? Enginn hefur hingað til viljað svara þessu. Allt um það, ég held að þetta sé frekar sérstakt fyrir okkur, hvað við erum upptekin af góðu eða vondu móðurmáli. Viðhorfið er samt ábyggilega til á stóru málunum, svo sem frönsku, ensku og þýsku, en ég held að ekki sé mikið um að það sé tilgreint sem eitthvert sérstakt atriði þegar skáldskapur er annars vegar.

Með þessu er ég þó alls ekki að halda því fram að íslenska sé eina mál í heimi þar sem menn hafa áhyggjur af réttu máli og röngu. Sumir frjálshyggjumenn tungumálsins hér heima virðast nefnilega halda það. Að málrækt og málverndunarþættir og fyrirspurnir og vangaveltur um rétt mál og rangt séu hvergi til nema á Íslandi. Það er auðvitað alröng skoðun eins og menn vita. Slíkt efni og slík umfjöllun nýtur meira að segja mikilla vinsælda í fjölmiðlum og bókum víða um heim. Alstaðar er fullt af fólki sem hefur áhuga á tungumálinu sínu og veltir því fyrir sér. Öll mál eru nefnilega merkileg, ekki bara íslenska.
Þar er hins vegar fátítt að maður sjái það í umfjöllun um verk rithöfunda að þeir skrifi gott mál, í annarri merkingu en að það sé skýrt og klárt, eða skáldlegt og margslungið og mergjað, fyrst og fremst sem mál og stíll, ekki sem eitthvert tiltekið móðurmál.

Þó eru frá þessu undantekningar. Ég man til dæmis eftir því að hafa lesið mikla umfjöllun um August Strindberg þar sem því var haldið fram að hann sé eini höfundur sem skrifar mál sem með réttu megi segja að sé sænska. Sænsku með stórum staf. Sænsku sem er sænska og gæti ekkert annað verið. Karaktersterkur sænskur höfundur sem setur sænskt mark sitt á hvert einasta orð, einkum þó í sögum sínum og ritgerðum. Ég held að í því tilfelli sé þetta rétt og þá er etv. komin skýringin á því hvers vegna Strindberg er í raun alveg tvískiptur höfundur: Annars vegar heimsþekkt leikritaskáld og hinsvegar alsænskur og sérsænskur prósahöfundur, meira og minna óþekktur annarsstaðar en í heimalandi sínu, óþýðanlegur jafnvel yfir á nágrannamállýskurnar norsku og dönsku án þess að missa talsvert miklu meira en allir aðrir.

Þetta var nú eiginlega útúrdúr en í framhaldi af honum verð ég að taka annan, því þegar ég fór að velta þessu fyrir mér og ætlaði að leggja út af því varð algjör tilviljun til að rifja það upp fyrir mér að August Strindberg lagði á yngri árum sínum stund á íslensku. Hann var mikill andstæðingur latínustagls í menntaskólum og leiddist út frá þeim hugsunum og reyndar af fleiri ástæðum, svo sem nordisma eða skandinavisma sem lá í lofti, yfir í það að taka að reka áróður fyrir því að íslenska yrði kennd í sænskum menntaskólum í stað latínu, enda væri hún einskonar latína norðursins. Væri ekki alveg tilvalið að halda því fram að þessi áhersla hans á íslensku hefði orðið til að setja þetta mark á tungutak hans og stíl?

Sennilega kæmi slíkt viðhorf til með að flokkast undir málrembu. Málrembu er oft ruglað saman við sanna ást á tungumálinu en er í raun og veru allt annar hlutur, hlutur sem við höfum enga þörf fyrir og leiðir ekki til góðs. En ástin á tungunni er hins vegar nauðsynleg jafnt fyrir okkur sjálf sem tungumálið, ef það er þá hægt að aðskilja þetta tvennt. Já, ástin er líklega það sem allt snýst um.

Og ástarjátningar höfunda til tungunnar hafa auðvitað verið fjölmargar bæði fyrr og síðar. Einhver sú albesta og áþreifanlegasta birtist í bók sem seint verður oflofuð, Tabúlarasa eftir Sigurð Guðmundsson sem út kom 1993. Þar persónugerir hann íslenska tungu í konu sem söguhetjan á stefnumót við á veitingahúsi í Portúgal og endurnýjar kynni sín við eftir mjög langan aðskilnað. Þessum fyrsta endurfundi er þannig lýst:

„Þegar mig bar þar að voru flest borðin setin en blindur maður hefði á augabragði fundið þá konu sem ég var kominn til að hitta. Svo frábrugðin var hún öllum öðrum. Ég gekk rakleitt að borðinu þar sem hún sat, kynnti mig án handabands og settist andspænis henni. Þetta var tveggja manna borð og ekkert á því annað en hvítur dúkurinn.

Eigum við að þérast eða þúast? spurði ég.
Þú mátt koma við mig hvar og hvernig sem þú vilt, svaraði hún.
Þúumst, sagði ég.“

Ég held að öllum sé ljóst að þarna leynist mikill eldur í gömlu glæðum og þetta á eftir að verða funheitt samband. Þetta er einmitt það sem við þurfum, ef við elskum málið nógu heitt á réttum forsendum þá viðhelst glóðin og við þurfum ekki að kvíða neinu, hvorki í máli né ljóði, því ástin á málinu getur af sér ljóð.

Það er í raun sú sama ást og birtist hjá Jónasi:

Ástkæra ylhýra málið
og allri rödd fegra!
Blíð sem að barni kvað móðir
á brjósti svanhvítu;
móðurmálið mitt góða,
hið mjúka og ríka,
orð áttu enn eins og forðum
mér yndið að veita.

Það er athyglisvert að Jónas leggur ekki höfuðáhersluna á það sem var forðum heldur undirstrikar sérstaklega, finnst mér, að málið á enn réttu orðin til að veita honum yndið. Þetta fræga ljóð heitir Ásta og er ástarljóð, annars vegar til konu sem hann nefnir svo og hinsvegar til tungunnar. Tungan er gjarna kvenkennd, svo á íslensku sem á mörgum öðrum kynjuðum málum. Og alstaðar er talað um móðurmál en ekki föðurmál. Móðurmál og föðurland, það segir ákveðna sögu.

Alþekktar ljóðlínur eftir Einar Benediktsson hljóma svo:

– Ég skildi að orð er á Íslandi til
um allt sem er hugsað á jörðu.

Reyndar eru þessar línur orðnar hálfgerð klisja og oftar en ekki er því miður farið rangt með þær og Einar látinn segja: Ég skildi að orð er á íslensku til/ um allt sem er hugsað á jörðu. Látum það kyrrt liggja í bili en það sem mig langaði til að vekja athygli á er að þetta ljóð heitir Móðir mín. Og ef við bætum við næstu tveim línum á undan þessum frægu sem ég tilfærði þá hljóma þær svo og slá tóninn fyrir hinar með ríminu: Skáldið ávarpar móður sína:

Þú last – þetta mál með unað og yl
Yngdan af stofnunum hörðu.....

Þetta er sama hugsun og hjá Jónasi: Unaður og ylur, orð eins og forðum, en mestu máli skiptir að þetta er svona enn: Málið yngist við að leita til fortíðarinnar. Kannski er þá bara allt í lagi að áfrýja þangað.

Mig langar að segja ykkur hér enn eina ástarsögu af tungumálinu. Svona á ástin að vera. Og þar kemur ylurinn, hitinn enn og aftur við sögu:

Í Svarfaðardal var til sérkennileg málvenja sem fólst í því að framsöguháttur fyrstu persónu veikra sagna sem að réttu og viðurkenndu lagi á að enda á a, ég tala, ég vona, ég borða, tók að enda á i rétt eins og viðtengingarháttur: Ég tali, ég voni, ég borði. Til er saga af konu framan úr dal sem var einu sinni sem oftar mætt til messu á Tjörn og gekk síðan mjög hart fram í kirkjukaffinu á eftir við að hita kaffi og uppvarta kirkjugesti og dró hvergi af sér. Á endanum var hún spurð hvort hún vildi nú ekki aðeins reyna að slaka á og fá sér sjálf eitthvað af góðgerðunum, fá sér svo sem einn kaffibolla. Þá svaraði hún því sem síðar varð að orðtaki: Nei takk, ég smakki það aldrei þegar ég lagi það sjálf.

Þessi merkilega málvenja var við líði alllengi frameftir tuttugustu en fór síðan halloka eftir því sem skólakerfið efldist og hvarf loks alveg.

Svo var það dag einn fyrir rúmum tuttugu árum að ég var staddur í dalnum og kom að máli við Hjört á Tjörn, frænda minn, og tók strax eftir því hvað það var létt og bjart yfir honum. Það var svo sem ekkert óvenjulegt en það var augljóst að þetta var eitthvað alveg sérstakt. Skýringin kom fljótlega. Hann hafði daginn áður komið við á einum af fremstu bæjum í dalnum og hitt þar aldraðan bónda. Þeir tóku tal saman um landsins gagn og nauðsynjar eins og alsiða er. Í þann mund sem þeir eru að kveðjast spyr Hjörtur hann hvort hann sé ekki á því að þurrkur eigi eftir að haldast næstu daga: Gamli maðurinn leit til himins og svarið lét ekki á sér standa: „Ja, ég voni það.“ Hjörtur hafði þá ekki heyrt nokkurn mann taka svona til orða í marga áratugi og það var þetta sem gladdi hann alveg óendanlega. Hann lýsti viðbrögðum sínum við þessum stórkostlega atburði þannig að sér hefði hitnað öllum.

Þannig birtist hin sanna ást á tungunni. Hitinn sem þarna spratt fram, það er sami ylur og Jónas Hallgrímsson hafði í huga og fann fyrir.

Nú þegar líða tekur á allar þessar vangaveltur mínar er líklega við hæfi að ég svari sjálfur spurningunni: Hvað þarf að vera til staðar til að hægt sé að segja: Það kalla ég íslensku. Svara sem sagt spurningunni: Hvað kallar þú íslensku? Og ég held að ég sé þar kominn að ég verði að hallast að því að það að vera íslenska sé þrátt fyrir allt einhverskonar sæmdarheiti sem ég geti ekki neitað að eigi rétt á sér. Og hafi eitthvert sérstakt gildi út yfir það að vera bara eins og hvert annað mál. Og til að standa undir því sæmdarheiti er vissulega ekki verra að þeir Jónas og og Konráð séu til staðar sem matsmenn og dómarar, bara ef við afhendum þeim ekki alræðis- eða einræðisvald.

Ég ætla að snúa aðeins upp á spurninguna og setja hana fram á þennan hátt: Hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að hægt verði að segja um það mál sem hér verður talað eftir segjum hundrað ár: Það kalla ég íslensku?

Til að svo megi verða þurfum við þangað til að nota málið til alls og treysta því til alls. Málstefnan sem íslensk málnefnd hefur lagt fram og stjórnvöld gerðu að sinni með því að samþykkja einum rómi þingsályktunartillögu um hana nú í vor ber einmitt yfirskriftina Íslenska til alls.

Þetta sæmdarheiti íslenska verður áfram í fullu gildi ef við kappkostum að hlúa vel að bókmenntum okkar og skáldskap í nútíð, fortíð og framtíð.

Það verður áfram í fullu gildi ef við sjáum til þess að efla stórlega alla sköpun þar sem tungan leikur stórt hlutverk, hvort sem um er að ræða sviðsverk, kvikmyndir eða dagskrárgerð í sjónvarp. Þar er mikill akur óplægður og afurðirnar þaðan munu skipta miklu máli.

Það verður áfram í fullu gildi ef við gætum þess að heil svið hverfi ekki úr lögsögu málsins. Það hefur því miður gerst í tölvuheimum hérlendis andstætt því sem reyndin er í öðrum löndum. Þessu þarf að snúa við og sjá til þess að það gerist ekki á fleiri sviðum.

Íslenskan verður áfram í fullu gildi ef við sjáum til þess að enskan sigli ekki upp að hliðinni á okkur sem okkar annað mál. Það er það sama og að láta sigla sig í kaf. Sennilega er óhjákvæmilegt að við fáum yfir okkur slettur, en við verðum að gæta þess að þær verði ekki að flekkjum eða brák. Til að þurrka slíkt upp getur þurft mörg handklæði.

Íslenskan verður áfram í fullu gildi ef við gætum þess að hún fari ekki halloka í skólakerfinu. Þróunin á undanförnum árum hefur því miður verið sú að hlutur móðurmálskennslu í skólum hefur farið þar jafnt og þétt minnkandi sem hlutfall af stundaskrá. Þetta gerðist í stórubólu, í uppsveiflunni miðri. Hvað verður þá nú á niðurskurðartímum segja svartsýnismenn og hrista hausinn. En ég held við ættum að taka annan pól í hæðina og þakka fyrir að við fengum ekki málbólu ofan á allt annað. En þessu verður að breyta og ég sé ekki annað en að slík áhersla falli eins og flís við rass að þeim nýju gildum sem við ætlum öll að fara að temja okkur.

Þetta eru helstu atriðin sem mér detta í hug sem svar við þessari spurningu en ég vil undirstrika að þau ættu ekki að vera sérlega illframkvæmanleg ef aðalskilyrðið er til staðar. Það er ástin sem ég talaði um áðan. Þaðan kemur ylurinn og málrækt er ylrækt.

Góðir áheyrendur. Þetta átti að vera fyrirlestur en þannig fóru leikar að hann hófst sem spjall, breyttist í ástarjátningu og predikun. Best að hætta áður en fjölbreytnin verður enn meiri. Ég þakka langlundargeðið.