Um Málfarsbanka Árnastofnunar

Almennt

Í Málfarsbanka Árnastofnunar er hægt að slá inn leitarorð sem lúta að málnotkun og finna úrlausnir sem teknar hafa verið saman á málræktarsviði Árnastofnunar og áður í Íslenskri málstöð. Með Málfarsbankanum verða leiðbeiningar stofnunarinnar um mál og málnotkun enn aðgengilegri en áður. Hér er jafnframt um að ræða skráningar- og yfirlitskerfi fyrir starfsmenn um spurningar sem berast og svör sem tekin eru saman í stofnuninni í tengslum við málfarsráðgjöf.

Notkun

Notandi fer í Málfarsbankann og slær inn leitarorð. Þá birtast málfarsleiðbeiningar og ábendingar sem tengjast því orði. Ef notandi finnur enga viðeigandi grein um orðið í Málfarsbankanum er honum boðið að senda málræktarsviði fyrirspurn. Nýjar fyrirspurnir frá almenningi benda ritstjóra Málfarsbankans jafnframt á hvað nýjar greinar í Málfarsbankanum ættu að fjalla um. Einnig gefst notendum færi á að gera athugasemdir við úrlausnirnar í Málfarsbankanum eða koma á framfæri hvers konar ábendingum.

Leitað er í bankanum með stuðningi eins leitarorðs. Kerfið dregur fram og sýnir orðasambönd, málfræðifyrirbæri, skráðar reglur og fleira sem tengist leitarorðinu á einhvern hátt. Þannig er búið um hnútana að kerfið getur fundið orð sem nálgast það sem slegið er inn. (Dæmi: ef slegið er inn „fynna“ kemur svar um að leit hafi ekki borið árangur en hugsanlega sé átt við finna (sem hægt er þá að smella beint á). Þetta getur t.a.m. auðveldað fólki að komast að réttum rithætti orða.)

Efni

Allt frá stofnun Íslenskrar málstöðvar 1985 hefur almenningur, stofnanir, ráðuneyti og fyrirtæki átt þess kost að leita með spurningar um hvað eina sem tengist máli og málnotkun til sérfræðinga málstöðvarinnar og síðar málræktarsviðs Árnastofnunar. Að hluta til hefur spurningum og svörum verið haldið til haga í handskrifuðum skrám og að hluta til í tölvutækum skrám. Það efni má kalla höfuðstól Málfarsbankans. Byrjað var á að koma ýmsu af því efni fyrir í honum. Rétt er að taka fram að hér er hvergi sýnilegt hvaðan fyrirspurn berst né hverjum hafa verið send svör. Við eldra efnið hefur verið bætt nýju með hliðsjón af ýmsum atriðum sem tekin eru fyrir í fáeinum handbókum og orðabókum um íslensku og málnotkun. Eins og sakir standa eru nærri því 8000 greinar í Málfarsbankanum undir svolítið færri flettiorðum. Efnið getur vaxið takmarkalítið.

Um málfarsleiðbeiningarnar

Sé annað ekki tekið sérstaklega fram er hin almenna regla sú í þeim leiðbeiningum, sem er að finna í Málfarsbanka Árnastofnunar, að leitast er við að benda á málnotkun sem almennt er talin við hæfi í hefðbundnu íslensku ritmáli og vönduðu talmáli. Þeir sem nota sér þjónustu málræktarsviðs Árnastofnunar virðast að jafnaði hafa þess háttar málsnið í huga.

Í málfarsráðgjöf málræktarsviðsins er vitaskuld lögð áhersla á að fylgja opinberum reglum um frágang ritmáls, svo langt sem þær ná og skuli byggjast á fræðilegum grundvelli. Margt í málfari og frágangi máls er þess eðlis að unnt er að veita býsna afdráttarlaus svör sem byggjast á traustri og ótvíræðri málhefð, hvort heldur spurt er um framburð, réttritun, beygingar, setningaskipan, merkingar orða eða föst orðasambönd. Annað er hins vegar þannig vaxið að ekki er unnt eða réttlætanlegt að veita afdráttarlausar leiðbeiningar um að tiltekið atriði sé ávallt rétt og annað ávallt rangt því að t.a.m. sum orð eða orðasambönd kunna að vera við hæfi við sumar aðstæður en ekki aðrar. Ekki er unnt að veita leiðbeiningar um slíkt á fræðilegum grundvelli nema með því að hafa í huga að málsnið og stíll, sem valinn er, getur ráðið úrslitum um hvaða málnotkun á við.

Saga Málfarsbankans

Allt frá árinu 1996 var áhugi á því í Íslenskri málstöð að koma upplýsingum um vandaða íslenska málnotkun til almennings á Netinu. Árin 1996-1997 voru samdar 53 síður með málfarsábendingum á heimasíðu málstöðvarinnar (sem birtust jafnframt í Textavarpi Sjónvarpsins). Smám saman þróaðist sú hugmynd að búa til gagnagrunn með algengustu fyrirspurnum sem málstöðinni bárust og þeim svörum sem starfsmenn veittu við þeim, ásamt því sem nýjar fyrirspurnir yrðu tilefni til enn fleiri flettugreina með svörum í gagnagrunninum.

Íslensk málstöð fékk styrk til þessa úr Lýðveldissjóði 17. júní 1998, 1900 þús. kr., og hófst samfelld vinna við undirbúning Málfarsbankans í september það ár. Síðan veitti Lýðveldissjóður viðbótarstyrk árið eftir, 300 þús. kr. Enn fremur fékkst styrkur úr Málræktarsjóði í febrúar 1999, 900 þús. kr. Ekki reyndist unnt að vinna samfellt að frágangi bankans veturinn 1999-2000 en frá apríl 2000 til ágúst 2001 var unnið samfellt við það (lengst af í hlutastarfi) og veturinn 2001-2002 var notaður til yfirlestrar og prófana.

Að verkefninu unnu einkum Hanna Óladóttir málfræðingur og Ragnar Hafstað forritari, auk Ara Páls Kristinssonar fyrrverandi forstöðumanns Íslenskrar málstöðvar. Hanna Óladóttir vann mest við verkið, lengstum í hálfu starfi. Ari Páll Kristinsson hafði með því yfirumsjón og las yfir efnið í bankanum 2001. Kári Kaaber í Íslenskri málstöð átti drjúgan þátt í að leggja til efnivið í bankann og hann tók þátt í prófunum á bankanum veturinn 2001–2002. Ágústa Þorbergsdóttir málfræðingur vann að því frá september 2001 að útbúa nýtt efni og lagfæra misfellur í eldra efni. Veturinn 2001–2002 notuðu þau Kári Málfarsbankann í almennri málfarsráðgjöf í Íslenskri málstöð. Eftir reynslutímabil fyrri hluta árs 2002 var formlegur opnunardagur hinn 30. maí 2002 þegar Málfarsbankinn var tengdur við forsíðu Íslenskrar málstöðvar á Netinu og þar með gerður sýnilegur og aðgengilegur almenningi.