Stafsetningarorðabókin

Ókeypis vefaðgangur að Stafsetningarorðabókinni er á vefnum Snara.is.

Stafsetningarorðabókin er hin opinbera réttritunarorðabók um íslensku. Ritstjóri Dóra Hafsteinsdóttir. Bókin var samin í Íslenskri málstöð, nú Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, málræktarsviði, í umboði Íslenskrar málnefndar skv. lögum nr. 2/1990.


Stafsetningarorðabókin bætir úr brýnni þörf. Bókin leitast við að svara sem flestum spurningum sem almennir málnotendur spyrja um og varða rétta stafsetningu, vandaða beygingu og meðferð orða.

Stafsetningarorðabókin sýnir alls um 73.000 orð. Jafnframt eru birtar ýtarlegar íslenskar ritreglur, settar fram á aðgengilegan hátt með fjölda dæma. Ritreglurnar byggjast á auglýsingum menntamálaráðuneytis um stafsetningu og greinarmerkjasetningu.

Stafsetningarorðabókin geymir allan algengan íslenskan orðaforða og að auki fjöldamörg mannanöfn og örnefni, einnig öll ríkjaheiti og þjóðernisorð og síðast en ekki síst mikinn orðaforða úr helstu fræðigreinum. Notkunardæmi fylgja fjölmörgum flettiorðum til glöggvunar og sýnd eru algeng orðasambönd og rétt orðnotkun.

Allt frá útgáfu Réttritunarorðabókar handa grunnskólum (1989, um 14.700 orð, ritstjóri Baldur Jónsson) stefndi Íslensk málnefnd að útgáfu viðameiri stafsetningarorðabókar enda mátti ljóst vera að þörf væri á stærri og ýtarlegri stafsetningarorðabók um íslensku á borð við þær stafsetningarorðabækur sem gefnar eru út í nágrannalöndunum. Unnið var samfellt að Stafsetningarorðabókinni í Íslenskri málstöð frá því snemma árs 2002 í liðlega fjögur ár. Ritstjóri verksins var Dóra Hafsteinsdóttir deildarstjóri og voru aðrir starfsmenn málstöðvarinnar henni til aðstoðar, m.a. við framsetningu ritreglnanna. Baldur Jónsson hafði áður unnið að undirbúningi nýrrar stafsetningarorðabókar og að vinnureglum um íslenska stafsetningu, einkum á árunum 1996-1999, og naut verkefnið góðs af því.

JPV útgáfa gefur Stafsetningarorðabókina út. Nánar...