kafli5


Uppruni Íslendinga

Víkingaöld (800-1066) er frægasta tímabil í sögu Norðurlanda. Þá lögðu norrænir sæfarar undir sig allar siglingaleiðir við Norður - og Vestur-Evrópu, auk fljótaleiða austur og suður um Rússland. Þeir fóru jafnvel suður á Miðjarðarhaf. Á ferðum sínum um úthöfin fundu þeir óbyggðar eyjar, m.a. Ísland, Færeyjar og Grænland, og settust þar að.

Norrænn uppruni
Í Íslendingabók segir fyrsti íslenski sagnaritarinn, Ari fróði Þorgilsson (1068-1148), m.a.:

Ísland byggðist fyrst úr Noregi [...] í þann tíð [...] er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannliga er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. (Íslendingabók: Íslenzk fornrit I, 1968, bls. 4-5).

Fyrir för Ingólfs eru sagnir af sæförum sem komu til landsins og höfðu þar vetursetu. Einn þeirra var Flóki Vilgerðarson, öðru nafni Hrafna-Flóki. Hann var norskur víkingur og mun hafa notað hrafna sem siglingatæki og fengið viðurnefni sitt af því. Hann mun hafa ætlað að setjast að á Íslandi en snúið aftur til Noregs eftir harðan vetur. Hrafna-Flóki gaf landinu nafnið Ísland.
    Ingólfur Arnarson settist að á Íslandi árið 874 samkvæmt Landnámu. Þó eru írskir munkar taldir hafa sest að í landinu fyrstir manna á 8. og 9. öld, en fremur litlar menjar eru til um þá. Flest bendir til að þorri landnámsmanna hafi komið frá Noregi en einnig er talað um blóðblöndun við kelta sem norrænir menn hertóku á víkingaferðum sínum.
    Örnefni um allt land bera norrænum uppruna þjóðarinnar vitni og sumir staðir eru kenndir við goðin, eins og Þórshöfn og Þórsmörk, en önnur örnefni benda til keltnesks uppruna, eins og Bekansstaðir (Beccan), Njálsstaðir (Nial) og Írafell.

Erfðafræðirannsóknir á uppruna Íslendinga
Ekki eru allir jafnsannfærðir um norrænan uppruna þjóðarinnar og þykja nýlegar rannsóknir á erfðaefni karla annars vegar og kvenna hins vegar renna stoðum undir þær efasemdir. Rannsóknirnar beinast að erfðaefni hvatbera sem erfist einungis í kvenlegg frá móður til barns. Þar sem nánast allar hvatberaarfgerðir Íslendinga eru komnar beint frá landnámskonum er með samanburðarrannsóknum unnt að skera úr um uppruna þeirra.
    Fyrstu niðurstöður þessara rannsókna, sem er ein umfangsmesta erfðafræðirannsókn sem gerð hefur verið á einni þjóð til að rannsaka uppruna hennar og unnið er að á vegum Íslenskrar erfðagreiningar í samvinnu við Háskólann í Oxford, benda til þess að 63% íslenskra landnámskvenna hafi verið af keltnesku bergi brotnar og átt ættir að rekja til Bretlandseyja. Hins vegar hafi aðeins um 37% þeirra verið af norrænum uppruna. Rannsóknir á y-litningum karla, (sem erfast í karllegg) leiða hins vegar í ljós að mikill meirihluti landnámskarla sé af norrænum uppruna eða um 80%, en 20% þeirra eigi rætur að rekja til Bretlandseyja.