Veraldarsaga í klerkahandbók; AM 625 4to

„Moyses hét guðs dýrlingr í Gyðinga fólki sá er fyrst hóf þá þrifnaðar sýslu að rita helgar bækur um guðs stórmerki. Það eru fimm bækur er hann gerði en fyrsta frá upphafi heims framan til sinnar ævi en fjórar of þau tíðendi er urðu um hans daga. Þær eru undirstöður allra heilagra ritninga bæði í fornum <lögum> og nýjum.“

Klerkahandbók. Stækka mynd Þetta er upphafið á riti því sem Konráð Gíslason málfræðingur nefndi fyrstur manna Veraldar sögu. Rit af þessu tagi hafa einnig verið nefnd heimsaldrar (aetates mundi) og segja í tímaröð frá sköpun heimsins, venjulega í sex hlutum, þó að komi fyrir að aldri veraldarinnar sé skipt niður í sjö eða jafnvel átta tímabil. Veraldar saga sú sem stendur í AM 625 4to hvílir á gömlum merg. Hún er skrifuð í handritið á fyrsta fjórðungi fjórtándualdar, en forritið sem skrifað var eftir kann að vera miklu eldra, jafnvel frá upphafi þrettándu aldar. Sagan hefst á dagsverki drottins en sjötti og síðasti heimsaldurinn nær fram á tólftuöld. Í lok sögunnar er nefndur Friðrekur rauðskeggur, þ.e. Friðrik barbarossa Þýskalandskeisari, en hann deyr 1190. Fyrir þann tíma hlýtur Veraldar saga að vera rituð. Sagan er ágætlega samin og við samninguna hafa verið notuð erlend fræðirit. Hún er líklega sett saman þar sem enginn hörgull var á slíkum heimildum og hefur Skálholt verið nefnt sem líklegur ritunarstaður og að verkinu hafi í öndverðu komið lærðir menn eins og Gissur Hallsson.

AM 625 4to skiptist í tvo parta. Eldri hlutinn, blöð 1–49, hefur að geyma, auk Veraldar sögu og skylds efnis, Andreas sögu postula og Jóns sögu baptista (þ.e. Jóhannesar skírara) og er frá upphafi fjórtándu aldar. Yngri hlutinn, blöð 50–98, er líklega skrifaður á síðari helmingi fimmtándu aldar og er þar finna tímatalsfræði, gátuvísu, skriftaboð Þorláks helga og loks messu- og tíðaskýringar. Þetta efni bendir til þess að handritið hafi verið handbók klerka. Skriftaboðin sögðu fyrir um hvaða yfirbót prestur skyldi fyrirskipa þeim að gera sem játað höfðu syndir fyrir honum. Þar kemur meðal annars fram að bjóða skyldi „meira fyrir jafna synd auðgum en snauðum, sælum en vesölum“ og „meira eldrum en tvítugum“. Í messuskýringunum er farið yfir einstaka þætti kaþólskrar messu og tíðagjörðar og tákngildi þeirra útskýrt og einnig bent á táknræna þýðingu messuklæða og kirkjubúnaðar.

Þetta handrit er með fallegri skinnbókum íslenskum frá síðmiðöldum, vel bundið inn í tréspjöld. Fyrirsagnir og upphafsstafir sumir eru ritaðir með rauðum lit en annars er bókin ekkert lýst eða skreytt. Á blaði 2r hefur Jón nokkur Oddsson merkt sér bókina og á blaði 67v er framsali hennar lýst með þessum orðum: „Ólafur Magnússon á þessa bók með réttu; honum fengin af Jóni Oddssyni til eignar og svo fyrir ritið að Jón Ólafsson eignist bókina.“ Ólafur Magnússon bjó á Reykjarhóli í Skagafirði. Jón sonur hans varð prestur á Stað í Hrútafirði en léstí bólunni 1707, einungis 25 ára gamall. Óvíst er að hann hafi nokkurn tíma eignast bókina eins og nafni hans Oddsson hafði fyrirhugað, því árið 1705 var hún komin í vörslu ónefnds karls á Hólum í Hjaltadal. Jón Árnason skólameistari þar skrifaði Árna Magnússyni í júní það ár og lýsti fyrir honum handritinu. Árni svaraði um hæl og kvaðst vilja kaupa handritið „qvocuncqve pretio” (á hvaða verði sem er). Handritið er nú varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík.

Sverrir Tómasson