vesturferdir

Vesturferðir

Á síðasta fjórðungi 19. aldar flýðu margir Íslendingar fátækt og erfiðleika í heimalandinu og héldu til Vesturheims í von um betra líf. Fyrsta hópferðin vestur var farin árið 1873, en áður höfðu nokkrir mormónar haldið til Utah og fáeinir einstaklingar til Wisconsin í Bandaríkjunum. Auk þess fóru litlir hópar til Brasilíu. Upp frá þessu tók fólk að streyma vestur um haf og fram til ársins 1914 fluttu alls 15.000 Íslendingar til Vesturheims. Var það mikil blóðtaka fyrir fámenna þjóð.
    Langt fram á 20. öld var til öflugt íslenskt samfélag vestra og eru þeir sem fluttu vestur um haf jafnan kallaðir Vestur-Íslendingar.
    Við árþúsundamót voru Kanadamenn, sem að einhverju eða öllu leyti eru af íslensku bergi brotnir, taldir hátt í 200 þúsund. Ekki er lengur litið á þá sem Vestur-Íslendinga, heldur Kanadamenn.
    Komið hefur verið upp sérstöku minjasafni um vesturferðirnar á Hofsósi í Skagafirði.