Málstofa: Eva María Jónsdóttir 18.03.2016
Eva María Jónsdóttir. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.
Eva María Jónsdóttir. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Málstofa: Eva María Jónsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
18. mars kl. 15:30
Árnagarði við Suðurgötu, stofu 311

Eva María Jónsdóttir, vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er fyrirlesari í þriðju málstofu vormisseris. Erindi Evu Maríu byggist á meistararitgerð hennar í miðaldafræði sem fjallar um þrjár gerðir rímna af Gretti Ásmundarsyni. Elstu rímurnar eru frá 15. öld en höfundur þeirra er ókunnur. Kolbeinn Jöklaraskáld Grímsson orti rímur af Gretti á 17. öld, sem varðveittar eru í handritinu AM 611d 4to. Fyrstu fimm rímurnar hefur Eva María skrifað upp stafrétt og gefið út í ritgerðinni. Yngsta rímnagerðin er frá 19. öld. Magnús í Magnússkógum sem þær orti var mikilvirkt rímnaskáld á fyrri huta 19. aldar og bendir höfundarverk hans til að hann hafi mestmegnis ort eftir pöntun. Í málstofunni ræðir Eva um mismun rímnanna, en verkefnið gekk m.a. út á að skoða skáldamálið, efnistök, meðferð vísna og snjallyrða í þessum þremur gerðum rímna frá þremur mismunandi öldum. Hvort rímnaformið sé nægilega opið til að birta einhverskonar aldarfarslýsingu er ein af spurningunum sem leitast er við að svara.

 

 

Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook