Dagur íslenskrar tungu 16.11.2017
Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember ár hvert

Degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður fagnað í tuttugasta og annað sinn 16. nóvember 2017.

Í ár verður hátíðardagskrá haldin í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Við þetta tækifæri veitir mennta- og menningarmálaráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstök viðurkenning verður veitt í tilefni dagsins.

Sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lesa ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og kórsöngur ómar.

Á degi íslenskrar tungu skal draga fána að hún á húsum opinberra stofnana. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetur skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til að huga að því að nota 16. nóvember, eða dagana þar í kring, til að hafa íslenskuna í öndvegi.

Í ár hefur sérstakri íslenskuhvöt verið hleypt af stokkunum, þar sem ungir sem aldnir eru hvattir til að svara spurningunum: 
-Hvers vegna er íslenskan mikilvæg fyrir þig?
-Hvers vegna ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna?

Örmyndbönd sem sýna fólk svara spurningunum birtast daglega á Facebook-síðu Dags íslenskrar tungu.

Vefur dags íslenskrar tungu

Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook