Fundur íslenskulektora sem starfa erlendis 26.05.2018

Fertugasti og fjórði fundur kennara í íslensku við erlenda háskóla var haldinn á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 26. maí. 


Fundurinn var haldinn í tengslum við ráðstefnu í annarsmálfræðum sem fór fram í Norræna húsinu 25. maí. Alþjóðasvið stofnunarinnar skipulagði hann í samvinnu við íslenskukennarana. Fundinn sóttu 13 kennarar sem kenna við 13 háskóla í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Frakklandi og Bretlandi. Alþjóðasvið stofnunarinnar nýtur stuðnings íslenskra stjórnvalda við íslenskukennslu við erlenda háskóla. 

Á fundinum var rætt um kennslu í íslensku sem erlendu máli, kennslufræði tungumála, kennslubækur í íslensku fyrir útlendinga, íslenska menningarkynningu erlendis og íslensk fræði. Sérstaklega var rætt um hvata til íslenskunáms við erlenda háskóla og nýtt kennsluefni og nýjar kennsluaðferðir. 

Íslenska er víðast tungumál sem háskólanemar stunda með námi í öðru tungumáli/öðrum tungumálum – er jafnan aukamál eða annað málið í Norðurlandafræðinámi eða öðru námi stúdenta. Aðsókn að náminu er mikil. Meira en þúsund nemar stunda íslenskunám við erlenda háskóla ár hvert. Hins vegar hefur niðurskurður á fjárveitingum til háskólanáms víða erlendis, ekki síst í hugvísindum, komið niður á tungumálanámi og gæti hann til lengdar haft áhrif á framboð á íslenskukennslu við erlenda háskóla. 


 

Til baka
Deila þessari frétt: Senda frétt Facebook