Skip to main content
22. júní 2018
Af Þóru Þorsteinsdóttur handritaskrifara

Svo virðist sem skriftarkunnátta kvenna fyrr á tíð hafi einkum nýst þeim til bréfaskrifta og til að skrifa undir skjöl og gerninga. Sárafá dæmi eru um handritaskrifara í röðum þeirra fyrir miðja 18. öld. Fáein handrit hafa þó verið nefnd til sögunnar sem sennilegt má telja að séu með hendi kvenna. Elsta dæmið um að kona skrifi handrit er af Þóru (f. 1640), dóttur síra Þorsteins Björnssonar að Útskálum. Jón Halldórsson prófastur í Hítardal segir að Þorsteinn hafi menntað Þóru í reikningskúnst og fleiri lærdómslistum (Guðrún Ása Grímsdóttir 1996:228).

22. júní 2018
Hallveig Ormsdóttir húsfreyja í Reykholti (d. 25. júlí 1241)

Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar segir svo frá andláti húsfreyju Snorra Sturlusonar: „Um sumarit Jakobsmessu andaðist Hallveig Ormsdóttir í Reykjaholti, ok þótti Snorra þat allmikill skaði, sem honum var.“ Sögumaðurinn brýtur þannig hlutlæga frásögn sína og segir álit sitt á skaða Snorra og samhryggist honum. Hins vegar hefur hann líklega getið um dauða hennar vegna þess sem fylgdi á eftir, morðið á Snorra 23. september 1241.

22. júní 2018
Konurnar í Sælingsdalstungu

Sælingsdalur er sögusvið eftirminnilegra atburða í Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir og Bolli Þorleiksson fluttust frá Laugum í Sælingsdalstungu eftir dauða Kjartans, en ári eftir víg Bolla hafði Guðrún bústaðaskipti við vin sinn, Snorra goða Þorgrímsson á Helgafelli. Á Sturlungaöld bjó annar kvenskörungur í Tungu, Jóreiður Hallsdóttir. Eina vísan sem lögð er í munn konu í Sturlungu er ort um atburð er þar gerðist í apríl árið 1244.

22. júní 2018
Skáldkona frá 15. öld

Hvert er elsta varðveitta bókmenntaverkið sem vitað er að íslensk kona hefur samið? Hætt er við að ýmsum mundi vefjast tunga um tönn að svara þessari spurningu. Mörg eddukvæði þykja bera kvenlegan svip en engar beinar heimildir eru um að konur hafi samið þau. Af þeim forna kveðskap sem flokkast undir dróttkvæði er vissulega til að ein og ein vísa sé eignuð konu. En heldur er þetta lítið og brotakennt efni og í mörgum eða flestum tilfellum má efast um að vísurnar séu eignaðar réttum höfundum.