Skip to main content
Mál og samfélag
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir á máli og málnotkun með áherslu á samspil ýmissa ytri þátta við hina formlegu þætti tungumálsins og þróun þeirra. Sjónarhornið tengist gjarna málsamfélaginu í heild eða miðast við einstaka málnotendur og hópa fólks; við breytilegar málaðstæður og hið fjölbreytilega samhengi sem málnotkun birtist í. Hér má nefna rannsóknir á forsendum, virkni og takmörkunum málstefnu og málstýringar, á stöðlunarferli ritmáls, á arfleifð hreintunguhyggju og á sambandi lýsandi og vísandi málfræðiiðkunar. Þá eru stundaðar rannsóknir á sambandi ytri þátta, bæði félagslegra og einstaklingsbundinna (búsetu, aldurs, kyns, o.fl.) við málnotkun fyrr og síðar; rannsóknir á málnotkun t.d. unglinga í samtölum við ýmsar aðstæður, á svæðisbundnum tilbrigðum í máli og málnotkun og aðrar rannsóknir á breytilegri málbeitingu t.a.m. eftir ólíkum textategundum, undirbúningi, tali eða ritun, viðmælendum, ytra umhverfi, félagslegri merkingu, sjálfsmyndarsköpun o.fl.