Handrit á sýningum

Hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er ekki lengur hægt að bjóða upp á handritasýningu vegna húsnæðisskorts en allt frá heimkomu fyrstu handritanna árið 1971 til ársins 2013 voru handritasýningar snar þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Um þessar mundir eru valin handrit í vörslu Árnastofnunar til sýnis á þremur sýningum í miðborg Reykjavíkur.

Handritið er bundið í tréspjöld og hefur það væntanlega verið gert á 17. öld. Stækka má myndina með því að smella á hana. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Möðruvallabók – AM 132 fol. frá miðri 14. öld. Lífsblómið – Fullveldi Íslands í 100 ár
Sýningin er samstarfsverkefni Árnastofnunar, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands og sett upp í tilefni af fullveldisafmæli þjóðarinnar. Árnastofnun, Árnasafn í Kaupmannahöfn og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn lögðu til sýningarinnar samtals sjö handrit.

Þrjú þessara handrita geyma texta Njáls sögu frá ólíkum tímum, þ.e. Reykjabók Njálu – AM 468 4to sem er skinnhandrit frá því um 1300 og eitt heillegasta handrit sögunnar; Hvammsbók – AM 470 4to pappírshandrit frá 17. öld og að síðustu myndskreytt pappírshandrit frá 19. öld (Lbs 747 fol.) sem fengið var að láni frá Landsbókasafni Íslands. Reykjabók Njálu er eina handrit Íslendingasagnanna sem enn er varðveitt í Kaupmannahöfn og var lánað á sýninguna. Að auki má sjá á sýningunni eftirtalin handrit:

  • Ormsbók (AM 242 fol.). Skinnhandrit sem er talið skrifað á árabilinu 1340−1370 og varðveitir fjórar málfræðiritgerðir frá miðöldum auk Snorra-Eddu, en Ormsbók er eitt af höfuðhandritum hennar. Handritið er varðveitt í Árnasafni í Kaupmannahöfn og var lánað á sýninguna.
     
  • Möðruvallabók (AM 132 fol.). Skinnhandrit sem talið er ritað tímabilinu 1330−1370 og er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna og eitt merkasta handrit þeirra. Í Möðruvallabók eru margar þekktustu Íslendingasögurnar: Laxdæla, Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar og Fóstbræðra saga auk annarra minna þekktra sagna.
     
  • Staðarhólsbók Grágásar (AM 334 fol.). Handritið, sem er frá seinni hluta 13. aldar, er í hópi veglegustu skinnhandrita sem varðveitt eru í Árnasafni. Í meginhluta bókarinnar er að finna lagaskrá þjóðveldistímans, Grágás, með Kristinrétti hinum forna. Í beinu framhaldi fylgir lögbókin Járnsíða, sem var lögboðin Íslendingum af Noregskonungi á 13. öld.
     
  • Skinnhandritið AM 45 8vo sem er eitt margra lagahandrita er varðveita Gamla sáttmála en hann er upprunalega talinn vera frá 13. öld. Handritið er skrifað á seinni hluta 16. aldar.

Sýningin er til húsa í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg í Reykjavík og mun standa frá 17. júlí til 16. desember 2018. Safnkennari Árnastofnunar, Svanhildur María Gunnarsdóttir, sinnir fræðslu fyrir skólahópa og veitir leiðsögn um sýninguna (lesa nánar um fræðsluna).
 

Sjónarhorn
Smellið á myndina til að stækka hana. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Skarðsbók Jónsbókar (1363) AM 350 fol. Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 var unnin í samstarfi við Árnastofnun og fimm önnur söfn. Þegar handritin fyrir sýninguna voru valin var sjónum beint að myndlýsingum / skreytilist í íslenskum handritum. Sjö handrit Jónsbókar úr safni Árna Magnússonar prýða sýninguna; eitt hið elsta frá lokum 13. aldar og allt til þess yngsta, pappírshandrits frá 17. öld – á meðal handritanna er fagurlega rituð og myndlýst Skarðsbók Jónsbókar (1363). Auk handritanna eru til sýnis nákvæmar eftirgerðir Íslensku teiknibókarinnar (1350–1500) og sjö myndlýstar handritasíður úr Stjórn (1350), prentaðar á kálfskinn.
 

Þjóðminjasafn Íslands
 Smellið með bendlinum á myndina til að stækka hana. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Grágás AM 31 b fol. (1240–1260) Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til, eru til sýnis tvö handrit og eitt handritsbrot frá Árnastofnun: eitt blað úr þjóðveldislögunum Grágás; skinnblað frá 1240–1260, Jónsbókarhandrit; skinnbók frá 1450 og afrit Íslendingabókar Ara fróða Þorgilssonar; pappírshandrit frá s.hl. 17. aldar.

Upplýsingar um móttöku hópa og leiðsögn um sýninguna er að finna á vef Þjóðminjasafns Íslands en sú þjónusta er í höndum starfsmanna Þjóðminjasafnsins.