Skip to main content

Algengar spurningar um örnefni

Algengar spurningar um örnefni

Hér að neðan eru birt svör við nokkrum algengum spurningum um örnefni. Meiri fróðleik um einstök örnefni er líka að finna í pistlum um örnefni og nöfn og í fyrirspurnum og svörum.


Apavatn

E.t.v. skylt fornnorska árheitinu Apa í Opedal í Noregi, skylt epja 'for, bleyta', sbr. Epjuteigur í landi Sandlækjar í Gnúpverjahr. í Árn. Ólíklegri eru skýringar sem telja að Api hafi verið jötunn eða göltur (Guðni Jónsson). Hugsanlegt er viðurnefnið api, en ólíklegt að kennt sé við papa eða apla 'naut' (Guðrún Ása Grímsdóttir).

Auðnar

Bær á Vatnsleysuströnd. Svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og bók heimamanns, Guðmundar B. Jónssonar: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi.

Álsey

Ein af Vestmannaeyjum. Ekki Álfsey. Líklega er nafnið dregið af orðinu áll.

Bíldudalur

Orðið bíldur merkir 'blóðtökuverkfæri' og Bíldur er 'bíldóttur hrútur'. Bylta er nafn á bökkunum á móti þorpinu, hinum megin við voginn. Hugsanlega er nafnið Bíldudalur afbökun úr *Byltudalur, eða öfugt, Bylta afbökun úr Bíldudalur.

Blakknes

Þannig er nafnið í skrifum heimamanna, þó að Blakksnes sjáist stundum í bókum.

Blanda

Nafnið er dregið af lit vatnsins, sbr. Hvítá.

Bolungarvík

Svo ritað í Landnámu (Ísl. fornrit I:186).

Breiðabólstaður

Frekar en Breiðabólsstaður. Af orðinu bólstaður en ekki breiðaból.

Breiðavík

Nafnið heldur mynd sinni í samsetningum, Breiðavíkurbjarg (Samúel Eggertsson) og Breiðavíkursókn.

Bustarfell

Þannig í Sveitum og jörðum í Múlaþingi. Í Sarpi verður það ritað þannig.

Djúpavík

Líklega rétt að hafa Djúpu- í öðrum föllum, en er þó á reiki.

Eiðsgrandi - Eiðistorg

Götuheitið Eiðsgrandi í Reykjavík er miðað við eldri mynd orðsins, þ.e. eið, og eldri Seltirningar voru vanir nafninu Eiðsgrandi. Hins vegar hafa nöfnin Eiðismýri, Eiðistorg og Eiðisvík á Seltjarnarnesi verið sniðin eftir yngri mynd orðsins, þ.e. eiði.

Esja 

Nafnið er talið dregið af ljósri steintegund sem er til í fjallinu, sbr. nýnorska esje 'kléberg, tálgusteinn'.

Eydalir - Heydalir 

Bærinn var nefndur Heydalir í Landnámu (Ísl. fornrit I:308) og Njálu, fornbréfum og máldögum fram á 16. öld. Sumt gamalt fólk í Breiðdal notaði þessa nafnmynd á f.hl. 19. aldar. (Sbr. Hjörleif Guttormsson í árbók Ferðafélagsins 2002.)

Eyjahreppur

Hefð er fyrir því að skrifa svo en ekki Eyjarhreppur.

Glettingsnes

Í Borgarfjarðarhreppi í N-Múl. Mál eldri heimamanna, en aðkomufólk notaði fremur Glettinganes.

Grímansfell - Grímarsfell

Í Mosfellsdal. Nafnið er á reiki, en ekki er talið rétt að skrifa Grímmannsfell.

Hallormsstaður

Svo er nafnið haft nú, á Hallormsstað, en var upphaflega Hallormsstaðir. Af því eru allar samsetningar með Hallormsstaða-, t.d. Hallormsstaðaskógur

Hekla

Almennast er talið að það merki 'kápa' og eigi þá við snjókápu á fjallinu.

Hellnar 

Þéttbýli á Snæfellsnesi. Það hét áður Hellisvellir, en "kallað af almúga Hellnar" segir í Jarðabók Árna og Páls. Orðmyndin líkist því að vera dregin af kvk.orðinu hella, í ef.flt. hellna, sem hefði svo breyst í kk.flt. Hellnar.

Hrauneyjafoss

Fossinn er kenndur við margar eyjar, því Hrauneyjafoss.

Hæll

Bær í Gnúpverjahreppi. Nafnið er kk.et. og beygist Hæll - Hæl - Hæli - Hæls.

Kárahnjúkar

Myndin hnjúkur er höfð um allt Norðurland og Austurland nema sunnanvert en hnúkur um Suður- og Vesturland.

Keta

Orðið getur merkt 'kró' eða 'stía'. Það á vel við Ketu á Skaga, þar sem er samnefnd vík, Keta.

Kiðaberg

Bær í Grímsnesi. Upphaflega Kiðjaberg.

Klömbur

Bær í Aðaldal. Nafnið er kvk.et. og er eins í öllum föllum: að Klömbur (þf.), í Klömbur (þgf). Ýmist er sagt Klambrarsel (Ritsafn Þingeyinga) eða Klambrasel (Byggðir og bú).

Kráksstaðir - Krákustaðir

Krákur merkir 'hrafn' en Kráka er algengt sem árheiti. Hugsanlega er orðið krákur tvímynd við krókur, sbr. krá = kró 'afkimi'.

Krýsuvík

Er ritað svo í fornbréfum og Landnámu (Ísl. fornrit I:392-395).

Kögur

Nafnið er hk. og beygist Kögur - Kögur - Kögri - Kögurs.

Leiruvogur

Frekar en Leirvogur. Leiruvogur er m.a. í Landnámu en hefur líklega orðið Leirvogur fyrir áhrif frá samsetningunni Leir(u)vogsá.

Lifrarfjöll

Á Landmannaafrétti. Talið réttara en Lifrafjöll.

Ljá

Árheiti. Merking er ekki fullljós. Ljárskógar eru kenndir við hana.

Ljósifoss

Í Sogi í Grímsnesi, ekki Ljósafoss.

Loðmundur - Löðmundur

Fjall á Landmannaafrétti. Skaftfellingar kalla það Loðmund en Rangæingar Löðmund. Loðmundur er einn hæsti tindur Kerlingarfjalla. Forn mynd hefur líklega verið Löðmundur en hefur líkst Loðmundi í framburði.

Maradalur

Hrossadalur; mar hér 'hestur'.

Norðlingaholt Ekki Norðlendingaholt.

Nafnið gat einnig átt við Borgfirðinga, þ.e. alla þá sem komu að norðan til Reykjavíkur.

Núpsstaður

Eðlilegt að skrifa með tveimur -ss-um, sbr. Núpsvötn.

Óbrinnishólar

Réttara en Óbrynnishólar, sbr. so. brinna í fornu máli.

Rytur(inn)

Rytagnúpur í Landnámu, en nafnið er dregið af fuglinum rytu; síðan hefur orðið stytting á nafninu.

Sandgígjukvísl

Orðið gígja getur merkt 'sandhóll, melgrashóll', eins og gígur.

Sjöundá

Bær á Rauðasandi. Í Jarðabók Árna og Páls koma fyrir báðar myndir, Sjöundá og Sjöundaá. Í síðari tíma heimildum er -a-i sleppt.

Skálar á Langanesi

Nafnið er dregið af skáli kk., ekki skál kv. Í þf. Skála, ekki Skálar.

Skjaldbreið - Skjaldbreiður

Nafn fjallsins er á reiki, t.d. hjá Þorvaldi Thoroddsen.
Jónas Hallgrímsson hafði myndina Skjaldbreiður og svo gera Íslandshandbókin og Landið þitt.

Snartarstaðalækur

Svartá? Snartarstaðir í Núpasveit koma fyrir 1296 (DI II:309). E.t.v. hefur Svartá verið búin til úr bæjarnafninu.

Staðarstaður

Þannig ritað (með -r-i) í Jarðabók Árna og Páls.

Tröllaskagi

Pálmi Hannesson mun hafa búið örnefnið til, sbr. Hannes Pétursson: Nýlegt örnefni. Skagfirðingabók 17 (1988).

Tungná

Upphaflega Tungnaá, en Sveinn Pálsson o.fl. rituðu Tungná. Jón Eyþórsson tók upp eldri ritháttinn á 20. öld þó að framburður nafnsins sé nánast Túná.

Varmadalur - Varmidalur

Nafnið er á reiki. Annaðhvort af lo. varmur eða kk.orðinu varmi.

Vífilsfell

Svo ritað í Landnámu (Ísl. fornrit I:45).

Vöðlavík

Málvenja flestra heimamanna, ekki Vaðlavík.

Ýrufoss

Í Sogi, sbr. örnefnaskrá Syðri-Brúar. Er á korti og í Íslandshandbók þannig ritað. Upphafleg merking 'úðafoss', sbr. 'regnúði'. Lengi hefur tíðkast myndin Írafoss og álitið að fossinn væri þá kenndur við írska menn.

Þveit

Stöðuvatn í A-Skaft. Upphafleg merking e.t.v. 'lægð, jarðfall'. Orðið þveit(i) er algengt í norrænum örnefnum og getur m.a. merkt 'grasflöt í skógi eða á milli kletta, mjótt sund milli hæða, lægð eða skorningur jarðarskika af tiltekinni stærð' (ÁBlM). (Sbr. Pierre Naert í Arkiv för nordisk filologi 73 (1958)).

Öndverðarnes

Upphaflega Öndverðanes en hefur þróast í Öndverðarnes.

Örfirisey - Effersey.

Örfiri = útfiri, það þegar lágsjávað er. (Sjá Reykjavík. Sögustaður við Sund.)

Öxarfjörður

Heimamenn hafa ályktað um að nafnið skuli vera svo en ekki Axarfjörður.