Skip to main content

Notkun og meðferð handrita

Að jafnaði skulu myndir (ef til eru) notaðar til rannsókna í stað handrita. Stafrænar myndir eru á handrit.is og NorS sprogsamlinger. Skrár yfir bæði pappírsmyndir og filmur/diska og stafrænar myndir eru varðveittar á stofnuninni.

Þeir sem þurfa að rannsaka handrit eða önnur frumgögn geta haft samband við safnvörð (karl.oskar.olafsson [hjá] arnastofnun.is) sem sér um að afgreiða þau.

  • Handritalessalurinn er opinn milli kl. 9 og 16 nema á föstudögum þegar opið er milli kl. 9 og 13. Handrit eru sótt í handritahvelfingu um kl. 8.30 og 11.30. Senda þarf safnverði (karl.oskar.olafsson [hjá] arnastofnun.is) tölvupóst með upplýsingum um handrit sem óskað er eftir.
  • Yfirhafnir og töskur skal skilja eftir í fatahengi í kjallara undir anddyri hússins eða í fatahengi á bókasafni.
  • Enginn matur eða drykkur er leyfilegur á handritalessalnum.
  • Ekki eru afgreidd fleiri en fimm handrit í einu. Sum handrit eru sérlega viðkvæm og undanþegin notkun á lestrarsal. Forvörður ákveður hvaða handrit eru undanþegin notkun.
  • Hendur þurfa að vera hreinar og þurrar áður en tekið er á handriti. Forðast ber að snerta leturflöt handrita með berum höndum.
  • Ekki má nota blek eða kúlupenna í nánd við handrit, einungis blýanta. Ekki skal skrifa ofan á handritum og ljósmyndum.
  • Nota skal púða eða bókavöggur til verndar bandi og bókaorma (snáka) til að halda bókum opnum.
  • Handrit á ekki að hafa opin að óþörfu því birta er þeim skaðleg.
  • Ekki má yfirgefa handrit á borðum. Þurfi gestur að bregða sér frá afhendir hann safnverði handritið til geymslu.
  • Ekki má skilja neitt eftir inni í handriti. Aldrei má breyta röð lausra blaða í handriti.
  • Nota má stafrænar myndavélar til að taka myndir í fræðilegum tilgangi til einkanota en gæta skal ýtrustu varkárni. Ekki má nota flass.