Skip to main content

Verklagsreglur um einelti

Verklagsreglur um einelti

Verklagsreglur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um einelti á vinnustað eru byggðar á reglugerð 1009/2015 (Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum), verklagsreglum fjármála- og efnahagsráðuneytis, Stjórnarráðs Íslands, Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands.

Stofnunin vill stuðla að góðum starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli allra starfsmanna. Starfsmenn temji sér kurteisi og háttvísi í framkomu og auðsýni hver öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót.

Samkvæmt vinnuverndarlögum (46/1980) skal atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Ef einelti kemur upp á vinnustað geta starfsmenn nýtt sér verklagsreglur stofnunarinnar til að vita hvert skuli leita og hvernig tilkynna eigi mál sem koma upp og hvernig verði tekið á þeim.

Hvetja þarf til opinskárra umræðna á vinnustað um verklagsreglur vegna eineltis. Þannig ætti öllum að vera ljóst að einelti líðst ekki á vinnustaðnum, að tilkynningar um slíkt verði litnar alvarlegum augum og að tekið verði á þeim með markvissum leiðum.

1. Skilgreining á hugtakinu einelti á vinnustað

Einelti er hér skilgreint samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015:

„Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.“

2. Dæmi um birtingarform eineltis

Starfstengdar athafnir:

 • Grafið er undan trausti á faglegri hæfni starfsmanns eða frammistöðu hans.
 • Starfsmaður er hafður undir stöðugu eftirliti og markvisst leitað að mistökum.
 • Starfs- eða verkefnatengdum upplýsingum er haldið frá starfsmanni.
 • Geðþóttakenndar breytingar eru gerðar á verksviði starfsmanns.
 • Ábyrgð er tekin af starfsmanni án þess að ræða það við hann.
 • Gagnrýni er látin í ljós á niðrandi eða neikvæðan hátt í viðurvist annarra.
 • Vilji samstarfsmanna til aðstoðar er lítill.

Félagsleg útskúfun og særandi framkoma:  

 • Starfsmaður er markvisst sniðgenginn og útilokaður frá starfshópum og félagslífi.
 • Baktal og slúður.
 • Starfsmenn skemmta sér á kostnað eins.
 • Niðrandi athugasemdir eða dylgjur.
 • Endurteknar skammir.
 • Endurtekin stríðni.
 • Ógnandi framkoma og hótanir.
 • Meðvituð útilokun.

Hvernig þolendur taka móðganir eða ótilhlýðilega háttsemi til sín er grundvallaratriði í sambandi við einelti. Því skiptir ekki öllu hvort að baki býr hugsunarleysi eða ákveðinn vilji til að auðmýkja. Sérhver þolandi verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé honum misboðið. Ef athæfi geranda er endurtekið og varir í lengri tíma telst það vera einelti.

3. Forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir

Það er hlutverk allra starfsmanna að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað. Mikilvægt er að starfsmenn sýni samkennd og séu vakandi gagnvart allri slíkri háttsemi. Starfsmenn Árnastofnunar eiga að þekkja gildi þess, virða stefnu þessa, vera meðvitaðir um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á allri ótilhlýðilegri háttsemi sem og öðrum ágreiningsmálum.

Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna öðrum starfsmönnum tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi, stuðla að góðum starfsanda, fylgjast með samskiptum starfsmanna og taka á ágreiningsmálum. Viðbrögð skulu vera markviss og leitað lausna.

Upplýsa skal starfsmenn um einelti og verklag í eineltismálum.

Kanna skal reglulega viðhorf starfsmanna til stjórnunar, líðanar í starfi og jafnréttis- og eineltismála. Einnig hvort þeir hafi orðið fyrir einelti.

4. Verklagsreglur

a) Hvert skal starfsmaður snúa sér? Aðferð við að koma kvörtun / ábendingu á framfæri

Ef starfsmaður verður fyrir, eða hefur vitneskju um, mál sem hann upplifir sem einelti skal hann snúa sér til næsta yfirmanns. Jafnan er erfiðara að leysa málin eftir því sem lengri tími líður frá því áreitni hófst. Ef gerandi eineltis er yfirmaður þá skal leita til fjármálastjóra, trúnaðarmanna eða forstöðumanns.

Almennt er það hlutverk forstöðumanns ríkisstofnunar að taka á kvörtun um einelti. Í þeim tilfellum þar sem meintur gerandi er forstöðumaður, ber ráðuneyti að grípa inn í og gera nauðsynlegar ráðstafanir á grundvelli vinnuveitandahlutverks síns. Í tilviki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skal því leita til menningar- og viðskiptaráðuneytis. Fjármálaráðuneytið (2010) hefur unnið verklagsreglur fyrir ráðuneyti og stofnanir til að fara eftir þegar upp koma eineltistilfelli þar sem meintur gerandi er æðsti stjórnandi stofnunar.

b. Hver gerir hvað í framhaldi af kvörtun / ábendingu

Sá sem leitað er til skal bregðast við eins fljótt og kostur er. Meta skal aðstæður og leitast við að vinna úr og leysa málið innan einingarinnar í samráði við viðkomandi starfsmann og stjórnendur ef hægt er.

Ef málið er þess eðlis að ekki er hægt að leysa það á staðnum, getur starfsmaður snúið sér til fjármálastjóra, trúnaðarmanna eða forstöðumanns. Grípa þarf til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtaki sig ekki á vinnustaðnum.

c. Frekari greining og úrvinnsla mála

Nauðsynlegt er að fá greinargóðar upplýsingar frá viðkomandi starfsmanni og meta næstu skref út frá því. Til greina kemur að tala við meintan geranda, halda starfsmannafund, leita aðstoðar hjá sérfróðum aðilum eða annað eftir eðli málsins. Gæta skal fyllsta trúnaðar í viðtölum.

Oftast er byrjað á því að tala við þann sem hefur verið áreittur og mikilvægt er, að næstu skref verði ákveðin í samráði við hann. Í framhaldi getur verið æskilegt að ræða við samstarfsmenn eða aðra sem geta staðfest áreitnina. Þolandi eineltis getur líka ákveðið að hafa með sér aðila til stuðnings strax frá upphafi úrvinnslu máls.

Nauðsynlegt er að afla nákvæmra upplýsinga um hvar, hvenær og hvernig eineltið hefur átt sér stað. Æskilegt er að skrá niður tíma og dag eineltis. Athuga skal hvort þolandi er sjálfur með einhverjar tillögur varðandi frekari úrvinnslu málsins. Í sumum tilfellum er æskilegt að veita þeim sem hefur orðið fyrir einelti stuðning til að geta sjálfur sett samstarfsmönnum mörk, t.d. með aðkomu sérfræðings.

Ef þörf er á að tala við meintan geranda og þolandi samþykkir það, þarf að meta stöðuna vel og ef til vill ráðfæra sig við sérfræðing áður en lengra er haldið. Varast skal að vera með ásakanir. Best er að athuga hvort meintur gerandi hafi sjálfur hugmyndir um rót vandans og tillögur til úrbóta sem hann/hún er tilbúin/n til að fylgja eftir. Í hefðbundnum eineltismálum er sjaldnast æskilegt að halda sameiginlegan fund með þolanda og geranda, en það verður að meta hvert mál fyrir sig, upphaf þess og birtingarmynd.

Meta þarf hvort líkur séu á að eineltið geti komið upp aftur eða birst á annan hátt. Þá getur almenn fræðsla og umfjöllun um samskipti á vinnustað og starfsanda verið æskileg, t.d. á starfsmannafundi. Það er nauðsynlegt að gera starfsmönnum grein fyrir því að allir bera ábyrgð á eigin vinnuumhverfi, að viðhalda góðum starfsanda og að tilkynna ef brotið er á einhverjum.

Þegar atvik hafa verið upplýst þarf að huga að afleiðingum málsins, t.d. með sáttaumleitun þar sem utanaðkomandi ráðgjafi er oft og tíðum vel til þess fallinn að stýra sáttafundum. Einnig getur komið til formlegrar áminningar, breytingar á starfi eða í undantekningartilfellum fyrirvaralausrar brottvikningar (sjá nánar: 5 Verklag við að takast á við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi og aðra ótilhlýðilega háttsemi í Stefnu Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi).

Nauðsynlegt er að fylgja öllum eineltismálum eftir, heyra frá þolanda hvernig staðan er, og meta hvort eineltishegðun hefur haldið áfram í einhverri mynd á vinnustað. Ef ekki tekst að finna viðeigandi lausn og bæta aðstæður innan vinnustaðarins getur starfsmaður snúið sér til stéttarfélags síns eða Vinnueftirlitsins.

5. Tenglar

Textinn var uppfærður í febrúar 2018.