Skip to main content
Handrit og skrift
Handritafræði er fræðigrein sem fæst við handskrifaðar bækur og skjöl á bókfelli eða pappír. Viðfangsefni almennrar handritafræði má skipta í þrennt: Í fyrsta lagi efni handrits (innihald), í öðru lagi ytri einkenni handrits (form, efnislega samsetningu og kveraskiptingu, frágang, útlit (e. layout), skrift, lýsingar (skreytingar) og band) og í þriðja lagi verkbeiðendur og eigendur, feril handrits og not (útbreiðslu, áhrif, lesendur). Handritafræði í þrengri skilningi (e. codicology) er hins vegar fræðigrein sem fjallar einungis um bókarformið, fyrst og fremst bækur frá fornöld og miðöldum, verkun bókfells, samsetningu handrits og útlit hverrar síðu. Skriftarfræði heyrir til handritafræðinni og fjallar fyrst og fremst um skrift en einnig um skrifara, skrifaraskóla, efni til að skrifa með og aldursgreiningu handrita.

Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir á handritum og unnið að margvíslegum verkefnum þeim tengdum. Má þar nefna rannsóknir á skrift, lýsingum og samsetningu handrita en einnig almennar rannsóknir á handritum í tengslum við rannsóknir á textum og útgáfur þeirra.