Skip to main content

Fréttir

Eiríkur Rögnvaldsson er landsfulltrúi CLARIN

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er nýjasti starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en hann hefur verið ráðinn sem landsfulltrúi (National Coordinator) evrópska innviðaverkefnisins CLARIN (Common Language Resources and Technology Infrastructure) sem Ísland hefur nú fengið áheyrnaraðild að. Eiríkur starfaði sem kennari við Íslenskudeild Háskóla Íslands í rúm 35 ár en fór á eftirlaun nýlega. Hann hafði lengi unnið að því að Ísland yrði aðili að CLARIN, m.a. með viðræðum við stjórnvöld og þátttöku í norrænu CLARIN-neti.

CLARIN stefnir að því að málleg gögn, svo sem orðasöfn, textasöfn, upptökur af tali o.fl., auk hugbúnaðar til að greina og vinna með málið, séu sem opnust og aðgengilegust, bæði til rannsókna og til nota innan máltækni. En það er ekki sama hvernig gögnin eru varðveitt til að þau verði að gagni. CLARIN beitir sér fyrir því að gengið sé frá gögnum á ákveðnu sniði, lýsigögn þeirra séu samræmd, réttinda- og leyfismál séu á hreinu, tryggilega sé gengið frá varðveislu gagnanna og aðgangur að þeim sé greiður. Stefnt er að því að allir þátttakendur í CLARIN-samstarfinu hafi aðgang að margvíslegum gögnum annarra samstarfsaðila gegnum innskráningu með eigin notandanafni og lykilorði.

Eiríkur segir að í verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-22 sem kom út árið 2017 hafi verið lögð áhersla á að Ísland gerðist aðili að CLARIN. Innan máltækniáætlunarinnar sem nú hefur verið hrint í framkvæmd verða til margvísleg málleg gögn. Þessi gögn eiga að vera öllum aðgengileg og því er mikilvægt að vinnsla þeirra og frágangur lúti ákveðnum reglum, og þau séu tryggilega varðveitt. Þar sem CLARIN hefur þróað reglur og leiðbeiningar um þessi atriði getum við nýtt okkur það, auk þess sem við fáum aðgang að margs konar tæknilegri aðstoð og upplýsingum. Hjá íslensku CLARIN-miðstöðinni sem komið verður upp á Árnastofnun verða margvísleg gögn varðveitt og þeim miðlað.

Fyrsta verkefni Eiríks, auk þess að koma upp vefsíðu verkefnisins, er að mynda samstarfshóp stofnana sem búa yfir gögnum eða hyggjast nýta gögn til frekari þróunar og rannsókna. Þátttakendur í  samstarfshópnum munu skrifa undir viljayfirlýsingu um samstarf á þessu sviði.