Skip to main content

Fréttir

Gripla 34 er komin út

Gripla, alþjóðlegt ritrýnt ISI-tímarit Árnastofnunar um handrita-, bókmennta- og þjóðfræði, er komin út með ellefu fræðiritgerðum (þremur á íslensku og átta á ensku með ágripum á báðum málum) og útgáfum stuttra texta.

Declan Taggart skrifar um fornnorræna orðið siðr. Fjallað hefur verið um trúarlega merkingu þess en hin siðferðilega vídd notið minni athygli. Greining Declans á elstu dæmum leiðir í ljós að merkingarsvið orðsins stendur nútímahugmyndum um siðferði nærri.

Elmar Geir Unnsteinsson veltir fyrir sér 8. og 9. vísu Gestaþáttar Hávamála og telur að kvæðið geymi ekki dyggðasiðfræðilegan boðskap heldur boði það sérhyggju sem beini sjónum að möguleikum fólks til að öðlast sælu eða gleði í hörðum heimi.

Alice Fardin leitar víða fanga í rannsókn sinni á uppruna og ferli elstu gerðar textans Viðræða líkams og sálar, norrænnar þýðingar á engilnormönsku kvæði. Alice kemst að því að þýðingin hafi að öllum líkindum verið gerð eftir frönsku skinnhandriti frá síðari hluta tólftu aldar sem borist hafi frá Picardy til Flæmingjalands og þaðan til Björgvinjar í tengslum við verslun og klausturmenningu benediktína.

Viðar Pálsson rökstyður að nýmæli í Járnsíðu og Jónsbók um bann við slímusetum (þegar óvelkomnir gestir setjast upp) tengist ekki staðbundinni valdamenningu á Íslandi heldur endurspegli það nýjar hugmyndir sem hafi verið að breiðast út í Evrópu í tengslum við vöxt og viðgang ríkisvalds – sem setti yfirgangsmönnum stólinn fyrir dyrnar.

Haki Antonsson rýnir í lokakaflann í Árna sögu biskups um dauða Þorvalds Helgasonar prófasts sem hafði svikið Árna í hinum svokölluðu Staðamálum. Haki dregur fram hvernig helgisagan um Magnús Orkneyjajarl og baráttu hans fyrir frelsi og sjálfstæði kirkjunnar í anda Tómasar Becket er notuð í tengslum við dauða Þorvalds til að koma kirkjupólitískum sjónarmiðum á framfæri.

Lea Debora Pokorny rekur feril og efnisleg einkenni handrits sem skipar sérstakan sess í hópi handrita sem talin eru eiga uppruna sinn í ágústínaklaustrinu á Helgafelli. Niðurstöður hennar eru að handritið sé samsett úr þremur framleiðslueiningum (en ekki tveimur eins og áður var talið) á seinni hluta fjórtándu aldar og hún getur þannig skýrt hvernig tengslum þess við Skarðsbók postulasagna var háttað.

Brynja Þorgeirsdóttir skoðar handritsbrot frá þrettándu öld með elsta norræna lækningatextanum; 52 klausur með lýsingu á krankleikum og viðeigandi lækningum með jurtum og öðrum efnum. Handritið er til vitnis um útbreiðslu arabískra og latneskra hugmynda hér á landi en torrætt samband handritsins við aðrar lækningabækur á Íslandi segir Brynja endurspegla þá aðferð að endurrita læknisráð frjálslega eftir aðstæðum hverju sinni.

Katelin Marit Parsons skrifar um handrita- og bókasafn Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu og hvernig það varpar ljósi á handritaeign og einkabókasöfn á Íslandi eftir siðaskipti. Frændi Helgu, Brynjólfur biskup Sveinsson, arfleiddi hana að öllum íslenskum bókum og handritum sínum til helmingaskipta við Sigríði Halldórsdóttur. Katelin færir rök fyrir því að Helga hafi eftir fráfall eiginmanns síns átt frumkvæði að því að efla bókakost Bræðratungu enda hafi handritaeign og þátttaka í handritamenningu samtímans verið liður í að styrkja samfélagslega stöðu fjölskyldunnar. Eftir stórubólu tvístraðist safnið; erfingjar barna Helgu áttu einnig í útistöðum við Árna handritasafnara Magnússon sem Magnús í Bræðratungu sakaði um að eiga í ástarsambandi við Þórdísi konu sína – eins og frægt er.

Kvenkyns tröll sem kemur í (jóla)veislu og veldur usla er efni greinar eftir Hauk Þorgeirsson sem tengir Þóruljóð (sem voru skráð úr munnlegri geymd á sautjándu öld) og heimildir um Háu-Þóruleik frá lokum sautjándu aldar við miðaldafrásagnir af Þorgerði Hölgabrúði. Haukur dregur fram líkindi með þessum gömlu frásögnum og hinum yngri heimildum og ályktar að sams konar tröllahugmyndir búi að baki.

Þórunn Sigurðardóttir tekur til athugunar Ræningjarímur sem séra Guðmundur Erlendsson í Felli (um 1595–1670) orti um Tyrkjaránið 1627 og telur rímurnar hluta af vinsælli kvæðagrein á dögum Guðmundar, fréttaballöðum, sem Þórunn sýnir að hafi verið þekkt hér á landi þótt hún sé hvergi nefnd í bókmenntasögum. Í viðauka birtir Þórunn þrjár slíkar fréttaballöður eftir Guðmund, eina um jarðskjálfta á Ítalíu árið 1627 og tvær um aftöku Karls I. Englandskonungs 1649.

Loks greinir Jón Karl Helgason frásagnarfræðileg einkenni Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal og bendir á líkindi sögunnar við Ódysseifskviðu, Þúsund og eina nótt og Leitina að hinum helga gral, bæði í því hvernig þar er unnið úr munnlegri sagnahefð og hún beinlínis sett á svið.

Gripla kemur út á prenti einu sinni á ári en er jafnframt í opnu aðgengi á gripla.arnastofnun.is. Efni Griplu hefur verið skráð í gagnagrunna Thomas Reuters (Clarivate–Web of Science) frá 2010 og Elsevier (Scopus) frá 2011, og árið 2022 var gengið frá samningi við EBSCO-efnisveituna um miðlun Griplu. Ritstjórar eru Gísli Sigurðsson (gisli.sigurdsson@arnastofnun.is) og Margrét Eggertsdóttir (margret.eggertsdottir@arnastofnun.is).