Skip to main content

Fréttir

Hefur íslenskan gleymst í íslenskum fræðum?

Kristján Árnason hefur skrifað hugvekju í nýjasta hefti Skírnis um stöðu íslenskra fræða eða íslenskunnar sem námsgreinar við Háskóla Íslands. Þegar hann er spurður að því hvort hægt sé að benda á eitthvað eitt sem kveikti þörfina til að senda frá sér grein um málið segir hann:

Þetta er eiginlega mín leið til að skamma sjálfan mig dálítið. Á unga aldri var maður uppfullur af vísindum sem maður var búinn að læra í útlöndum og vildi flytja það allt með sér hingað heim og inn í háskólann. Maður var kannski gjarn á að spyrja hvernig getur íslenskan styrkt teoríuna? En þegar frá líður verð ég að viðurkenna að ég er minna upp á teoríuna en margir kollegar mínir. Viðfangsefnið sjálft, íslenskan, finnst mér að hafi hálfpartinn gleymst í náminu og hinar alþjóðlegu kenningar um allt milli himins og jarðar settar í forgrunn. Mér finnst tímabært að spyrja hvað getur teorían gert fyrir íslenskuna og þar með hjálpað okkur að skilja okkar tilvist?

Það er hægt að lengja í þræðinum á milli þess máls sem við tölum hér

og málsins á Íslendingasögunum ef menn hafa til þess hugsjón

segir Kristján Árnason prófessor í íslensku við Háskóla Íslands.

Má lesa á milli línanna að honum finnist tölulegar staðreyndir um fjölda þeirra sem leggja stund á einhverskonar íslensk fræði benda til þess að komin sé öfugþróun í málin þegar námsmenn frá öðrum löndum eru mun fjölmennari en íslenskir námsmenn á þessu sviði? Nei, Kristján fagnar áhuga erlendra fræðimanna  og varar við heimóttarskap þegar málin séu rædd. En hann telur fulla þörf á að velta því fyrir sér hvers vegna Íslendingar sæki svo lítið í að læra íslenskuna og íslensk fræði: „Við höfum forskot á alla sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og löng hefð er fyrir því að líta á íslensk fræði sem grein af sama meiði og verk Snorra Sturlusonar; þráðurinn í íslenskum fræðum hafi verið óslitinn til okkar daga. Hugsanlega er hann núna að þynnast  og trosna óþarflega mikið, með því að dreifast á fleiri námsgreinar en þau íslensku fræði sem kennd voru frá upphafi Háskóla Íslands og hægt er að tengja við menn eins og Konráð Gíslason, Finn Jónsson, Jón Helgason og Sigurð Nordal. Auðvitað er óhjákvæmilegt að nýjar kynslóðir hafi aðra sýn á fortíðina og einhverntíma kemur að þeim degi að Íslendingar hætti að geta lesið Njálu. En ég vil fresta þeim degi í lengstu lög.

Telur Kristján að það sé í mannlegu valdi að slá slíku á frest?

Já, hafi menn til þess hugsjón er það hægt. Við getum borið íslenskuna saman við önnur tungumál, t.d. ensku sem hefur fornensku og miðensku og svo nútímaensku. Þetta er allt sitthvað. Ég hef stundum sagt að Njála hafi svipaða stöðu hér og Shakespeare hjá Englendingum og við getum í nútímanum lesið Njálu á því máli sem hún var skrifuð á rétt eins og Englendingar geta lesið Shakespeare, þótt strembinn sé. En hvenær mun þurfa að þýða Shakespeare á nútímaensku? Og að sama skapi spyr maður hvenær þarf að þýða Njálu á nútímaíslensku? Vonandi verður það aldrei.

EMJ