Skip to main content

Fréttir

Heimsókn fulltrúa Árnastofnunar til Japans

Bók í snjáðri kápu sem er skreytt með íslensku fánalitunum. Titill og höfundur skrifað á japönsku
Bókin Íslenzk málfræði eftir Sadao Morita

Í nóvember síðastliðnum heimsótti Branislav Bédi, verkefnisstjóri á íslenskusviði Árnastofnunar, fræðimenn, kennara og nemendur í íslensku við háskóla í Japan. Markmið heimsóknarinnar var að kynna íslensk fræði, íslenska tungu og menningu og upplýsa um styrkjamöguleika fyrir háskólanema og fræðimenn sem stefna á að stunda nám og rannsóknir hér á landi. Auk þess var haldinn fyrirlestur um íslenska tungu og menningu fyrir nemendur við Tokaiháskóla og kynningarfundur fyrir fræðimenn sem skipulagður var í samstarfi við sendiráð Íslands í Japan. Einnig var farið í heimsókn í Wasedaháskóla þar sem íslenskukennsla á sér langa sögu. Skoðuð voru kennslurými og verðmætt bókasafn sem svokallaður fyrsti japanski íslenskufræðingurinn, Sadao Morita, gaf háskólanum þegar hann lést. Safnið inniheldur um 2000 bækur í skandinavískum fræðum sem hafði tekið um 40 ár að safna. Hann sjálfur lagði stund á nám í nútímaíslensku við Háskóla Íslands árið 1961 þegar hann kom til landsins sem styrkþegi menntamálaráðuneytisins. Síðar kenndi hann íslensku við Wasedaháskóla.

Í dag eru yfir 80 ár liðin síðan íslenskukennsla hófst þar í landi. Miða má við frásögn Jóns Sveinssonar (Nonna) af heimsókn hans í Keisaralega háskólann í Tókýó en frásögnin, sem er eftir Bjarna Jónsson frá Unnarholti, birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1941 (Kristín Ingvarsdóttir, 2017: 98). Þess má einnig geta að rúmlega 40 ár eru liðin frá útgáfu málfræðibókarinnar Íslenzk málfræði eftir Sadao Morita, sem kom út árið 1981, og var fyrst notuð í kennslu við Wasedaháskóla.

Styrkur fyrir heimsókninni fékkst úr Íslandsdeild Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation sem veitir styrki til að efla tengsl Íslands og Japans. Japan er fyrsta landið í Asíu sem hóf að kenna íslensku á háskólastigi.

Eitt hlutverk íslenskusviðs Árnastofnunar er að styrkja og stuðla að kennslu í íslensku sem erlendu máli við háskóla erlendis. Þetta er gert fyrir hönd íslenskra stjórnvalda sem styðja íslenskukennslu við 15 háskóla um allan heim og þ. á m. í Japan. Kennarar sem kenna íslenskt mál og íslensk fræði við þessa háskóla gegna mikilvægu hlutverki sem menningarfulltrúar Íslands; þeir styðja við stöðuga útbreiðslu máls og menningar í mismunandi löndum og efla áhuga nemenda á þýðingum, rannsóknum og frekara íslenskunámi. Segja má að íslenskunemar séu einnig eins konar menningarfulltrúar Íslands sem vinna að útbreiðslu íslenskrar menningar bæði á meðan námi þeirra stendur og að því loknu í mismunandi störfum og atvinnugreinum víða um heim.

Áhugi á íslensku í Japan er enn mikill og fjölbreyttur og felst m.a. í málvísindum, bókmenntum og alþjóðafræði. Einnig er áhugavert að sjá hvernig íslenskar fornbókmenntir og norræn goðafræði hefur aukið áhuga nemenda og fræðimanna á að stunda frekara íslenskunám. Árlega er boðið upp á íslenskunámskeið a.m.k. við sjö háskóla í Japan, Wasedaháskóla, Tokaiháskóla, Háskóla erlendra mála í Tókýó (e. Tokyo Foreign Language University), Iðnaðarháskólann í Muroran, Hokkaidoháskóla, Osakaháskóla og Kanazawaháskóla. Japanskir nemendur hafa sótt um styrki til BA-náms í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands frá því 1958 og er það nánast orðin hefð. Á þeim tíma hafa 35 styrkir verið veittir til japanskra nema sem hefur eflaust leitt m.a. til þess að mikilvægir menningarfulltrúar Íslands í Japan hafa orðið á sviði íslenskra fræða og þýðinga. Eins hefur þetta stuðlað að þátttöku í Íslensk-japanska félaginu sem var stofnað árið 1981 vegna vináttu þjóðanna og samvinnu af ýmsum toga.

Heimsóknin til Japans hefur lagt grunninn að áframhaldandi menningarsamstarfi og aukinni kynningu á íslenskri tungu, menningu og rannsóknum í Japan. Stefnt er að frekara samstarfi við þessa háskóla í íslenskukennslu og kortlagningu íslenskra fræða í Japan.

 

 
Heimild: Kristín Ingvarsdóttir. 2017. „„Frá Sóleyjum“: Upphaf samskipta Íslendinga og Japana 1904–1942“. Skírnir 191 (1): 80–114.