Skip to main content

Fréttir

Landsskýrsla Íslands til Sérfræðinganefndar SÞ um landfræðiheiti

Nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tekur þátt í starfi Sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um landfræðiheiti (e. United Nations Group of Experts on Geographical Names, UNGEGN). Markmið nefndarinnar er að stuðla að söfnun og skráningu örnefna og því að þau séu gerð aðgengileg, ásamt því að hvetja til góðra starfshátta við örnefnastýringu.

Starf sérfræðinganefndarinnar fer að miklu leyti fram innan ríkjadeilda sem í flestum tilvikum eru skilgreindar landfræðilega (t.d. Eystrasaltsdeild og deild Vestur-Afríku) eða eftir tungumálum (t.d. deildir frönsku- og portúgölskumælandi landa). Á þessum vettvangi hittast reglulega fulltrúar ólíkra ríkja og miðla reynslu sinni af örnefnamálum. Ísland tekur þátt í starfi Norðurlandadeildar UNGEGN, Norden Division. Á vegum UNGEGN starfa einnig vinnuhópar um ýmis málefni,  t.d.  um ríkjaheiti og um örnefni sem menningararfleifð. Annað hvert ár er haldin allsherjarráðstefna UNGEGN og fer sú næsta fram í höfuðstöðvum SÞ í New York dagana 29. apríl til 3. maí nk. (sjá nánar hér).

Ísland sendir ekki fulltrúa á ráðstefnuna að þessu sinni en á nafnfræðisviði hefur verið útbúin skýrsla til UNGEGN um stöðu örnefnamála á Íslandi sem lögð verður fram á ráðstefnunni.  Í henni er meðal annars farið yfir sögu örnefnastýringar á Íslandi, fjallað um löggjöf og regluverk um örnefni hér á landi og skýrt frá hlutverki Örnefnanefndar og nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í málaflokknum. Einnig er sagt frá söfnun og skráningu örnefna í örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar og í opinberan örnefnagrunn sem Landmælingar Íslands starfrækja í samráði við Árnastofnun.

Skýrsluna má nálgast hér.