Skip to main content

Fréttir

Lifandi arfur í nútímanum

Guðrún Nordal. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Við hljótum að setja í forgang að hugsa til framtíðar um einstakan menningararf okkar og íslenska tungu, segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 31. mars 2014.

Á síðasta ári var haldið upp á þau tímamót að 350 ár voru þá liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Afmælisins var minnst með fjölbreyttum hætti, með sýningum á vegum Árnastofnunar og menningarráðanna um allt land, útgáfu bóka um handrit í safni Árna og um Íslensku teiknibókina, sýningu á Teiknibókinni og hátíðahöldum á afmælisdaginn sjálfan 13. nóvember svo að fátt eitt sé talið. Við hittum Guðrúnu Nordal, forstöðumann Árnastofnunar, og forvitnuðumst um afrakstur ársins.

„Við hugsuðum vandlega um hvernig við ættum að halda upp á afmælið,“ segir Guðrún. „Afmælisárið gaf okkur einstakt tækifæri til að vekja athygli á handritasafni Árna. Handritin eða ævistarf Árna er ekki einkamál stofnunarinnar, og því lögðum við áherslu á að byggja brýr, efna til samstarfs og færa handritin, sem stundum virðast ósnertanleg, nær fólkinu, út á land og heim í stofu. Sýningarnar út á landi heppnuðust einstaklega vel, en þar fórum við með endurgerðir á völdum handritum á sex staði út um landið. Sýningin á Íslensku teiknibókinni í Gerðarsafni var líka mjög falleg og fræðandi, og nutum við einnig góðs af samstarfi við Myndlistarskólann í Reykjavík. Það kom mörgum á óvart að við ættum þennan dýrgrip um íslenska myndlist í safninu, en við eigum marga slíka sem væri svo gaman að miðla með svipuðum hætti. Það var auðvitað ævintýri líkast að fylgjast með móttökunum á bók Guðbjargar Kristjánsdóttur um handritið. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin, og nú í vikunni fengu þær Snæfríð og Hildigunnur viðurkenningu fyrir frábæra hönnun á bókinni.

Það vakti mikla athygli að Margrét Danadrottning skyldi koma gagngert til Íslands til að fagna þessum tímamótum. Það hlýtur að hafa verið gaman?
„Já, það var mjög skemmtilegt að Danadrottning skyldi þekkjast boð forseta Íslands og taka þátt í hátíðahöldunum því að nærvera hennar minnti á sameiginlegu sögu landanna hvað handritin varðar og undirstrikaði mikilvægi safns Árna fyrir löndin tvö, enda er safnið á forræði beggja landa. Það er orðið langt síðan handritamálið var í brennidepli í samfélaginu, og því flestir búnir að gleyma þeim hatrömmu pólitísku deilum sem málinu fylgdu, enda meira en fjörutíu ár síðan fyrstu handritin komu heim frá Danmörku. Nýjar kynslóðir hafa vaxið úr grasi sem þekkja ekki þá átakasögu, og gæti verið gaman fyrir einhvern þáttagerðarmann að rifja hana upp því að hún er mjög dramatísk.

Við notuðum því tækifærið á afmælisárinu til að ná til unga fólksins eins og við gátum, til dæmis á afmælishátíðinni í Þjóðleikhúsinu, sem var tekin upp og sýnd í Ríkissjónvarpinu. Okkur langaði að sýna hve lifandi þessi arfur er í nútímanum. Við fengum til liðs við okkur listafólk til að móta dagskrána með okkur. Það er alltaf verið að spila og útsetja músíkina í handritunum, vinna með myndefni þeirra, nota Íslendingasögurnar og eddukvæði sem innblástur til að skapa ný listaverk, kvikmyndir, leikrit, teiknimyndir, nýjar sögur og kvæði. Ekki bara hér heima heldur út um allan heim. Við hefðum getað fyllt margar afmælisdagskrár af nýju efni. Við klykktum svo út með hljómsveitinni Skálmöld sem sló auðvitað í gegn. Það væri gaman að gera slíkt aftur.

Það sem var sérstaklega gleðilegt var að finna hvernig ungt listafólk dregst að menningararfinum. Það besta, dulúðuga og óvenjulega höfðar svo sterkt til nútímafólks. Og þessar bókmenntir eru auðvitað samtímabókmenntir okkar af því að þær lifna í huga okkar sjálfra. Við vildum svo gjarnan efla miðlun á netinu, koma stafvæðingu safnsins á verulegan skrið svo að auðveldara verði fyrir listamenn að ausa af þessum botnlausa brunni.

Verkefni afmælisársins munu lifa áfram, bækurnar og sýningarnar. Safnkennarinn okkar fylgir sýningunum eftir úti á landi með safnkennslu fyrir grunnskólabörnin, og sjálfar sýningarnar eru vitaskuld áfram á sínum stað. Svo er áhugi á að fá sýninguna á Teiknibókinni til annarra Norðurlanda. Bókin 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar kemur út á ensku og dönsku nú í vor, og svo kemur út sameiginlegt frímerki til heiðurs Árna samtímis í Danmörku og Íslandi á þessu ári. Og þannig mætti áfram telja.“

Ekki hægt að skoða þjóðargersemar
[Mynd 2]Það kom á óvart að á sjálfu afmælisárinu skyldi handritasýningunni í Þjóðmenningarhúsi lokað, og nú eru íslensku handritin því hvergi til sýnis í borginni. Er ný handritasýning fyrirhuguð?
„Nei, það er engin sérstök handritasýning í sjónmáli, því miður. Tilfinningarnar eru vissulega blendnar eftir þetta ævintýralega skemmtilega afmælisár. Sýningin í Þjóðmenningarhúsi var rúmlega tíu ára gömul, og því kominn tími á endurnýjun, en það bíður sýningarinnar í nýja húsinu. Og það verður erfið bið. Eiginlega er bókin um handritasafnið sem kom út á síðasta ári, 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, þar sem við lyftum upp jafnmörgum handritum úr safni Árni og árin sem hann lifði, langbesta sýningin sem völ er á á safninu þessi misserin!

Auðvitað er það vandræðalegt fyrir okkur, sumir myndu segja skammarlegt, að engin myndarleg handritasýning sé í borginni. Að sá fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands og hefur áhuga á að fræðast um menningu okkar og ekki síst bókmenntirnar, sem eru þekktar út um heim, hafi ekki möguleika á að skoða þessar þjóðargersemar okkar. Við gætum haft sýningu um Konungsbók eddukvæða eina og allt það sem henni tengist. En það er ekki nóg að tala um gildi handritanna á hátíðarstundu, við þurfum að setja fé í að hugsa um þau, hafa mannafla til að gera við þau og ljósmynda, rannsaka, gefa út efnið þeirra, og miðla bæði á netinu og á sýningum.

Myndin er fengin úr grein Morgunblaðsins 31. mars 2014. Menning bls. 26.

Mér finnst mjög mikilvægt að við gerum það upp fyrir okkur hvernig við viljum hlúa að bókmenntaarfinum og miðla honum til næstu kynslóðar. Við erum með mikil verðmæti í höndunum, en þau geta orðið að engu, ef við hirðum ekki um þau. Þetta ætti að vera spennandi úrlausnarefni. Við getum tekið Árna og Fjölnismenn til fyrirmyndar og ímyndað okkur ef þeir hefðu ekki haft þá framsýni að skilja gildi handritanna og endurskapa tunguna. Þeir voru skapandi í sinni vinnu.

Ég skynja að við séum á ákveðnum krossgötum nú um stundir. Og þá er ég ekki aðeins að tala um handritin, heldur önnur söfn okkar á stofnuninni, þjóðfræðina, örnefnin, og ekki síst tunguna sem allt okkar starf byggist í raun á. Handritin eru lifandi arfur í nútímanum, eins og ég var að benda á, vegna þess að við erum í beinu sambandi við þessa gömlu texta; vegna þess að íslenskan er enn sterk, vegna þess að bókmenntirnar koma okkur við í dag. Hér höfum við hlutverk gagnvart heiminum öllum; við eru miðlararnir.

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, setti Handritasafn Árna Magnússonar á sérstaka varðveisluskrá sína Minni heimsins árið 2009, og sú viðurkenning lagði þá ljúfu skyldu á herðar að miðla handritunum til umheimsins, og UNESCO leggur sérstaka áherslu á hina stafrænu miðlun. Og nú er Reykjavík orðin Bókmenntaborg UNESCO og handritasafnið hér í höfuðborginni skipti að sjálfsögðu máli í sambandi við þá ákvörðun. Enda er mikil óánægja hjá Reykjavíkurborg með þessa stöðu mála hjá okkur og áhugi á að koma til móts við stofnunina.“

Ekki bara steypa og gler
Fyrirhugað er að Hús íslenskra fræða rísi á Melunum. Grafinn var grunnur fyrir nýrri byggingu á síðasta vori, en framkvæmdum var þá frestað og ekki fulljóst hvenær þær hefjast að nýju. „Húsið hefur verið mjög lengi í bígerð. Þegar Síminn var seldur var milljarður settur til hliðar fyrir bygginguna og þá virtist björninn unninn,“ segir Guðrún. „Eftir að núverandi Árnastofnun varð til með sameiningu fimm stofnana á sviði íslenskra fræða, Árnastofnunar, Orðabókar Háskóla Íslands, Örnefnastofnunar, Íslenskrar málstöðvar og Stofnunar Sigurðar Nordals var svo ákveðið að efna til samkeppni um hönnun Hússins til þess að sameina starfsemina, ásamt íslenskunni í Háskólanum, á einn stað. Hönnun og undirbúningur byggingar hélt áfram eftir Hrun, og framkvæmdir hófust í byrjun síðasta árs.

Nú er þegar búið að verja 600 milljónum til framkvæmdarinnar úr ríkissjóði og frá Háskóla Íslands. Ég vona svo sannarlega að við getum haldið framkvæmdum áfram sem fyrst. Húsið er ekki bara steypa og gler, heldur forsenda þess að við getum nútímavætt allt okkar rannsóknar- og miðlunarstarf, og búið almennilega um handritin og önnur söfn okkar. Við verðum að stafvæða gögnin; tengja textana við máltæknilegu tólin. Stofnunin er dreifð um allan bæinn þannig að hagræðingin af sameiningunni hefur ekki komið fram og mun ekki koma fram fyrr en við förum í nýja húsið. Byggingin er því hagræðingarmál. Ef við ætlum að taka handritin og tunguna með okkur inn í framtíðina, inn í hinn tæknivædda heim, verðum við að hleypa þeim inn í nýtt rými. Gert er ráð fyrir nútímalegu sýningarrými í nýja húsinu og miklu betra aðgengi gesta að safninu en hægt er í dag. Þetta verður bylting í margskonar skilningi. Síðast en ekki síst getum við sameinað krafta okkar og kennara og stúdenta í íslensku við Háskóla Íslands, og þá skapast alveg ný tækifæri. Við höfum í þessu viðtali talað aðallega um handritin, en það er mikilvægt að árétta að þetta nýja hús á melunum verður sannkölluð aflstöð fyrir rannsóknir á íslenskri tungu, fyrir alþjóðlegt samstarf, fyrir máltæknina og miðlun menningararfsins í mjög víðum skilningi.“

Stofnunin hefur svo orðið að þola niðurskurð. „Auðvitað hefur niðurskurður síðustu ára komið mjög hart niður á stofnuninni eins og öðrum stofnunum ríkisins,“ segir Guðrún. „Stofnunin hefur verið skorin um fjórðung, og niðurskurðurinn hefur gengið nærri okkur því að ekki var neitt fitulag á stofnuninni eftir þá hagræðingarkröfu sem hafði verið á rekstrinum árin fyrir Hrun. Við erum nú orðin hættulega fá sem höldum utan um handritasafnið, og þau fjölmörgu merku söfn sem við berum ábyrgð á, þjóðfræði-, orðfræði- og örnefnasöfn. Við erum alltof fá sem sinnum rannsóknum á þessum arfi, íslensku máli, nýyrðasmíð og málfarsráðgjöf, og vinnum að þróun á þeirri máltækni sem nauðsynleg er til að íslenska lifi af á nýrri öld. Þetta er enginn hræðsluáróður, heldur bláköld staðreynd. Við megum engan tíma missa svo að íslenska missi ekki stöðu sína í hinni nýju tækni og tölvuvædda heimi.

Börnin okkar nota enskuna meðfram íslenskunni, og finnst það sjálfsagt. Við hljótum að gera þá kröfu að þau geti notað móðurmálið sitt alls staðar, í nýjum tækjum og tölvum, í tölvuleikjum og forritum sem notuð eru í kennslu, annars verður íslenskan gamaldags og úrelt. Í þessum nýja heimi á íslenskan augljóslega í vök að verjast, við þurfum ekki annað en líta á læsi krakkanna okkar, en það þarf ekki svo að vera. Það eru sjálfsögð mannréttindi og raunar öryggismál að geta notað móðurmálið alls staðar í samfélaginu.

Þess verður ekki langt að bíða að við tölum við heimilistækin til að stýra þeim og við róbóta í þjónustuverum, og þá er nauðsynlegt að íslenskan verði gjaldgeng. Íslensk málnefnd hefur margoft ályktað í þessa veru, og skýrslur sýna að við stöndum okkur mjög illa miðað við nágrannaþjóðir okkar í eflingu máltækninnar. Hér vantar fjárfestingu, sem mun skila sér margfalt til baka. Og þetta gerum við með skapandi verkefnum, með rannsóknum og miðlun, ekki með því að verja virkið. Við verðum einfaldlega að forgangsraða; við getum ekki gert allt, en við hljótum að setja í forgang að hugsa til framtíðar um einstakan menningararf okkar og íslenska tungu,“ segir Guðrún.