Skip to main content

Fréttir

Sporrekjandi handritasafnarar eru á ferðinni í Vesturheimi

Þrír doktorsnemar við Háskóla Íslands, þau Katelin Marit Parsons, Ryan Eric Johnson og Ólafur Arnar Sveinsson, koma að verkefni sem ber yfirskriftina Í fótspor Árna Magnússonar og hefur verið í gangi síðan árið 2015. Auk þeirra hafa á liðnu ári bæst í rannsóknarhópinn tveir doktorsnemar við háskólann í Madison-Wisconsin; þau Colin Connors og Lauren Poyer. Markmið verkefnisins er að skrá þau handrit og bækur sem innflytjendur frá Íslandi tóku með sér yfir hafið.

 

Kandahar Hall , Saskatchewan, maí 2017. Ljósmynd: Katelin Parsons.

 

Veturinn 2016-2017 var lögð áhersla á að taka saman og skrá vísbendingar um íslensk handrit í Vesturheimi úr varðveittum heimildum til þess að leita markvisst að þekktum menningarverðmætum. Árni Magnússon beitti þessari aðferð óspart í eigin leit að skinnhandritum miðalda og segja má að þessi aðferðafræði handritasafnarans sé enn í fullu gildi. Sum handritanna virðast glötuð með öllu en oft hefur gengið vonum framar að rekja slóð þeirra til nútímans.

 

Stafrænn gagnagrunnur

Í byrjun árs 2017 var tekinn í notkun nýr stafrænn gagnagrunnur fyrir verkefnið, hannaður og unninn af Ryan Johnson. Gagnagrunnurinn auðveldar rannsóknarhópnum að deila efni á milli sín áður en það verður sett á síðuna handrit.is. Gagnagrunnurinn verður einnig örugg framtíðargeymsla fyrir myndir af handritum og önnur gögn sem tengjast verkefninu, m.a. stafræn afrit af handritum sem þátttakendur hafa ekki fengið leyfi til að birta á opinberum vettvangi en mega ekki enda í glatkistunni.

 

Vinnuskúr í þorpinu Kandahar, Saskatchewan. Ljósmynd: Katelin Parsons.

 

Ferðir 2016-2017

Farið var til Þingvallabyggðar og Vatnabyggðar í Saskatchewan í júlí 2016. Markmiðið með að fara um hásumarið var að kanna sérstaklega litlu héraðssöfnin þar um slóðir. Vegna mikils óveðurs á þeim tíma og viðvörunar um hvirfilbylji á svæðinu þurfti að stytta ferðina lítillega en að öðru leyti gekk allt vel. Snúið var aftur til Saskatchewan í maí 2017 til að klára að mynda kirkjubækur og önnur handrit í eigu íslensku kirkjunnar í Wynyard. Í seinni ferðinni til Saskatchewan kom einn afkomandi íslenskra innflytjenda til rannsakenda með tvö rímnahandrit frá byrjun 19. aldar.

 

Ryan dvaldi um skeið í Winnipeg og notaði tækifærið til að skrá íslenskt efni þar í borginni, m.a. glæsilegt sagnahandrit eftir ungan skrifara í hópi vesturfaranna sem námu fyrst land við Kinmount í Ontario-fylki. Ryan fór einnig til Nýja-Íslands til að mynda og skrá gömul handrit á tveimur stöðum, þar af eitt sem hafði bjargast úr ruslinu. Ferð til Minnesóta féll niður með stuttum fyrirvara en var endurskipulögð í tengslum við Þjóðræknisþing Íslendinga í Vesturheimi í Grand Forks í maí 2017. Í þeirri ferð kannaði Ryan einnig Íslendingaslóðir víða í Norður-Dakóta.

 

Heimsókn til Seattle hafði lengi verið á döfinni en Ólafur Arnar lagði leið sína þangað í apríl 2017. Hann myndaði þar íslensk handrit í eigu opinberra safna og efni í einkaeigu, m.a. úr safni Willard Larsons. Will færði Árnastofnun listilega skreytt Njáluhandrit að gjöf þegar Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun, kom þangað í heimsókn haustið 2016.

 

Þátttakendur í verkefninu hafa nú heimsótt flestar Íslendingaslóðir í Norður-Ameríku. Eftir er þó vesturströnd Kanada og í júní 2017 verður loks farið til Victoria og Vancouver í tengslum við verkefnið.