Skip to main content

Fréttir

Sumarnámskeið og blönduð kennsla í íslensku sem erlendu máli á tímum COVID-19-faraldursins

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast skipulagningu sumarskóla í íslenskri tungu og menningu sem haldnir eru á hverju ári í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Annars vegar er um að ræða Nordkurs-námskeið fyrir nemendur frá Norðurlöndum sem haldið er í júní og hins vegar alþjóðlegan sumarskóla fyrir nemendur víðs vegar að úr heiminum sem haldinn er í júlí. Í ár voru þátttakendur í námskeiðunum tveimur samtals 63. Vegna COVID-19-faraldursins var brugðið á það ráð að halda námskeiðin í blönduðu formi, þ.e. bæði sem staðnám og fjarnám.

Nordkurs-námskeiðið hófst 8. júní. Þátttakendur í því voru 32, þar af 27 í staðnámi og fimm í fjarnámi en nemendurnir komu frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð. Nokkrir nemendanna sem tóku þátt höfðu áður setið Nordkurs-námskeið og voru þeir mjög hrifnir af þessu nýja fyrirkomulagi en hyggjast koma til landsins þegar tök eru á. Reynslan frá því í fyrra þegar COVID-19-faraldurinn skall á sýndi að hægt væri að bjóða upp á blandaða kennslu í stað- og fjarnámi. Þetta fyrirkomulag hentaði þeim sérstaklega vel sem ekki gátu ferðast til Íslands en vildu samt læra íslensku.

Í alþjóðlega sumarskólanum var 31 nemandi, þar af voru 23 nemendur í staðnámi og átta í fjarnámi. Þátttakendur voru frá 15 mismunandi löndum og var þeim skipt í tvo hópa eftir kunnáttu en allir höfðu þeir þegar lagt stund á íslensku heima fyrir, annaðhvort hjá íslenskukennurum eða með aðstoð vefnámskeiðsins Icelandic Onine.

Auk þess að nema íslensku gafst stúdentunum tækifæri á að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, sögu þess og menningu og um íslensk stjórnmál. Þeir sem voru í staðnámi gátu heimsótt menningarstofnanir og skoðað sig um á sögustöðum. 

Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um heim og þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn barst sviðinu fjöldi umsókna um þátttöku í báðum sumarnámskeiðunum en ekki komust allir að vegna fjöldatakmarkana í kennslustofum Háskóla Íslands.