Skip to main content

Fréttir

Málþing til heiðurs Arnheiði Sigurðardóttur

Í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Arnheiðar Sigurðardóttur var haldið málþing henni til heiðurs 16. október síðastliðinn. Að málþinginu stóðu Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Þýðingasetur Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Vesturíslenska ritið Leifur afhent Árnastofnun

Í tilefni aldarafmælis Óskars Halldórssonar bókmenntafræðings afhentu afkomendur hans Árnastofnun heildarútgáfu vesturíslenska blaðsins Leifs, í fallegu bandi, stofnuninni til eignar og varðveislu. Það var sonarsonur Óskars og nafni, Óskar Völundarson, sem afhenti ritið en Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor tók við því fyrir hönd stofnunarinnar.

Viðurkenningar á sviði málræktar

Árlega veitir Íslensk málnefnd viðurkenningar fyrir eitthvað sem vel er gert á svið málræktar eða líklegt er til að efla íslenska tungu.

Á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar sem haldið var 30. september og bar yfirskriftina Íslenskukennsla á 21. öld fengu eftirtaldir aðilar viðurkenningu:

Fundur íslenskukennara erlendis haldinn í Norræna húsinu 2021

Árlegur fundur íslenskukennara við háskóla erlendis var haldinn 20.–21. júlí í Norræna húsinu í Reykjavík. Rætt var m.a. um hvernig tekist hefur til við að kenna íslensku á tímum COVID-19-faraldursins. Einnig var rætt um framhald íslenskukennslu í háskólum erlendis og ársskýrsla 2020−2021 var kynnt.

Nýir styrkþegar í íslensku sem öðru máli

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsýslu með styrkjum mennta- og menningarmálaráðuneytis til erlendra stúdenta til íslenskunáms við Háskóla Íslands.

Stofnuninni bárust alls 30 umsóknir um styrkina fyrir skólaárið 2021–2022 og voru veittir 14 styrkir til nemenda frá 11 löndum.

Nemendurnir hafa allir lagt stund á íslensku með einum eða öðrum hætti. Sumir hafa lært íslensku við háskólastofnanir sem íslenska ríkið styður við erlendis en aðrir hafa stundað sjálfsnám á vefsvæðinu Icelandic Online.

Sumarnámskeið og blönduð kennsla í íslensku sem erlendu máli á tímum COVID-19-faraldursins

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast skipulagningu sumarskóla í íslenskri tungu og menningu sem haldnir eru á hverju ári í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Annars vegar er um að ræða Nordkurs-námskeið fyrir nemendur frá Norðurlöndum sem haldið er í júní og hins vegar alþjóðlegan sumarskóla fyrir nemendur víðs vegar að úr heiminum sem haldinn er í júlí. Í ár voru þátttakendur í námskeiðunum tveimur samtals 63. Vegna COVID-19-faraldursins var brugðið á það ráð að halda námskeiðin í blönduðu formi, þ.e. bæði sem staðnám og fjarnám.

Hvar er? er landsátak í tilefni af degi íslenskrar náttúru

Landmælingar Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hrinda af stað landsátaki um afmörkun og skráningu örnefna undir heitinu Hvar er? í tilefni af degi íslenskrar náttúru.

Landsátakið mun hefjast í félagsheimilinu Lyngbrekku í Borgarbyggð 15. september nk. kl. 17.30 þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun skrá örnefni í sinni heimabyggð, Brúarlandi.

Markmið átaksins er að staðsetja sem flest örnefni úr örnefnaskrám sem nýlega voru gerðar aðgengilegar á vefnum nafnið.is og fjölga skráningaraðilum örnefna í landinu.

Sigurðar Nordals fyrirlestur

Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Að þessu sinni mun Dagný Kristjánsdóttir prófessor emeritus flytja fyrirlestur í tilefni dagsins.

Nýr starfsmaður hjá Árnastofnun

Sólmundur Már Jónsson hóf störf í vikunni sem verkefnisstjóri flutninga og breytinga Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Flutt verður í Hús íslenskunnar árið 2023 en að mörgu er að hyggja við flutning starfsfólks, handrita, bókasafns, gagna og búnaðar. Með nýju húsnæði mun öll aðstaða til rannsókna, sýningarhalds og miðlunar batna stórkostlega. Jafnframt mun starfsemi stofnunarinnar sameinast á einn stað sem býður upp á mikil tækifæri en hún hefur verið í Árnagarði, á Laugavegi og Þingholtsstræti.

Gjöf frá Minnesota

Ann McKinley frá Minnesota heimsótti Árnastofnun í dag og færði stofnuninni að gjöf rímnahandrit fyrir hönd Greg Gudbjartsson bróður síns. Skrifari handritsins var afi þeirra Dagbjartur Guðbjartsson (1889–1970) sem bjó í Akra í Norður-Dakóta. Dagbjartur fór til Vesturheims árið 1911 frá Breiðuvík í Rauðasandshreppi og dvaldi fyrst í Winnipeg þar sem móðurbróðir hans, Nikulás Össurarson, bjó.