Skip to main content

Fréttir

Bókmennta- og heilsuátakið Laxness119: Glæsileg menningardagskrá sem lokahnykkur

Íslenskunemendur og -kennarar um allan heim tóku nýlega þátt í bókmennta- og heilsuátakinu Laxness119. Milli dánardags (8. febrúar) og fæðingardags (23. apríl) skáldsins Halldórs Laxness áttu þátttakendur að velja sér það form hreyfingar sem þeim þætti hentugast. Hlaupa mátti, hjóla eða ganga 119 km en einnig var hægt að synda 119 m og skauta eða gera 119 æfingar af einhverju tagi (á viku eða degi hverjum). Hugmyndin var sú að talan 119 kæmi fram í persónulegu markmiði hvers og eins en á þessu ári eru 119 ár liðin frá fæðingu Halldórs Kiljans Laxness.

Ellert Þór Jóhannsson tekur til starfa

Ellert Þór Jóhannsson hóf störf sem rannsóknarlektor á orðfræðisviði stofnunarinnar 6. apríl 2021. Viðfangsefni rannsókna hans eru einkum á sviði orðabókarfræða með áherslu á íslenska málsögu, sögu íslensks orðaforða og sögulega beygingar- og orðmyndunarfræði. 

Notendakönnun vegna nýrrar sýningar Árnastofnunar í Húsi íslenskunnar

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum býður fólki að taka þátt í könnun vegna nýrrar sýningar sem verður opnuð í Húsi íslenskunnar í Reykjavík árið 2023.

Í könnuninni er hægt að kynnast þeim sögum sem kemur til greina að segja á sýningunni og gefst fólki kostur á að láta í ljós skoðun sína og hafa áhrif á það hvaða saga verður fyrir valinu.

Þrymskviðuverkefni í Myndlistaskólanum í Reykjavík

Að undanförnu hafa fræðimennirnir Annette Lassen og Gísli Sigurðsson heimsótt nemendur og kennara í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Tilgangur heimsóknanna hefur verið að segja frá efni Þrymskviðu sem varðveitt er í Konungsbók eddukvæða.

Skilafrestur í handritasamkeppnina er til 28. mars

Í tilefni þess að 50 ár eru síðan fyrstu handritin komu heim frá Danmörku heldur Árnastofnun handritasamkeppni fyrir grunnskólabörn.

Hluti handritsins þarf að vera gerður í höndunum, til dæmis handskrifaður texti, myndskreyttur, saumaður, smíðaður eða annað í þeim dúr.

Skilafrestur er til 28. mars.

Sýningarstjóri óskast

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auglýsir eftir sýningarstjóra til þess að stýra mótun og uppsetningu nýrrar sýningar í Húsi íslenskunnar sem áætlað er að verði opnuð haustið 2023. 

Verkefnisstjóri flutninga og breytinga óskast – Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum flytur í Hús íslenskunnar

Stofnun Árna Magnússonar flytur í Hús íslenskunnar haustið 2023. Fram undan er spennandi breytingaferli sem felst í að vinna með starfsfólki stofnunarinnar að því að móta nýjan vinnustað. Leitað er að öflugum einstaklingi til að hafa umsjón með flutningum stofnunarinnar og sem hefur mikinn áhuga á og reynslu af verkefna- og breytingastjórnun, gæðamálum og umbótamenningu. Verkefnisstjóri heyrir beint undir forstöðumann.

Um er að ræða tímabundið starf til þriggja ára. 

Snorrastyrkþegar 2021

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Úthlutun rannsóknastyrkja Rannís 2021

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið við úthlutun styrkja til nýrra rannsóknarverkefna fyrir árið 2021, stærstu úthlutun sjóðsins frá upphafi. Alls bárust 402 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð og voru 82 þeirra styrktar eða rúmlega 20% umsókna og þar af eru fjórir verkefnisstyrkir á sviði hugvísinda og lista. Helmingur þeirra tengist verksviði Árnastofnunar.

Sóttkví er orð ársins 2020

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Steinþór Steingrímsson, verkefnisstjóri hjá sömu stofnun, skrifuðu um val á orði ársins 2020 á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Lesa hér.

Einnig var rætt við Ágústu í Menningunni á RÚV og má sjá viðtalið hér.