Skip to main content

Jafnréttisáætlun Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2020–2023

Inngangur

Í jafnréttisáætlun Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) er lögð áhersla á jafnræði og jafnrétti og að kynjajafnrétti sé sýnilegt í allri starfsemi stofnunarinnar. Mikilvægt er að starfsfólk virði áætlunina og vinni í anda hennar.

Jafnréttisáætlun Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum byggist á ákvæðum í stjórnarskrá Íslands, lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði ásamt ýmsum alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að. Gert er ráð fyrir að stofnunin geri eigin jafnréttisáætlun til þriggja ára í senn. Áætlunina skal kynna á starfsmannafundi og fyrir nýjum starfsmönnum.

Jafnréttisáætlun SÁM tekur einkum til kynjajafnréttis en um aðrar tegundir jafnréttis vísast til Stefnu Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra (2002) og Stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun (2005).

Jafnréttisnefnd SÁM fer með umsjón jafnréttismála á stofnuninni í umboði starfsmanna. Hún mótar og gerir tillögur um jafnréttisáætlun, endurskoðar hana og fylgist með framgangi hennar. Forstöðumaður og fjármálastjóri bera ábyrgð á að henni sé framfylgt.

Meðal hlutverka jafnréttisnefndar er:
– úttekt á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs meðal starfsmanna.
– að ráðningarferli í heild verði skoðuð með aðferðum samþættingar – allt frá mótun starfsauglýsingar til lokaákvörðunar um ráðningu.
– úttekt á skiptingu umsókna og úthlutunum úr sjóðum eftir kynjum.
– að sjá til þess að kynbundið ofbeldi og kynbundin eða kynferðisleg áreitni sé ekki liðin á stofnuninni. 

Jafnréttisáætlun SÁM tekur til eftirfarandi meginþátta. Einstakar framkvæmdir eru tilgreindar undir viðeigandi lið:

I. Laun og kjör
II. Stöðuveitingar og störf
III. Aðild kynjanna að nefndum, stjórnum og ráðum á vegum stofnunarinnar
IV. Jöfn aðstaða og möguleikar mismunandi kynja til starfsþróunar og símenntunar
V. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð
VI. Samræming fjölskyldulífs og vinnu
VII. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.

I. Laun og kjör

Markmið:
Stjórnendur við SÁM skulu tryggja að mismunandi kyn fái sömu laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og að kynjajafnréttis sé gætt við úthlutun hvers konar þóknunar og hlunninda. Hæfnis- og árangurslaun og aðrar ákvarðanir sem hafa áhrif á kaup og kjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum óháð kyni. Mikilvægt er að tryggja launajafnrétti kynjanna, og að safnað sé saman upplýsingum um stöðu mála á því sviði. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu vera greidd jöfn laun og starfsmenn njóta sömu kjara fyrir sambærileg störf. 

Aðgerðir:
1.    Tryggja skal að kyngreindar upplýsingar um stöðu og kjör starfsmanna liggi fyrir í mars ár hvert.
Tímarammi: Mars á hverju ári.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.
2.    Framkvæmd verði jafnlaunavottun á SÁM.
Tímarammi: Lokið í desember 2021.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.

II. Stöðuveitingar og störf

Markmið: 
Stjórnendur SÁM skulu gæta þess að auglýst störf séu ókyngreind og höfði til allra kynja (sbr. lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði og nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði). Gæta skal þess að starf, sem er auglýst til umsóknar, skuli standa opið mismunandi kynjum. Í auglýsingum á vegum SÁM skal gæta jafnræðis og jafnrar virðingar kynjanna, (sbr. 26. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla). Sé starf auglýst þar sem hallar á þetta skal vekja athygli á því markmiði að jafna hlutfall kynjanna á viðkomandi starfsvettvangi. Samkvæmt 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna er heimilt að auglýsa sérstaklega eftir því kyni sem hallar á og skal það þá koma fram í auglýsingunni.

Aðgerð:
1.    Stofnunin skal setja sér markmið um að jafna kynjaskiptingu innan starfs- og fræðasviða þar sem hún er ójöfn. Séu tveir eða fleiri umsækjendur um starf jafnhæfir verði valinn umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta á umræddu starfs- eða fræðasviði, sbr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður og sviðstjórar SÁM.

III. Aðild kynjanna að nefndum, stjórnum og ráðum á vegum stofnunarinnar

Markmið:
Mikilvægt er að allir hafi sömu tækifæri til þátttöku við stjórnun og stefnumótun á stofnuninni. Það nýmæli varð við setningu laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að við tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera er nú skylt að tilnefna bæði konu og karl. Við skipan skal þess gætt að hlutfall hvors kyns sé ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Aðgerðir:
1.    Tryggja skal að kynjum sé ekki mismunað við úthlutun styrkja úr sjóðum þeim sem stofnunin hefur yfir að ráða, við úthlutun verkefna svo og við ákvarðanir á starfsaðstæðum. Jafnréttisnefnd skal vinna úttekt á skiptingu umsókna og úthlutunum úr sjóðum eftir kynjum á gildistíma jafnréttisáætlunarinnar.
Tímarammi: Alltaf. Úttekt lokið í maí 2023.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri og jafnréttisnefnd SÁM.
2.    Við skipan í nefndir, stjórnir, ráð, starfshópa og hvers kyns vinnuhópa á vegum SÁM skal hlutfall kynja vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi nefndir, ráð og stjórnir skal tilnefna bæði karl og konu, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.
3.    Skipa skal fulltrúa af mismunandi kynjum í dómnefndir og valnefndir vegna ráðninga og framgangs, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008, einnig þegar allir umsækjendur um tiltekið starf eru af sama kyni.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.
4.    Safna gögnum um tilnefningar og kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum.
Tímarammi: Í mars ár hvert.
Ábyrgðaraðili: Jafnréttisnefnd.

IV. Jöfn aðstaða og möguleikar mismunandi kynja til starfsþróunar og símenntunar

Markmið:
Að allir hafi sömu tækifæri til starfsþróunar og símenntunar. SÁM er það kappsmál að veita öllum starfsmönnum, óháð kyni, trausta og góða starfsþjálfun, viðhalda henni og auka með endur- og símenntun. Mikilvægt er að öllum starfsmönnum sé gefinn kostur á að sækja ráðstefnur og fara í kynnisferðir og rækja þannig samstarf við innlend og erlend starfssystkin eftir því sem kostur er.

Aðgerð:
1.    Safna saman gögnum yfir aðsókn í endur- og símenntun.
Tímarammi: Yfirlit yfir aðsókn í endur- og símenntun skal liggja fyrir í mars ár hvert.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.

V. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð

Markmið:
Í samþættingu felst endurskoðun á ríkjandi viðhorfum og starfsaðferðum þar sem þær eiga sinn þátt í að skapa og viðhalda kynbundnum vanda eða mismunun. Í 2. gr. laga nr. 10/2008 er kynjasamþætting skilgreind svo: „Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn jafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“ Markmiðið er að flétta sjónarhorn kynferðis inn í alla stefnumótun og gera öllum kleift að samþætta fjölskyldulíf sitt og starf, skv. 21. gr. jafnréttislaganna. Fræðsla um jafnréttismál til handa stjórnendum er grunnforsenda þess að samþætting verði árangursrík.

Aðgerð:
1.    Við gagnaöflun og annan undirbúning ákvarðana, sem áhrif hafa á stöðu kynjanna, skal taka mið af þörfum og viðhorfum mismunandi kynja og greina afleiðingar þeirra með tilliti til jafnréttis.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.

VI. Samræming fjölskyldulífs og vinnu

Markmið:
SÁM vill eftir megni taka tillit til óska starfsmanna um vinnutíma og starfshlutfall og skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma kröfur starfs og einkalífs eins og kostur er.

Aðgerðir:
1.    Stofnunin hvetur foreldra sérstaklega til að nýta sér möguleika sína til að samræma starfs- og fjölskylduábyrgð, m.a. með að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma og vinnuhlutfall. Starfsmönnum skal gefinn kostur á tímabundinni lækkun á starfshlutfalli og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem unnt er og án þess að það hafi áhrif á starfsframa þeirra. Starfsmönnum sé kynntur þessi sveigjanleiki.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.
2.    SÁM leitast við að mæta þörfum fjölskyldufólks og hvetur alla starfsmenn til að nýta sér fæðingarorlof. Eins eru foreldrar hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna sinna. Einnig leitast stofnunin við að mæta þörfum starfsmanna sem þurfa að vera frá vegna annarra fjölskylduástæðna svo sem veikinda eða andláts nákominna ættingja.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.

VII. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Markmið:
SÁM vill stuðla að góðum starfsanda þar sem ríkir traust, trúnaður og jafnræði milli allra starfsmanna. Lögð er áhersla á að gagnkvæm virðing milli mismunandi kynja ríki á meðal starfsmanna. Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og hvorki kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni né kynferðisleg áreitni er liðin við stofnunina.

Aðgerðir:
1.    Verði starfsmenn uppvísir að ósæmilegri framkomu í garð samstarfsmanna sinna, s.s. kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða einelti, teljast þeir brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Fylgja skal eftir vinnureglum sem SÁM hefur mótað til að taka á slíkum málum (sjá nánar í starfsmannastefnu stofnunarinnar). Gæta skal að þolandi beri engan skaða af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni.
Tímarammi: Alltaf.
Ábyrgðaraðili: Forstöðumaður, fjármálastjóri.
2.    Starfsfólk sé hvatt af jafnréttisnefnd til að kynna sér ákvæði 22. gr. jafnréttislaga. Nefndin hyggst vekja athygli á þessu árlega í tölvupósti til starfsmanna.
Tímarammi: Í mars ár hvert.
Ábyrgðaraðili: Jafnréttisnefnd SÁM.

Jafnréttisáætlun Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var endurskoðuð í október 2020 og gildir í þrjú ár. Næsta endurskoðun fer fram í október 2023.