Skip to main content

Stefna

Formáli

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varð til 1. september 2006 með sameiningu fimm stofnana á sviði íslenskra fræða: Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabókar Háskólans, Íslenskrar málstöðvar, Örnefnastofnunar Íslands og Stofnunar Sigurðar Nordals.

Sameiningunni var ætlað að styrkja faglega starfsemi einstakra stofnana, efla samstarf og rannsóknir í íslenskum fræðum og stuðla að rekstrarhagræðingu. Þó er ljóst að samlegðaráhrif eru lítil á meðan starfsemin er enn á þremur stöðum og erfitt að samnýta mannafla, þjónustu, þekkingu o.fl. Ekki er hægt að ná fram hagræðingu í rekstri fyrr en að starfsemin sameinast í Hús íslenskra fræða. Lengi hefur verið beðið eftir tryggari geymslu fyrir handritin og verður sá vandi ekki leystur fyrr en nýtt hús er risið. Þar verður loksins hægt að sýna handritin í sérbúnum sýningarrýmum og í lifandi tengslum við starfsemi stofnunarinnar.

Stofnunin geymir mikilvæg söfn um íslenska menningu og menningararfleifð, þar sem handritasafnið ber hæst en önnur merk söfn varða íslenskt mál og orðaforða, örnefni og þjóðfræði. Stofnunin hefur skyldum að gegna sem alþjóðleg miðstöð á sviði íslenskra fræða og miðlunar íslenskrar menningar.

Vinna við gerð stefnumótandi áætlunar stofnunarinnar 2016–2018 hófst á haustmánuðum 2014. Leitast var við að kalla fram sjónarmið starfsmanna og stjórnar í því skyni að móta og skilgreina gildi, hlutverk, framtíðarsýn og almennan ramma um verkefni stofnunarinnar. Vinnan hefur tekið mið af lögum og reglugerðum um stofnunina, íslenskri málstefnu og menningarstefnu stjórnvalda, stefnu Vísinda- og tækniráðs og þeirri greiningu og stefnumótun sem fram hefur farið innan stofnunarinnar á undanförnum árum.

Stefnumótandi áætlun 2016–2018 leysir af hólmi fyrri áætlun sem náði til ársins 2013. Við gerð nýrrar áætlunar var leitast við að móta framtíðarsýn í íslenskum fræðum til ársins 2018 og lögð fram aðgerðaáætlun með leiðum til að nálgast þau markmið sem þar er lýst. Ný stefnumótandi áætlun stofnunarinnar gerir ráð fyrir að öll starfsemi stofnunarinnar verði í sameiginlegu húsnæði árið 2018.

Áætlunin tekur til allrar starfsemi stofnunarinnar, bæði skylduverkefna og þess sem almennt lýtur að markmiðum og framtíðarsýn.