Skip to main content
Starfsfólk
Til baka

Júlíana Þóra Magnúsdóttir

Þjóðfræðisvið
doktorsnemi
Árnagarður

Heiti doktorsverkefnis: Þáttur kyns í mótun og söfnun sagna- og þjóðtrúarhefða

Doktorsrannsóknin beinist að sagnamenningu íslenskra kvenna á 19. og 20. öld og ýmsum kynbundnum þáttum sagna- og þjóðtrúarhefðar. Til þessa hafa rannsóknir á íslensku sagnafólki einkum beinst að flytjendum ævintýra og miðar þessi rannsókn því öðru fremur að því að auka þekkingu okkar á sögumönnum sagna og hlutverki kyns, umhverfis og reynsluheims í mótun og miðlun þeirra. Við rannsóknina eru notuð viðtöl tveggja þjóðfræðasafnara eða söfnunarteyma segulbandasafns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, annarsvegar hjónanna Helgu Jóhannsdóttur og Jóns Samsonarsonar og hins vegar Hallfreðar Arnar Eiríkssonar. Þessir þjóðfræðasafnarar söfnuðu efni á seinni hluta 20. aldar frá heimildamönnum fæddum á síðustu áratugum 19. aldar og í byrjun 20. aldar og má því segja að rannsóknin beinist að síðustu kynslóð hins hefðbundna íslenska bændasamfélags. Rannsóknin nær til þeirra, á fjórða hundrað heimildakvenna þessara safnara, sem miðla sagnaefni í viðtölunum auk 100 karlkyns heimildamanna þeirra, sem notaðir eru sem samanburðarhópur í hluta rannsóknarinnar. Hún beinist að nokkrum ólíkum þáttum sagnahefðarinnar, meðal annars áhrifum kyns á söfnun og varðveislu sagnahefðar; kynbundnum mun á notkun frásagnaháttar og tegundum sagna; og tengslum reynsluheims og athafnasviðs við sagnasköpun og vettvang sagnaskemmtana. Felst aðferðafræði rannsóknarinnar að miklu leyti í kortlagningu helstu þátta í sagnasjóðum sagnafólksins og athugunum á ólíkri tíðni þeirra meðal kvenna og karla.

Leiðbeinandi er Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við félagsvísindasvið Háskóla Íslands.