Skip to main content

Um sögurnar

Eftir Gísla Sigurðsson

„Mér vantar að mæta þér og lifa með þér fyrir nokkra daga”

Sú mynd sem við höfum af Vestur-Íslendingum er mótuð af þeim hópferðalöngum frá Kanada sem flæða yfir landið úr leiguflugvélum á sumrin og hringja í ættingja og vini til að beiðast húsaskjóls. Sú saga er til að eitt slíkt símtal hafi byrjað á orðunum: „Mér vantar að mæta þér og lifa með þér fyrir nokkra daga.” Þessi saga er lýsandi fyrir þau viðhorf sem hér ríkja í garð frænda okkar í vestri: þeir eru ágengir og tala enskuskotna málleysu undir íslenskri yfirborðsmynd. Það er rannsóknarefni hvernig viðhorf okkar til þessa þjóðarbrots hefur afbakast því að Vestur-Íslendingar á heimaslóð í Kanada og Bandaríkjunum eru allt öðru vísi en þessi vitlausa túristamynd gefur tilefni til að ætla. Þeir eru miklir höfðingjar og tala margir ágæta vesturíslensku sem kalla má sérstaka mállýsku. Á þessu máli segja þeir sögur og rifja upp minningar frá fyrri tíð þó að dagleg notkun þess við störf og dægurumræðu fari nú þverrandi.

Söfnun í Vesturheimi

Umfangsmikil söfnun á munnlegum fræðum vestra fór fram veturinn 1972-73 þegar hjónin Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir fóru með upptökutæki um byggðir Vestur-Íslendinga í Manitóba, Bresku Kolombíu og Norður Dakóta og hljóðrituðu frásagnir og kvæði. Söfnunin var styrkt úr sjóði Páls Guðmundssonar við Manitóbaháskóla og naut milligöngu Haralds Bessasonar, þáverandi prófessors við íslenskudeild skólans og síðar rektors Háskólans á Akureyri.
Prentaður fróðleikur um Vestur-Íslendinga
Þetta var vitaskuld ekki í fyrsta eða síðasta sinn sem sögum og fróðleik var safnað meðal Vestur-Íslendinga. Mikið af slíku efni er til á böndum og enn meira hefur birst á prenti. Blöð og tímarit vestra, einkum Lögberg, Heimskringla og Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar, hafa löngum verið drjúg að birta frásagnir og endurminningar fólks og var slíku efni safnað í ritröðina Að vestan sem Árni Bjarnarson á Akureyri gaf út í fimm bindum1949-1983. Ýmislegt er og að finna í tveggja binda verki Þorsteins Matthíassonar, Íslendingar í vesturheimi (1975-1977), en Þorsteinn safnaði miklu efni sjálfur á segulbönd og eru þær upptökur til í Stofnun Árna Magnússonar. Landnámssaga Vestur-Íslendinga, Saga Íslendinga í Vesturheimi, er drjúg heimild og alls kyns frásagnir og þjóðlegur fróðleikur eru þar innan um og saman við. Hún kom út í fimm bindum 1940-1953, fyrstu þrjú bindin að mestu eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson en hinum var ritstýrt af Tryggva J. Olesen. Þá hefur Wilhelm Kristjánsson safnað miklu efni í The Icelandic People in Manitoba 1965 og Elva Sæmundsson hefur tekið saman litla bók á ensku með helstu landnámsmýtum í Nýja-Íslandi. Í Árborg er nú starfandi héraðssagn- og ættfræðingur, Nelson Gerard, sem skrifar bækur á ensku um Vestur-Íslendinga í Nýja-Íslandi og safnar upplýsingum um þá.

Skáld og rithöfundar vestra

Skáld og rithöfundar hafa og unnið með efni af þessum slóðum. Hér á landi eru auðvitað þekktastir Stephan G. Stephansson, Jóhann Magnús Bjarnason og Guttormur Guttormsson en fyrr á öldinni náði Lára Goodman Salversson mjög langt í Kanada með sögunum The Viking Heart og Confessions of an Immigrant's Daughter og á síðari árum hafa rithöfundarnir Bill Valgardsson, David Árnason og Kristjana Gunnars skrifað á ensku um Vestur-Íslendinga, reynslu þeirra og sjálfsmynd. Og ekki má gleyma kvikmyndinni Tales from the Gimli Hospital sem var sýnd hér á kvikmyndahátíð og olli nokkurri hneykslan vestra.

Prentað þjóðræðasafn Magnúsar Einarssonar

Það er því enginn skortur á sagnfræðilegum staðreyndum um íslenskt mannlíf vestanhafs eða skáldlegri úrvinnslu á því sama mannlífi. Af þjóðfræðaefni sem safnað hefur verið á segulbönd má nefna það sem Magnús Einarsson Mullarky, þjóðfræðingur í Ottawa, safnaði hjá 112 heimildarmönnum sumurin 1966 og '67 og skrifaði um það litla grein í Tímarit þjóðræknisfélags Íslendinga 1968-1969, "The folklore of New Iceland", þar sem hann gerir grein fyrir sögunum og lýsir því að verið sé að vinna við skráningu og þýðingu efnisins á þjóðfræðadeild þjóðminjasafnsins í Ottawa. Hann hefur nú gefið út þrjú bindi hjá Canadian Museum of Civilization með uppskriftum og enskum þýðingum á þessu safni, bæði sögum og kvæðum (Icelandic-Canadian Oral Narratives 1991, Icelandic-Canadian Memory Lore 1992 og Icelandic-Canadian Popular Verse 1994). Árni Björnsson hefur ferðast um byggðir Vestur-Íslendinga og safnað efni og sjálfur tók ég tuttugu viðtöl í Winnipeg og Nýja-Íslandi sumarið 1982, og snerust þau aðallega um að safna orðaforða um dagleg störf í nýju landi og er flokkaðir tökuorðalistar úr þessum viðtölum aðgengilegir til rannsókna ásamt vélrituðum uppskriftum alls textans.

Sérstaða safns Hallfreðar og Olgu

Safn Hallfreðar og Olgu er því ekki að öllu leyti algjörlega einstakt með fróðleik sem hvergi er annars staðar að finna. En það er samt öðru vísi en allt það sem prentað hefur verið. Munurinn liggur í því að spyrlarnir eru fyrst og fremst að leita eftir sögum og viðhorfum fólks sem fær að tala beint og milliliðalaust án þess að nútímaíslendingur endursegi það sem honum finnst merkilegt við að finna náfrændur sína vestur á Sléttunni miklu. Það er ekki verið að lýsa flutningunum vestur eða aðstæðum á Íslandi sem hröktu fólk úr landi, í eins konar afsökunarskyni, heldur talar fólk sem rekur upphaf sitt til Nýja-Íslands þar sem það segist eiga ákaflega djúpar rætur eins og Eðvarð Gíslason, einn heimildarmannanna, kemst að orði.

Nýtt líf í nýju landi

Þessi afstaða tengist því hvernig goðsögur um landnám hafa skapast í Vesturheimi til að helga landið þar og marka Vestur-Íslendingum upphaf í Nýja heiminum. Líkt og við Íslendingar kærum okkur ekki um að vera álitnir norskir útflytjendur þá vilja Vestur-Íslendingar ekki líta á sig sem íslenska útflytjendur sem gerir þá að annars flokks borgurum í því landi sem þeir flytja úr. Þeir leggja áherslu á upphaf sitt í nýja landinu og skilgreina sig útfrá því. Þetta sjónarhorn hefur mjög þvælst fyrir Íslendingum hér á landi sem sitja fastir í því viðhorfi að mannlíf vestra sé angi af íslensku mannlífi. Sem slíkt er það auðvitað mjög afbakað. Þess vegna leggja menn nú áherslu á nýja og öðruvísi menningu og sameiginlega arfleifð Vestur-Íslendinga í þjóðahafinu vestra, þannig að samanburðurinn við Ísland skiptir minna máli. Í þessari heimsmynd er Ísland á goðsöguplaninu sem menn sjá í hillingum fortíðar. Það er ekki með í raunveruleikanum nema eins og hvert annað nútímaþjóðfélag.

Einstæð heimild um horfið mannlíf

Sögurnar og vísurnar sem Hallfreður og Olga tóku upp á segulbönd eru eðlilega mjög mismunandi að gæðum. Samanlagt birtist þó í þeim heilsteypt mynd af mannlífi og hugsunarhætti Vestur-Íslendinga, tæpum hundrað árum eftir landnám í Nýja-Íslandi. Sögurnar eru heimild um trúarbrögð, þjóðhætti og viðhorf manna til fortíðar og nútíðar og jafnframt eru þær til vitnis um hvað fólk í þessari byggð telur markverðast í lífi sínu og sinna og helst þess virði að segja langtaðkomnum gesti frá Íslandi. Það eykur einnig gildi safnsins að sú menning Vestur-Íslendinga sem fólkið lýsir er nú óðum að hverfa og færast yfir á enskuna. Margir heimildarmannanna eru dánir og með þeim er íslenskan smám saman að deyja út í Vesturheimi.

Fjölbreytt mannlífslýsing

Yfirleitt lýsa sögurnar mannlífi í Nýja-Íslandi og við strendur Winnipegvatns, sagt er frá landnámsárunum, hrakningum við fiskveiðar á Vatninu sumar og vetur, villuferðum í skóginum, elgveiðum, draumum, dulrænum fyrirburðum og lausavísum sem menn settu saman vestra jafnt sem hér á landi. Þá er fyrirferðarmikill flokkur með frásögnum af orðheppnum eða einkennilegum mönnum, stórlygurum, kraftakörlum og afbragðsskyttum og ýmsar sögur greina frá tungumálabasli fyrstu landnemanna sem kunnu oft litla ensku og blönduðu íslensku og ensku mikið saman.

Vesturíslensk mállýskueinkenni

Málfar fólksins er sérlega áhugavert með tilliti til vesturíslenskra mállýskueinkenna og enskuáhrifa og merkilegt fyrir þá sök að Vestur-Íslendingar hafa að jafnaði ekki notið neinnar skólamenntunar á íslensku. Þeir lesa lítið og skrifa á málinu og því má segja að þeir tali móðurmálið lítið mengað af menntun, ritlist og málpólitík opinberra aðila. Sem dæmi má nefna að þeir eru langflestir flámæltir og þágufallshneigðir - sem er umhugsunarvert fyrir þá sveitamenn hér í borginni sem segjast aldrei hafa heyrt "þágufallssýkina" fyrr en eftir að þeir fluttust til Reykjavíkur.

Lítil miðstýring vestra

Þetta menntunarleysi og skortur á miðstýringu tungumálsins gæti valdið því að menn tala alltaf á sama planinu, hafa ekki eitt opinbert tungutak handa fjölmiðlum, annað í vinnu og hið þriðja heima við. Sumir vita þó af því að þeir nota ensk tökuorð helst til mikið og reyna að hreinsa þau úr máli sínu ef þeir hitta Íslendinga frá Íslandi. En sá maður er ekki til sem hefur kynnt sér íslenska setningafræði og áttar sig á enskum áhrifum á því sviði, hvað þá að fólk hafi minnstu hugmynd um þágufallshenigð sína eða flámæli. Það veit enginn hvað það er. Þess vegna þykir mér ósennileg sú frásögn Birnu Arnbjörnsdóttur sem skrifar um flámæli í vesturíslensku, "að margir flámæltir 'leiðrétti' flámælið í formlegu máli. Oft var það svo að þegar slökkt var á segulbandinu og menn fengu sér kaffi eða kvöddu brá svo við að málhafar urðu snögglega flámæltir." (Íslenskt mál 9, 1987, bls. 28) Sjálfur hef ég aldrei orðið var við að Vesturíslendingar ráði við mismunandi málhorf til að leiðrétta sig með þessum hætti en skýringin á reynslu Birnu gæti legið í því að sum föst orð og orðasambönd sem fólk grípur til á kveðjustundum hafa orðið flámælinu að bráð þannig að fólk sem ekki er flámælt að öðru leyti getur hafa lært einstök orð með flámæltum framburði - því að það er engin málstofnun til að benda á "vitleysurnar". Fólk lærir sjaldnast að lesa á íslensku og hlýtur alla formlega menntun á enskunni. Vesturíslenskan er því miklu munnlegra tungumál, ef svo má að orði komast, en það mál sem við tölum.

Samanburður við landnámsöld á Íslandi

Í ljósi þeirra samnaburðarrannssókna sem hafa mjög rutt sér til rúms á undanförnum áratugum þegar reynt er að draga upp heilsteypta mynd af fornum samfélögum og munnlegri geymd þá væri freistandi að spyrja sem svo hvort ekki megi nota upplýsingar úr Vesturheimi til að bera saman við landnámsöld á Íslandi þúsund árum fyrr. Slíkur samanburður er mjög ótraustur fyrir þá sök að þau tvö þjóðfélög sem hér um ræðir eru miklu ólíkari en mörg svokölluð frumstæð þjóðfélög og íslenska þjóðveldið. Íslensk menning á ekki saman nema nafnið þó að margir séu fúsari til að yfirfæra ástand á Íslandi á 19. öld yfir á fornöldina heldur en að líta til annarra þjóða, á öðru menningarstigi, í samanburðarskyni. Þó veitir vesturíslenskan ýmsar almennar upplýsingar um samspil tungumála sem geta komið okkur að gagni við að skilja til dæmis samspil gelísku og norrænu á víkinga- og landnámsöld.

Afdrif íslenskunnar - og írskunnar

Fyrir vestan hverfur íslenskan með þremur kynslóðum - og hún hverfur svo rækilega að það finnst varla tangur né tetur eftir af henni í ensku afkomendanna. Einu orðin sem lifa tengjast íslenskri matargerð sem hefur verið langlíf vestra og orð eins og skyr (með nær fastan flámæltan framburð), kleinur og vínarterta eru þekkt í Manitóba-ensku. Jafnvel á þessu sviði eiga orðin þó erfitt uppdráttar. Reynslan af örlögum íslenskunnar vestra sýnir að það segir ekkert um fjölda íslenskra málhafa meðal landnámsmanna í Nýja-Íslandi þó að íslensk tökuorð séu mjög fá í ensku afkomendanna. Til þess að tökuorð berist á milli mála þurfa þau að koma með nýrri tísku eða menningu og slíku var ekki til að dreifa nema á sviði matargerðar. Ef við flytjum okkur aftur um þúsund ár þá segir það heldur ekkert um fjölda gelískumælandi manna á Íslandi í öndverðu þó að fá gelísk tökuorð hafi náð fótfestu í íslensku - en þannig hafa menn notað þessa staðreynd í umræðunni. Það segir okkur einungis að frá gelísku menningarsvæði barst ekki nýtt verklag eða tækni sem þurfti að lýsa með nýjum orðum - en það vitum við líka af vitnisburði fornleifafræðinnar.

Munnleg hefð og ritmenning

Vesturíslenskan byggist í seinni tíð að mestu leyti á munnlegri geymd og því gætu menn freistast til að halda að sú geymd gæti upplýst okkur um fornöldina. En svo er vitaskuld ekki. Þjóðfélagið er orðið svo gegnsýrt að öðru leyti af hugsunarhætti ritmenningarinnar að sú munnlega geymd á ekki saman nema nafnið auk þess sem mikið var ritað á íslensku á fyrri tíð í Vesturheimi. Sú rithefð hefur m.a. haft þau áhrif að fólk telur þarflausu að segja þær sögur sem komnar eru á bækur og halda til haga þeim fróðleik sem hefur þegar verið bjargað um landnámið svo dæmi sé tekið. Þannig er ekki mikið samspil milli rithefðar og munnlegar hefðar og þau kvæði sem fólk kann eru mörg hver lærð orðrétt af bókum eða úr blöðum - eða þá að fólk vitnar til þess að það eigi nú eitt og annað skrifað af kvæðum. Þulur voru að vísu margar til í minni kvenna sem talað var við. Þulurnar höfðu konurnar lært af formæðrum sínum, en þuluhefðin er þó nær því að vera stirðnaðar leifar frá Íslandi en lifandi hefð í Vesturheimi.

Örlög íslenskra drauga vestra

Í safninu er lítið um þjóðsögur og ævintýri sem landnemarnir fluttu með sér frá Íslandi og svo virðist sem íslenskir draugar hafi ekki kunnað við sig vestra; flestir snúið við til gamla landsins, sumir jafnvel á leiðinni yfir hafið samkvæmt sumra manna sögn. Í Íslensku vættatali sínu frá 1990 hefur Árni Björnsson sett fram þá skoðun að trú almennings á drauga hafi aldrei verið útbreidd og sögur af þeim hafi fyrst og fremst haft skáldskapar- og skemmtigildi. Þessu til sönnunar bendir Árni á að heimildarmenn vísi alltaf til þess að einhverjir aðrir hafi trúað þessu áður fyrr en sjálfir hafi þeir ekki orðið varir við neitt (bls. 159-163). Slík viðbrögð eru einnig mjög algeng meðal Vestur-Íslendinga við spurningum um drauga og fyrirburði. Þeir segja að þeir gömlu frá Íslandi hafi trúað þessu alveg hreint en þeir telji nú sjálfir margt vafasamt í draugafræðum. Hins vegar er mikið um að fólk hafi orðið fyrir eða trúi á reynslu sem "ekki er hægt að skýra með neinum vísindum" eins og Magnús Elíasson orðar það á einum stað. Í þessum flokki eru dulrænar sögur um margs konar reynslu, bæði heimildarmanna og annarra, s.s. um drauma fyrir stórtíðindum og ýmsu smálegu, um fylgjur og jafnvel um feigðarboða. Þá eru ótaldar sögur af íslenskum draugum, mórum, skottum og huldufólki en nafngreindar vættir í safninu eru Leirár-Skotta, Rauðafells-/Rauðamels-Móri, Írafells-Móri, Rauðpilsa og Þorgeirsboli. Í viðureign sinni við íslenskar vættir eru þess dæmi að Vestur-Íslendingar í Nýja Íslandi hafi notað silfurhnapp eða gyllta hnappa af hafnsögumannsbúningi frá Austurlandi til að skjóta svonefndan Öldudraug.

Einlæg trú eða gamansemi?

Nokkuð er um að sagnamenn vilji ekki fyllilega ábyrgjast þær sögur sem þeir segja og vísa þá stundum til þess að þeir gömlu hafi haldið íslenskum vættum meira á loft. Aðrir skemmta með tilbúnum draugum, ýmist uppstoppuðum á skógarstíg eða hljóðandi eftirhermum úr leyndum stað á miðilsfundum, sem trúgjarnir og skyggnir menn létu glepjast af, öðrum löndum til gamans. Þær vættir sem veruleg ógn stendur af í Vesturheimi eru hins vegar ekki af íslenskum ættum, heldur framliðnir indíánar sem fylgja landinu og koma til veiði- og ferðamanna í óbyggðum. Svo er að sjá sem sumir þeirra hafi kynnt sér starfsaðferðir þekktra óvætta í Gamla heiminum, eins og Gláms í Grettis sögu, því að þeir vitja íslenskra kraftamanna um nætur og glíma við þá uns landarnir hafa þá undir.

Rauðpilsa "missti skipið"

Nafngreindar íslenskar vættir hafa aldrei náð sams konar krafti í Vesturheimi og þær sem fyrir voru í landinu og kom máttleysi þeirra strax fram í vesturferðunum á síðustu öld. Þá lentu sumar þeirra í vandræðum með far til að komast með landnemunum vestur og þess eru jafnvel dæmi að þær hafi misst af skipinu. Þannig fór fyrir Rauðpilsu sem hafði ásótt smið á Undirfelli. Sá komst þó heilu og höldnu til Winnipeg og hitti þar Einar nokkurn sem vissi af vandræðum hans með Rauðpilsu á Íslandi:
En svo, svo kom þessi, svo kom þessi maður til, til Ameríku og Einar mætti honum aftur í Winnipeg og þá fór hann að spurja hann eftir hvurt að þessi, hvað kallaðirðu? Rauð...

[Valdheiður, kona Stefáns:] Rauðpilsa.

Rauðpilsa væri enn með honum. Hann segir: 'Nei, hún tapaði af skipinu þegar ég fór að heiman. Hún stóð á bryggjunni og missti skipið .' Svo hann losnaði við hana þegar hann kom til Ameríku. [hlær]

[H.Ö.E.:] Það hefur ekki verið neitt, - það hefur enginn maður verið sem að hefur varnað því að hún kæmist um borð?

Nei, hún, hann hélt bara að hún hefði ekki, - komst ekki á skipið í tíma , var rétt komið frá bryggjunni, - þegar að hann sá hana koma á bryggjuna. Og já, Einar, hann spurði hann hvað hefði þá orðið um hana. Hún tók þá einhvurn annan, bróðir hans eða eitthvað. [hlær]

Sögn Stefáns Ágústs Sigurðssonar, Árnesi EF 72/15

Sumir draugar snúa við

En ekki létu allar vættir sér segjast eins og Rauðpilsa sem "tók þá einhvurn annan". Sumar lögðu af stað yfir hafið en á leiðinni tók ekki betra við:
Baldvin heitinn á Kirkjubæ sagði mér, - hann bjó hér fyrir sunnan. Hann var landnámsmaður hér, með þeim fyrstu sem komu. Hann sagði að ættarfylgjur hefðu ekki komist lengra en á mitt Atl-, Atlantshaf því að þar hefðu þær allar sokkið, með Íslendingum. Þær he-, þeir hefðu ekki selt þeim far en þær hefðu tölt á eftir. Þeir voru uppgefnir að, að ganga á sjónum. Þegar kom á mitt Atlantshaf þá sukku þær. Því það var heilmikið af ættarfylgjum og draugasögum á Íslandi.

[H.Ö.E.:] Jújú.

Já. En það er ekki, ekki, ekki hér. Það sjást ekki þessir draugar eða álfar hér nema í, - nema þá ef það er einhvur í skóginum.

[H.Ö.E.:] Já. Já, það eru huldusveinar sem stúlkurnar finna hér í skógnum og, og, og huldumeyjar sem strákarnir finna í skógnum. Það, það er, - þetta er sléttlendi, ekki fjöllin eða steinarnir að fela sig á bakvið.

Sögn Andrésar Guðbjartssonar, fyrir norðan Hnausa, EF 72/31

Draugum leiddist vestra

Hætt er við að Andrés Guðbjartsson taki heldur stórt upp í sig þegar hann segir að "þessir draugar eða álfar" sjáist ekki þar vestra. Heimildir eru fyrir því að fjölmargir draugar hafi komist á leiðarenda og fylgt fyrstu landnemunum, en að þeim gengnum fór draugunum að leiðast og þeir tíndust heim aftur, eins og Sigurður Sigvaldason segir frá:

[H.Ö.E.:] Voru nokkrir draugar hérna í Víðirbyggðinni?

Bíddu nú við. Það kom fjöldi af draugum með þessum Íslendingum hér áður, sem að flæktust frá Íslandi og hingað vestur. En svo, - og, og þeir vóru hér niðri í Geysir og niður með Riverton og hérna meira að segja vestur á Víðir. En núna er ekki nema eitthvað einn eða tveir. Þeir segja, þeir sem mjög kunnugir eru, að það sé, það sé ung stúlka draugur fyrir austan Árborg. En það hefur enginn af þessum sem ég þekki orðið svo frægir að sjá hana. En við höfðum mann sem var að vinna fyrir sveitina, einn á vegastæði að byggja þetta upp. Og honum var illa við að vera þarna því að hann sagði að það væri reimt þarna. En ég skal segja þér að þessir, þegar að þetta fyrsta fólk dó þá leiddist þessum draugum hér og þeir eru komnir allir heim til Íslands aftur. [hlær]

[H.Ö.E.:] Hvaða draugar voru þetta sem að voru hér á sveimi?

Það var, - ég veit ekki hvort að Þorgeirsboli kom nokkurn tímann hingað. En það var einhvur Skotta sem var hér suðvestur í byggðinni og ég veit að einn af gömlum nágrönnum mínum, - þú lætur öngvan á Víðir heyra þetta - hann komst ekki heim fyrr en að hann var búinn að opna hníf og halda á honum fyrir framan sig. Það var svo mikið af draugum þá hér. En það er eins og ég segi, þeir eru búnir að flækjast allir heim aftur.

Sögn Sigurðar Sigvaldasonar, Víðirbyggð, EF 72/17

Trú og gamansemi

Ekki er gott að segja til um hvaða raunveruleiki búi að baki þessum sögum; trúði fólk almennt á drauga og stóð því sannanlega mikil ógn af þessum vættum? Eða eru þetta bara frásagnir einkennilegra og sögufróðra manna og kvenna sem skemmta viðstöddum eftir því sem hæfileikar þeirra standa til? Og býr þá ekki raunveruleiki sögunnar í sögunni sjálfri fremur en í veröldinni umhverfis? Einhvers konar svar við þessum spurningum gæti falist í frásögn sagnamannsins Eðvarðs Gíslasonar sem virðist hafa lesið Íslendingabók Ara fróða um Teit og langminni Halls í Haukadal og nýtt sér þann kafla þegar hann brást með eftirfarandi hætti við spurningu Hallfreðar um hvort hann hafi ekki sagt draugasögur stundum sjálfur:
No, það var nú ekki mikið um það. Ég hlustaði á. Því að, eh, ég var ekki, eh, nefnilega þar sema þessar sögur gerðust. Það var í byggðinni þarna fyrir austan þar sem að þeir, eh, hérna settust að fyrst. Og þá var náttúrlega þessi trú voðalega sterk, sérðu, eh, meðal Íslendinga. Til dæmis, núna er ekki orðið mikið um þettað. Ekki í þessari mynd. Kannski í öðrum myndum [S].

[H.Ö.E.:] En sagðir þú nokkuð sögur þegar þú varst yngri?

Nei, það var mjög lítið sem ég sagði sögur þegar ég var yngri. En ég átti frænda. Ég var að segja þér frá honum Gísla, Gísla Einarssyni sem að kvaddi hann, hann, hann hérna, hann hérna hann, hann Gvend [...]. Hann var yngri en Gísli þessi, eh, Þó-, Þórarinn, og hann kom á seinni árum eftir að hann hætti nú að vinna, þá kom hann stundum vestur til okkar. Og ég hafði gaman af honum. Og hann sagði ákaflega vel frá og hafði gott minni. Og hann sagði frá ýmsu sem hefði gerst þar því að hann var búinn að vera þar nokkuð lengi áður en við komum, sérðu. Og þegar þessar draugasögur og kynjasögur gengu þarna þá var hann svona líklega svosem eins og fimmtán, sextán ára gamall, you know , og þetta náttúrlega hefur fallið í frjóan jarðveg, sérðu, - haft ákaflega gaman af þessu. Því á, á þessum árum þá var svo lítið til skemmtana, og eitthvað svona, sérðu, þetta var svo mikill dagamunur, sérðu, að heyra eitthvað svona og tala eitthvað um svona, sko. Já, eins og gengur og gerist.

Já. Já. Já, Tóti, já. Hann var góður drengur og sagði frá.

Sögn Eðvarðs Gíslasonar frá Nýja Íslandi, í Árnagarði 13. júlí 1974

Þær heimildir um íslenska vættatrú í Vesturheimi sem hér hafa verið dregnar fram gætu rennt stoðum undir vantrú Árna Björnssonar á einlægni okkar gömlu karla og kerlinga sem kusu á hugarflugi sínu að skemmta með hryllingssögum af draugum og vondum vættum, enda "þótt einungis lítill hluti sögumanna og áheyrenda tryðu þeim eða álíka margir og þeir sem enn halda að kúrekamyndir og Tarsanbækur segi sannleikann um mannlíf í Ameríku og Afríku." (Árni Björnsson, tilv. rit, bls. 163) Gamansemi sagnamanna og tilhneiging þeirra til að koma þessari trú yfir á gengnar kynslóðir eða fólk í næstu byggð bendir a.m.k. til að þeir hafi ekki trúað eigin orðum nema rétt mátulega til að geta sagt söguna nógu vel og þannig haft ofan af fyrir þeim vildu "heyra eitthvað svona og tala eitthvað um svona, sko."