Skip to main content

Pistlar

brandajól

Eldiviður orðinn rauðglóandi.
Jarl Schmidt / Unsplash

Orðið brandajól er almennt notað yfir það þegar helgidagar jóla renna saman við aðra helgarfrídaga. Í tímans rás hefur helgidagahald breyst og sömuleiðis hvaða dagar eru frídagar og í takt við það hefur skilningur og merking orðsins einnig tekið breytingum. Nýlega skýringu orðsins brandajól má finna í Íslenskri nútímamálsorðabók:

Í Íslenskri orðabók (2007) er reynt að ná yfir sögulegar breytingar á merkingu þessa orðs auk þess sem þar má finna sömu skilgreiningu og í Íslenskri nútímamálsorðabók á litlu og stóru brandajólum:

branda·jól: jól þegar sunnudagur bætist við á undan eða eftir, óljóst nákvæmlega hvernig og misjafnt eftir tímum vegna mismargra jólahelgidaga (í katólskum sið 4 dagar, eftir það til 1700 3 dagar, síðan 2 dagar auk aðfangadags, einnig virðist stundum eftir siðaskipti miðað við fyrri stöðu jólahelgidaga)

Á þessum orðum sést að það hefur í gegnum tíðina verið breytingum háð hvað eru brandajól og þá einnig hvað eru stór eða lítil brandajól. Jólahelgidagarnir voru upphaflega fjórir en frá siðaskiptum þrír: jóladagur, annar og þriðji í jólum en sá síðastnefndi var afnuminn sem frídagur árið 1770 (sbr. Árna Björnsson 1993:385). Aðfangadagur taldist virkur dagur sem og laugardagar. Þeir voru því ekki með í elstu útreikningum á brandajólum þótt þeir séu taldir með í dag.

Í eldri orðabókum má finna skýringar á brandajólum sem endurspegla skilning samtímans. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals (1921‒1924) stendur eftirfarandi:

branda·jól: npl. i ældre Tid: Jul, naar Juleaftensdag el. Dagen efter tredje Juledag er en Söndag (BH.) nu: Jul, naar förste Juledag falder paa en Mandag, saaledes at der følger 3 Helligdage paa hverandre (litlu brandajól), eller paa en Fredag, saaledes at der følger 4 Helligdage paa hverandre (stóru brandajól). Stóru brandajól anses for at varsle Uheld for Sømænd og Barselkvinder i det følgende Aar.

Sigfús minnist hér á þá hjátrú að stóru brandajól boði ógæfu sjómanna sem og kvenna við barnsburð á komandi ári. Hann gerir greinarmun á merkingu orðsins áður fyrr og nú og vísar í orðabók Björns Halldórssonar (BH) sem var tekin saman á seinni hluta 18. aldar. Orðabók Björns inniheldur orðskýringar á latínu og dönsku og í henni kemur fram að talað sé um brandajól þegar dagurinn fyrir jóladag, þ.e. aðfangadagur, eða þegar dagurinn eftir þriðja í jólum sé sunnudagur. Í athugasemd sem Björn bætti við orðabókina kemur fram tilraun til að skýra uppruna orðsins:

„So hafa menn kallad fyrrum þegar 4 voru samann fyrstu helgidagar i Iólum. Seigia menn ad sídasta qvöldid hafi þionustufolkid átt afgángs branda, og gietad þar med giort sier gott og setid vid lángelda. Ordid er almennilegt enn faum avdskilid nu á timum.“ (Björn Halldórsson 1992:83).

Af orðum Björns má sjá að orðið hefur verið vel þekkt á 18. öld en uppruni þess ekki verið ljós. Hann tengir brandajól við eldibranda, þ.e. logandi eldivið, og telur skýringa á orðinu að leita í því að þjónustufólk hafi þá getað setið við eldinn lengur en vanalega.

Orðið brandajól kemur einnig fyrir í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (AM 433 1‒2 fol.) sem ætla má að sé frá miðri 18. öld. Orðskýringar Jóns eru á latínu en þar segir að brandajól séu þegar fjórir helgidagar eru í röð. Stærri brandajól kallist það þegar jóladagur er á mánudegi en minni brandajól ef sunnudagur komi á eftir þriðja jóladegi (sem var þá álitinn helgidagur) (sjá t.d. umfjöllun Þorsteins Sæmundssonar 1994). Jón tengir einnig upprunann við elda: „propter plures majores ignes sic dictum“ ‚… vegna margra stórra elda er það svo kallað‘. Hér er fyrst minnst á að til séu tvenns konar brandajól: stærri og minni.

Elsta örugga heimildin um orðið brandajól er þó eilítið eldri, eða frá upphafi 18. aldar og heimildarmaður enginn annar en Árni Magnússon. Í handskrifuðum blöðum Árna um tímatalsathuganir (AM 732 a XII 4to) er sagt að gamlir menn á Íslandi kalli það brandajól þegar „jóladag ber á mánadag“, þar af leiðandi einnig áttadag (þ.e. áttunda dag jóla sem er nýársdagur) og þrettánda á laugardag. Hann greinir frá því að sumir telji þetta einungis eiga við á hlaupári.

Um brandajól. Eiginhandarrit Árna Magnússonar.
Úr eiginhandarriti Árna Magnússonar, AM 732 a XII 4to (sbr. Sprogsamlinger).

Árni nefnir hugsanlegar skýringar á uppruna orðsins og setur fram tvo möguleika sem báðir tengjast eldi. Hann segir að brandajól gætu svo kallast því að þá er „hætt við húsbruna“. Einnig gæti orðið verið dregið af „miklum ljósabrennslum“. Hér ber því að sama brunni og hjá Birni Halldórssyni og Jóni Ólafssyni. Brandarnir í brandajólum eru eldibrandar eða eldiviður sem virðist hafa verið notaður óspart og meir þegar svo margir frídagar fóru saman þar sem fólk hefur þá væntanlega eytt miklum tíma innandyra og því þurft meiri kyndingu. Ef til vill hefur óvenjumiklum eldiviði verið safnað fyrir brandajól til þess að þeir entust alla dagana (sjá Frosta Jóhannsson 1992:45‒46 um nánari útleggingu á þessu). Eldur hefur því logað lengur og meir þessa brandajóladaga en um venjulega sunnu- eða helgidaga.

Hugsanlega er til enn eldri heimild um brandajól því að orðið kemur fyrir í kersknivísu sem hefur verið eignuð Hallgrími Péturssyni (1614‒1674) um mann að nafni Brand: Brandi eg Bröndung sendi / Brandi guði til handa / Brand bið eg blessan hendi / Brandur forðist vanda / Brandur brátt svo lendi / þá Branda-jólin standa / branda frægur bendir / Brandr á Ísalandi (sbr. NL). Ef þessi vísa er eftir Hallgrím sýnir hún að orðið hefur verið nógu þekkt á hans dögum til að hægt væri að nota það í orðaleikjum.

Af því sem hér hefur verið rakið má sjá að orðið brandajól á sér langa sögu en ekki er skýrt hver uppruni þess er, þótt hann tengist líklegast eldibröndum. Einnig er á reiki hvernig dagarnir eru taldir. Jólin í ár, 2023, eru litlu brandajól samkvæmt nútímahugmyndum um merkingu orðsins en teljast einfaldlega brandajól ef farið er eftir elstu skilgreiningu hjá Árna Magnússyni.

Birt þann 4. desember 2023
Síðast breytt 4. desember 2023
Heimildir

Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.

Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. Rasmus K. Rask (ritstj.). Havniæ: J. H. Schubothum.

Björn Halldórsson. 1992. Orðabók. Íslensk-latnesk-dönsk. Ný útgáfa: Jón Aðalsteinn Jónsson (ritstj.). Orðfræðirit fyrri alda 2. Reykjavík: Orðabók Háskólans.

Frosti F. Jóhannsson. 1992. ‘Brandajól’ í Dagamunur gerður Árna Björnssyni sextugum 16. janúar 1992, bls. 42‒46, Reykjavík.

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. <islenskordabok.is>

Íslensk orðabók. 4. útgáfa. 2007. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík: Edda.

Íslensk-dönsk orðabók. <blondal.arnastofnun.is>

NL = Nokkur ljóðmæli eptir Hallgrím Pjetursson, með æfisögu hans. 1885. Prentað hjá Einari Þórðarsyni, Reykjavík

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. <ritmalssafn.arnastofnun.is>

Sigfús Blöndal. 1920‒1924. Íslensk-dönsk orðabók / Islandsk-dansk ordbog. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.

Þorsteinn Sæmundsson. 1994. ‘Brandajól’ í Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags 1969 og 1994.

Upplýsingar um handrit og myndir

Handrit.is. <handrit.is>

Sprogsamlinger. Københavns Universitet. < sprogsamlinger.ku.dk>