Skip to main content

Pistlar

Jólasveinar á selskinnsbátum

Umiak-bátur við Grænland árið 1875
Umiak-bátur við Grænland árið 1875

Þeir eru illir að eðlisfari og líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði og eru rógsamir og rángjarnir, einkum á börn. […] Þeir koma hingað með byrjun jólaföstu á selskinnsbátum sínum vestan frá Grænlandsóbyggðum eða, að sumra sögn, austan frá Finnmörk og kalla sumir byggðarlag þeirra þar Fimnam.

Í nútímanum fer ýmsum sögum um það hvaðan jólasveinarnir koma. Liggja ræturnar í Esjunni, í Dimmuborgum, í Finnland eða höfuðstöðvum The Coca-Cola Company? Tilvitnunin hér að ofan bætir enn einum upprunastaðnum við, nefnilega Grænlandi eða mögulega Finnmörk sem vissulega er ekki langt frá Finnlandi. Þannig lýsir Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnari jólasveinum í safni sínu Íslenskar þjóðsögur og sagnir sem fyrst kom út á árunum 1922−1959 en mikið af efninu þar er skrásett upp úr aldamótunum 1900. 

Þótt flestir þekki kannski þá sögu að jólasveinarnir séu þrettán og búi með foreldrum sínum Grýlu og Leppalúða í fjöllunum þá þekkist einnig í þjóðsögunum að þeir komi af hafi og lifi á blótsyrðum eins og í tilvitnuninni hér að framan. Nokkrar sagnir þess efnis má finna í safni Sigfúsar. Ekki er getið um heimildarmenn nema fyrir sögninni Sjón Ásbjarnar og bjó hann á Bóndastöðum í Hjaltastaðarþinghá. Þar sem Sigfús safnaði langmest á Austurlandi má telja líklegt að hina sögurnar séu ættaðar annars staðar að af Austurlandi. 
Þessar sagnir eru ekki aðeins óvenjulegar að því leyti að jólasveinarnir komi af hafi á selskinnsbátum heldur minna þær einnig um margt á sagnir eins og Púkinn á kirkjubitanum eða Púkinn og fjósamaðurinn, sem fjalla um púka sem verða feitir af að heyra blótsyrði. Jólasveinarnir skipa sér þannig gjarnan á bæi, þeir hafa ekki nein sérstök nöfn en yfir jólin dvelja þeir á bæjunum og nærast á blótsyrðum heimilisfólks sem sennilega er ágæt leið til að minnka blótið svona rétt yfir jólin. 

Í safni Sigfúsar er einnig að finna fjögur kvæði um jólasveina. Tvö þeirra eru vel þekkt, Jólasveinar einn og átta og Jólasveinar ganga um gólf. Þar er þó einnig að finna kvæði sem byrja á línunum Jólasveinar tólf og tíu og Jólasveinar fimm og fjórir sem er eftirfarandi: 

Jólasveinar fimm og fjórir 
Fimnam komu norðan af 
kloflangir og kynja stórir, 
komnir norðan reginhaf. 
Best hver þessi bófinn tórir 
barna ljótt ef heyrir skraf. 

 

Birt þann 12. nóvember 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Ritstj. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961). 

Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 11. Bindi; 2. útgáfa. Ritstj. Óskar Halldórsson o.fl. (Reykjavík: Þjóðsaga hf.,1982-1993). 

Mynd: Sjöhistoriska museet