Skip to main content
1. nóvember 2018
Hvammsbók Njálu – AM 470 4to

Á sýningunni Lífsblómið – fullveldi Íslands í 100 ár sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands má meðal annars sjá fjögur handrit sem geyma Brennu-Njáls sögu. Eitt þeirra er svokölluð Hvammsbók (AM 470 4to), nefnd eftir þeim stað þar sem hún var skrifuð: Hvammi í Dölum. Þar bjuggu á 17. öld hjónin Guðlaug Pálsdóttir og Ketill Jörundsson prestur og prófastur, en þau voru amma og afi Árna Magnússonar handritasafnara.

1. október 2018
Njáll á ferð og flugi. Reykjabók Njálu – AM 468 4to

Á sýningunni Lífsblómið – fullveldi Íslands í 100 ár, sem opnuð var í Listasafni Íslands 17. júlí sl. og stendur fram í desember, verða til sýnis nokkur miðaldahandrit úr eigu Árna Magnússonar. Eitt þeirra er Reykjabók Njálu, AM 468 4to, sem talin er rituð um 1300. Handritið er varðveitt í Árnasafni í Kaupmannahöfn en fékkst lánað á sýninguna. Af því tilefni fjallar handritapistill októbermánaðar um Reykjabók Njálu.

1. september 2018
Ormsbók. Hinn norræni goðsagnaheimur – AM 242 fol.

Ormsbók – Codex Wormianus – sem rituð er um 1350, er merkilegt handrit vegna innihalds síns, sögu og varðveislu. Einn þeirra fáu íslensku miðaldahöfunda sem við vitum deili á er Snorri Sturluson (1179−1241). Það rit sem með öruggastri vissu er honum eignað er Edda, sem einnig er nefnd Snorra-Edda – til aðgreiningar frá hinum höfundarlausu eddukvæðum sem áður gengu undir heitinu Sæmundar-Edda.

1. ágúst 2018
Staðarhólsbók Grágásar – AM 334 fol.

Staðarhólsbók er í hópi veglegustu skinnhandrita Árnasafns, lagahandrit í arkarbroti (folio) og að líkindum meðal elstu íslensku handrita sem varðveist hafa heil að kalla. Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol.) tekur henni fram í mikilleik og íburði eitt íslenskra lagahandrita frá miðöldum, en það er yngra handrit.

1. júlí 2018
Möðruvallabók – AM 132 fol.

Möðruvallabók er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna og þekktasta handrit þeirra. Bókin er talin skrifuð um miðja fjórtándu öld. Í henni eru Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar, Finnboga saga ramma, Bandamanna saga, Kormáks saga, Víga-Glúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra saga, Hallfreðar saga vandræðaskálds, Laxdæla saga og Fóstbræðra saga.

19. júní 2018
Handrit skólakennara?

AM 76 8vo er lítið, óásjálegt pappírshandrit og innihaldið óvíða stórbrotnara en það sem algengt má kalla. Engu að síður er það eitt þeirra handrita í Árnasafni sem mesta athygli hafa vakið.

19. júní 2018
Dómabók úr Holti í Önundarfirði – AM 196 4to

Sumarið 1710 var gott og þurrt að sögn annála. Þá var Árni Magnússon, prófessor í dönskum fornfræðum við Kaupmannahafnarháskóla, á ferð um Vestfirði með skrifurum sínum þeirra erinda að gera jarðabók eftir skipan Friðriks IV. Danakonungs. Jafnframt nýtti Árni sér ferðina til þess að viða að sér gömlum handritum og skjölum. Hann kom að Holti í Önundarfirði 16. ágúst og voru gestgjafar hans prestshjónin Sigurður Jónsson og Helga Pálsdóttir. Þau voru í góðum efnum, talin vel ættuð, séra Sigurður úr Vatnsfirði við Djúp og Helga frá Selárdal.

19. júní 2018
Huggunarsálmur

Á dögunum fékk Þórunn Sigurðardóttir Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, 2016 í flokki fræðirita og rita almenns eðlis fyrir bókina Heiður og huggun: Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. Bókin var gefin út á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Reykjavík, 2015). Af þessu tilefni var Þórunn fengin til að skrifa um eitt handritið sem hefur að geyma erfiljóð, harmljóð eða huggunarkvæði.

 

19. júní 2018
Alexanders saga – framandi efni fært í íslenskan búning

Alexanders saga er norræn þýðing á latneska kvæðabálkinum Alexandreis sem Gautier de Châtillon setti saman um 1180. Kvæðið er um það bil 5500 línur að lengd, ort undir sexliðahætti (hexametri) og skiptist í tíu bækur. Þar er lýst lífi og afrekum Alexanders mikla sem uppi var á fjórðu öld f. Kr. og lagði undir sig mörg lönd. Kvæðið náði fljótt fádæma vinsældum í Evrópu á miðöldum og öðlaðist snemma sess sem skólatexti.