Skip to main content

Pistlar

Handrit skólakennara?

AM 76 8vo er lítið, óásjálegt pappírshandrit og innihaldið óvíða stórbrotnara en það sem algengt má kalla. Engu að síður er það eitt þeirra handrita í Árnasafni sem mesta athygli hafa vakið.

Í handritinu eru níu kver sem samanlagt eru 142 blöð. Kverin hafa að öllum líkindum ekki verið bundin inn fyrr en löngu eftir að Árni Magnússon fékk þau í hendur, óvíst hvenær og hvaðan. Á blöðunum eru margar rithendur; skriftin er látlaus léttiskrift frá síðmiðöldum og fyrir utan rauðar fyrirsagnir er hér ekki annað skreyti en smáflúr hér og þar og tvö svolítið stærri rósaflúr með áletrunum í sveigðum borðum. Annar borðinn vindur sig utan um bókstafina F og gegnumstrikað P. Það gæti líkst bókmerki, en ekki hefur tekist að greina merkingu þess, og það eina sem vitað er um tilurð handritsins er að pappírinn hlýtur að vera frá tímabilinu 1452–1467, eftir vatnsmerkjunum að dæma. Handritið hefur því að líkindum verið skrifað á síðari hluta 15. aldar.

Sú spurning sem fyrst og fremst vaknar hjá nútímalesanda við að skoða þetta handrit er hvaða hlutverki bókin hafi gegnt á sínum tíma. Innihaldið er ruglingslegt sambland lengri og styttri texta, sem virðast vera skráðir niður á ólíkum tímum og ekki alltaf í þeirri röð sem beinast liggur við. Textarnir eru ýmist í bundnu eða óbundnu máli, ýmist á (lélegri) latínu eða (skárri) dönsku, ýmist trúarlegir eða veraldlegir, en bera það yfirleitt með sér að skrásetjarinn sé enginn lærdómsmaður.

Aðeins einn af lengri textunum er á latínu, helgisagan um bernsku Jesú, sem er viðbót við stuttaralegar frásagnir biblíunnar. Annars einskorðast latínan aðallega við höfundarlausar smágreinar sem miðla ýmiss konar vitneskju – guðfræðilegri, tónlistarlegri, stærð- og landfræðilegri, læknisfræðilegri o.s.frv. – af lélegasta tagi.

Aðalpartur handritsins (bl. 32r–91v) er frjálsleg dönsk endursögn á Lucidarius (Ljósberanum), sem þekktur er víða um Evrópu. Í textanum er þekking miðaldamanna sett fram á alþýðlegan hátt í formi samtals fróðleiksfúss nemanda og nærri alviturs meistara. Í kaflanum um Guð er að finna mjög ljóðrænar klausur – ef til vill eru þær sjálfstæð dönsk viðbót – og á hinn bóginn má sjá nokkur býsna gamansöm innskot í kaflanum um heiminn og íbúa hans. Í kaflanum um messuna koma Faðirvorið og trúarjátningin í fyrsta sinn fyrir á dönsku.

Dönsku textarnir hafa auk þess að geyma predikanasafn, syvsalmen, sem er þýðing á sjö yfirbótarsálmum Gamla testamentisins með tilheyrandi áköllum til helgra manna innan kirkjunnar, nokkrar bænir og allmörg ljóð. Meðal ljóðanna eru nokkur sem heyra til Maríuvísna, sem er samevrópsk bókmenntategund, en vísurnar hér eru áreiðanlega danskar að uppruna og einstakar að því leyti að höfundur tilbiður hina heilögu jómfrú á sama hátt og farandskáld sína útvöldu. Hann kynnir sig á einum stað sem Per Ræv Lille (Pétur yrðlingur); en hver þessi persóna eða hrekkjalómur er, og hvort hann er í raun og veru höfundurinn sjálfur, er með öllu óvíst.

Það sem er ekki síst athyglisvert við þetta handrit er að nótur fylgja sumum ljóðanna, jafnt dönskum sem latneskum. Tónlist er annars nánast óþekkt í forndönskum handritum, og tvíradda lög, sem eru allnokkur í bókinni, koma fyrst fyrir hér.

Flest rök hníga að því að AM 76 8vo hafi verið handbók kennara í dönskum barnaskóla, mögulega tengdum fransiskanareglunni. Hver svo sem skólinn var verður að viðurkenna að hann var ekki upp á marga fiska. Handritið er varðveitt í Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018