Skip to main content

Gyðinga saga

Útgáfuár
1995
ISBN númer
997981957x
Þessi nýja útgáfa Gyðinga sögu leysir af hólmi útgáfu Guðmundar Þorlákssonar, sem var prentuð í Kaupmannahöfn 1881. Hún er með rækilegum inngangi á samtals 152 blaðsíðum. Í innganginum er í fyrsta lagi nákvæm lýsing á handritum sögunnar, þar sem fjallað er um aldur þeirra og uppruna, skrift og stafsetningu og skyldleika þeirra innbyrðis. Annar kafli inngangs er um höfund sögunnar og aldur hennar, þriðji kafli um heimildir hennar og fjórði kafli um þýðinguna. Inngangur, svo og skýringar neðanmáls við texta sögunnar, er á ensku, en efniságrip formála á íslensku. Texti sögunnar er prentaður á 218 blaðsíðum stafrétt eftir öllum handritum sem hafa textagildi. Neðst á hverri blaðsíðu er prentaður latneskur texti þeirra heimilda sem höfundur sögunnar hefur notað.

Gyðinga saga hefst á stuttu yfirliti yfir landvinninga Alexanders mikla, sundurlimun ríkis hans og uppruna stórveldis Selevkída, en síðan er farið yfir sögu Gyðinga í tvö hundruð ár, fyrst sagt frá Antiochus fjórða Sýrlandskonungi, kúgun hans á Gyðingum og baráttu Makkabea við hann og síðar aðra erlenda kúgara, þar til Gyðingar urðu sjálfstæðir árið 142 fyrir Krist. Sagt er frá afskiptum Rómverja af málum Gyðinga og hvernig þeir náðu smám saman valdi á landi þeirra, frá Heródesi mikla, konungi á Gyðingalandi á árunum 37-4 fyrir Krist, upphafi veldis hans og grimmdarverkum og að lokum frá afkomendum hans og hnignun veldis þeirra. Bardagalýsingar eru drjúgur hluti frásagnarinnar. Sagan endar á þáttum af Pílatusi og Júdasi Ískaríot, þar sem uppruna þeirra og illmennsku er lýst af ótrúlegu hugmyndaflugi.

Gyðinga saga hefur verið sett saman um eða skömmu eftir miðja 13. öld eftir mörgum heimildum sem allar hafa verið á latínu. Aðalheimildirnar voru Makkabeabækur Gamla testamentisins, Historia Scholastica eftir Pétur Comestor, Antiquitates Judaicae eftir Flavíus Josephus, annað hvort sú bók sjálf eða kaflar úr henni sem hafa verið teknir upp í Historia Scolastica, og síðasti kafli sögunnar hefur verið tekinn eftir svokallaðri Historia apocrypha sem talið er að hafi verið notuð þegar Legenda aurea eftir Jakob de Voragine var sett saman. Í inngangi er gerð grein fyrir heimildum sögunnar og tekin upp dæmi úr textanum sem virðast ættuð úr einhverri óþekktri heimild.

Gyðinga saga er varðveitt heil í AM 226 fol., sem er stórt og veglegt skinnhandrit, líklega skrifað í klaustrinu á Helgafelli um það bil 1350-1370, en auk þess eru brot úr sögunni á leifum fjögurra skinnbóka frá 14. öld. Í AM 226 fol. hefur texti sögunnar verið styttur og upphaflegum stíl þar af leiðandi breytt, en kaflar úr lengri og upprunalegri gerð eru í brotunum AM 655 4to XXV og AM 238 fol. XVII, sem bæði eru úr skinnbókum frá fyrri hluta 14. aldar.

Sagan er nafnlaus í varðveittum handritum. Árni Magnússon nefndi hana Historia Judaica á latínu, og eftir því hefur verið farið þegar sögunni var gefið nafnið Gyðinga saga. Þannig er hún nefnd í skrá Jóns Sigurðssonar yfir fólíó-handrit í Árnasafni (AM 394 fol.), en Guðmundur Þorláksson segir í inngangi útgáfu sinnar að sagan hafi verið nefnd þessu nafni þegar á 18. öld. Í AM 226 fol. er þýðingin eignuð Brandi Jónssyni; þar stendur þetta við lok hennar: Þessa bók færði hinn heilagi Jerónímus prestur úr hebresku máli og í latínu. En úr latínu og í norrænu sneri Brandur prestur Jónsson, er síðan var biskup á Hólum, og svo Alexandro magno eftir boði virðulegs herra, herra Magnúsar konungs, sonar Hákonar konungs gamla (Gyðinga saga [AM 226 fol.], p. 219).

Útgefandinn, Kirsten Wolf, Ph.D., er fædd í Danmörku 1959 og er prófessor í íslensku og íslenskum bókmenntum við háskólann í Manitoba.