Skip to main content

Miðaldaævintýri þýdd úr ensku

Útgáfuár
1976
ISBN númer
9979-819-26-X
Á fyrri öldum var mikið af stuttum sögum þýtt á íslensku. Safn slíkra sagna var gefið út af Hugo Gering 1882-3 undir heitinu Íslendzk œventýri. Þar merkir orðið siðbætandi saga með guðrækilegu efni og oft útleggingu. Gering talaði um enskan flokk, 18 æventýri, sem hann lét prenta eftir AM. 624, 4to, frá því um 1500, en í það handrit vantar. Við athugun á handritinu JS. 43, 4to, sem skrifað var í Vigur upp úr miðri 17. öld, kom í ljós að þar er textinn úr eyðunni í 624 og er hann þá alls 32 sögur. Allur enski flokkurinn er gefinn út ásamt tveimur sögum til viðbótar, sem komu í leitirnar í handritum frá 17. öld, er útgáfan var í undirbúningi. Ensk hliðstæða fannst við 29 sögur, flestar í sagnasafninu Gesta Romanorum eða 18 talsins. Einnig er hliðstæður enskur texti 10 sagna í öðru riti í bundnu máli, Handlyng synne, og að auki fannst enskt kvæði með sömu sögu og eitt ævintýrið. Lausa málið er alltaf nálægara íslenska textanum en bundna málið. Í útgáfunni eru allir kunnir hliðstæðir enskir textar prentaðar neðanmáls við íslenska textann. Útgáfan hefur verið mikilvæg fyrir málfræðinga og orðabókarmenn.
Í inngangi er gerð grein fyrir kunnum íslenskum handritum, sem varðveita ensk ævintýri og eru þau yngstu frá 19. öld. - Nokkur hafa komið í leitirnar eftir að bókin kom. - Einnig er gerð grein fyrir enskum áhrifum á Íslandi og ensku ritunum, sem þýtt var úr, þ. e. heimildum ævintýranna. Talið er að ævintýrin hafi verið þýdd seint á 15. öld. Jónatas æventýri gefið út í The Story of Jonatas in Iceland (Rit Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, 45) er einnig þýtt úr ensku.