Skip to main content

Verkfæri til að greina þingmál

Afstaða stjórnmálamanna og -flokka, og ekki síður hvernig þeir kynna afstöðu sínu, er síbreytileg. Þar skiptir máli hvernig vindar almenningsálitsins blása og ekki síður hvort þeir séu í stjórn eða stjórnarandstöðu. Til að hægt sé að bera saman mál stjórnmálamanna er mikilvægt að safna nauðsynlegum gögnum og gera vandaða og ítarlega greiningu á þeim. 

Samevrópska verkefnið ParlaMint var sett á laggirnar með það að markmiði að gera fræðimönnum kleift að greina ítarlega orðræðu þingmanna á þjóðþingum Evrópu og bera saman hvernig hún birtist á mismunandi þjóðþingum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók þátt í verkefninu sem stóð yfir frá júlí 2020 og fram til maí 2021 og var stutt af CLARIN ERIC. Í verkefninu var safnað í einn gagnagrunn ræðum af þjóðþingum sem flestra Evrópuríkja frá árinu 2015 og til loka árs 2020. Með betri gögnum og greiðum aðgangi að þeim gerir verkefnið og afurðir þess m.a. mál- og félagsfræðingum auðveldara að framkvæma samanburð á milli þjóðþinga og tímabila. Sem dæmi er hægt að greina upp að hvaða marki þekking og sérfræðikunnátta var hluti af orðræðunni á þjóðþingum Evrópu á fyrstu mánuðum COVID-faraldursins og kanna hvort greinanlegur munur sé til staðar á milli landa. 

Í samanburðarrannsóknum skiptir samræmt snið gagna miklu máli en áður en ParlaMint kom til sögunnar var snið fyrir ræður þjóðþinga með ýmsu móti. Samræming var því ein af áherslum ParlaMint-verkefnisins en textar þingræðnanna voru einnig greindir og markaðir málfræðilega. Skráðar voru ítarlegar upplýsingar um ræðumenn, s.s. nafn, kyn, fæðingardagur, í hvaða stjórnmálaflokki þeir voru þegar ræðurnar voru fluttar og hvaða stöðu ræðumaðurinn gegndi á þinginu. Einnig voru skráðar upplýsingar um samsetningu stjórnar og stjórnarandstöðu. 

Með gögnunum sem safnað hefur verið á ParlaMint gefst kostur á að gera mun víðtækari og nákvæmari rannsóknir en áður. Hægt er að nálgast ParlaMint-gögnin í heild sinni á síðu CLARIN í Slóveníu. Einnig má skoða ýmsa tölfræði, orðstöðulykla og nánari upplýsingar um ræðumenn hér.

Fjóla K. Guðmundsdóttir

 

Þetta er hluti af greinaröð um máltækniverkefni innan Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

← Grein 2: Tækni í þágu orðabókargerðar