Skip to main content

Viðburðir

Árna Magnússonar fyrirlestur

13. nóvember
2023
kl. 17–18

Edda,
Arngrímsgötu 5,
107 Reykjavík,
Ísland

Árna Magnússonar fyrirlestur verður haldinn á fæðingardegi Árna 13. nóvember. Fyrirlesari að þessu sinni er Haraldur Bernharðsson, málfræðingur og dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að málbreytingum og íslenskri málsögu og miðaldahandritum sem heimild um mál fyrri alda. Erindi Haraldar nefnist Skrifarar og ritmenning á Íslandi og í Noregi á þrettándu öld.

 

Skrifarar og ritmenning á Íslandi og í Noregi á þrettándu öld

Bækur á latínu ritaðar með latínustafrófi kveiktu á elleftu og tólftu öld áhuga norrænna manna á að nýta þetta stafróf til að rita með á sína eigin tungu. Torvelt er að segja hve hratt þessum tilraunum vatt fram en þó treystust Íslendingar til að festa lög á bókfell að Hafliða Mássonar veturinn 1117–1118 og má það teljast traust vísbending um að nokkur þekking og reynsla í ritun íslensku með latínustafrófi hafi þá þegar verið fyrir hendi. Ari fróði setti „spakleg fræði“ á bækur snemma á tólftu öld og Ingimundur prestur átti kistu fulla af bókum um 1180, ef trúa má frásögn Guðmundar sögu biskups; ekki er fráleitt að ímynda sér að sú kista hafi geymt einhverjar bækur á íslensku.

Latínubækur þær er norrænir menn kynntust voru hluti af aldagamalli ritmenningu og þegar þeir rituðu á latínu höfðu þeir fjölda fyrirmynda að styðjast við. Rithefð á því máli hafði slípast í aldanna rás og allt mátti heita í föstum skorðum. Slíku var aftur á móti ekki að heilsa þegar norrænir menn freistuðu þess að nota latínustafrófið til að rita á sína eigin tungu. Norræn málhljóð voru líka að nokkru leyti önnur en málhljóð latínu. Hvaða tákn átti að nota fyrir málhljóð sem ekki var til í latínu og átti því engan fulltrúa í latínustafrófi? Latínubækur veittu skiljanlega enga forskrift um hvernig úr því skyldi leyst. Hér stóðu norrænir skrifarar frammi fyrir margvíslegum úrlausnarefnum. Laga þurfti latínustafróf að þörfum þeirra er rituðu á norrænu máli og leggja þannig grunn að alveg nýrri ritmenningu.

Ísland og Noregur voru þá enn í einu málsamfélagi. Þetta verkefni var þó ekki leyst með samstilltu átaki undir miðlægri verkstjórn, enda málsvæðið við Norður-Atlantshafið víðfeðmt, heldur réð mestu útsjónarsemi og hugkvæmni einstakra skrifara vítt og breitt um svæðið. Vel eru til að mynda þekktar hugmyndir íslensks höfundar Fyrstu málfræðiritgerðarinnar um miðja tólftu öld sem tók viðfangsefnið föstum tökum. Elstu varðveittu handrit á íslensku og norsku, frá tólftu og þrettándu öld, bera því merki mismunandi úrlausna og ólíkrar ritvenju og benda til þess að ritmenning á Íslandi hafi þróast að nokkru sjálfstætt frá því sem varð í Noregi á sama tíma. En bækur mátti flytja á milli staða og skrifarar gátu líka ferðast og á þrettándu öld má sjá bæði skýr merki um norsk áhrif í íslenskri ritmenningu og eins áhrif íslenskra skrifara í Noregi. Ekki hafa þó allir íslenskir skrifarar á þrettándu öld verið jafn-áhugasamir um að tileinka sér ritvenju starfsbræðra sinna handan hafsins og virðist mega greina í varðveittum íslenskum handritum mismunandi skrifaraskóla.

 

Mynd: SSJ
2023-11-13T17:00:00 - 2023-11-13T18:00:00